laugardagur, febrúar 28, 2009

Bjarnason stóð fyrir sínu

Var kominn af stað um kl. 6:00 í morgun. Ég þurfti að fara snemma út því dagurinn var þéttsetinn. Ég náði að fara 30 km í fínu veðri, smáfrosti, logni og stillu. Ég náði í Jóa upp úr hálf tíu og við fórum upp í MOsfellsbæ til Pálma Guðmundssonar ljósmyndara. Hann ætlaði að fara með okkur tvo og tvo til viðbótar á ljósmyndanámskeið þar sem hann ætlaði að leiðbeina við myndatökur úti á feltinu. Við fórum sem leið lá að Kleifarvatni, svo til Krísuvíkur og þar næst til Grindavíkur. Veðrið var eins og best var á kosið, heiðskýrt, logn ogg hlýtt. Eftir stopp í Grindavíkursjoppunni fórum við niður að Þórkötlustöðum en þar er gamalt bæjarstæði. Þar voru mörg fín mótív þótt þau létu ekki mikið yfir sér. Síðan fórum við að Bláa lóninu og svo heim til Mosó aftur. Þar renndi Pálmi myndunum í gegn sem við tókum og gagnrýndi þær. Það var fínt að fá sjónarhorn hans á myndunum því hann er ekki fæddur í gær í þessum efnum.

Ég fór svo um 18:30 með Maríu og nokkrar stelpur til viðbótar í vörutalningu niður í Bónus í Skútuvogi. Verkeenfið var liður í fjáröflun hjá þeim fyrir fótboltaferð í sumar. Vörutalningin gekk vel og við komum heim um kl. 23:00.

föstudagur, febrúar 27, 2009

Kinks í Austurbæjarbíói 1965

Ég er frjáls!!

Ég rak augun í það í Mogganum í morgun að Jón Kr. frá Bíldudal ætlaði að standa fyrir tónleikum í FÍH salnum í kvöld. Tilgangurinn var að afla fjár fyrir tónlistarsafnið á Bíldudal, Melódíur minninganna. Jón hefur komið safninu upp af eigin rammleik og mikilli elju. Það er með þetta eins og aðra söfnun. Það sem er venjulegt og vekur ekki eftirtekt meðan það er í notkun er orðinn safngripur og hefur sögulegt gildi eftir tiltölulega fá ár. Það vantar hins vegar oft fólk til að koma auga á hvar safngripina er að finna og þess vegna glatast þeir fyrr en varir. Í safni Jóns kennir margra grasa, grasa sem væru glötuð ef hann hefði ekki haft framsýni til að halda þeim saman.

Þar sem FÍH salurinn er hér hins vegar við götuna var það ekki ofverkið að labba niðureftir upp úr kl. 21:00. Þá var dagskráin komin á fullt og salurinn þéttsetinn. Dagskráin var keyrð á fullu fram til rúmlega 23:00. Meistarinn sjálfur söng nokkur lög í lokin. Þar á undan kom fjöldi fólks fram og var gaman að sjá það rifja upp gamla takta. Undirleikinn önnuðust kornungir strákar og kynnti Þuríður Sigurðardóttir söngkona tvo þeirra sérstaklega sem barnabörn Magnúsar Ingimarssonar. Það eru rúmlega fjörutíu ár síðan hún byrjaði að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli í gamla daga og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Þetta var fínt kvöld hjá Jóni og honum til sóma. Vonandi hefur það skilað nokkrum krónum í kassann því ekki mun af veita. Bílddælingar voru alltaf mikið leiklistar- og tónlistarfólk. Vonandi er svo enn þótt fólkinu hafi fækkað. Þar var stundum ekkert of mikið að gera á veturna og tíminn var þá nýttur þess betur til að auðga og rækta menninguna.

Ég náði aldrei að fara á ball með Facon í gamla daga fyrir vestan. Þeir hættu um það leyti sem þótti óhætt að sleppa mér á böll. Það hefur verið svona 1968 eða þar um bil. Þá voru dansleikir í vestursýslunni um hverja helgi frá júní byrjun fram til septemberloka. Birkimelur, Patró, Tálknafjörður og Bíldudalur skiptust um að halda dansleiki. Fullt af fólki og mikið að gerast. Á þessum árum var mikið af ungu fólki á þessum slóðum eins og svo víða á landsbyggðinni. Yfirleitt nóg vinna og miklir peningar. Það þótt síðan ekki frágangssök þótt a.m.k. þrjár kynslóðir færu á böllin saman. Þetta er orðið breytt og þessir tímar eða aðrir álíka koma ekki aftur. Það er áftur á móti gaman að hafa upplifað þá.

fimmtudagur, febrúar 26, 2009

Procol Harum - A whiter shade of pale

Ingólfsfjörður

Þing IBR var sett seinnipartinn í dag. Fulltrúi UMFR36 mætti eins og lög gera ráð fyrir. Svona þing eru ekki afskaplega fjörugar samkomur og mest er hlustað. Þó var dálítil umræða um tvær tillögur sem komu fram og fjölluðu um að skipta ætti stórum hluta af sjóðum ÍBR milli aðildarfélaganna. Önnur tillagan vildi láta skipta stærri hluta sjóðanna fyrst og fremst milli stærri félaga bandalagsins. Hin tillagan vildi láta skipti minni hluta sjóðanna milli allra félaganna. UMFR36 hefði fengið tæpan 10.000 kall. Sem betur fer var frávísunartillaga samþykkt og báðum tillögunum vísað frá. ÍBR þarf á peningum að halda og ekki á að mylgra þeim út milli félaganna. Það á að nota afraksturinn af þessum peningum til að styrkja öflugt íþróttafólk svo dæmi sé tekið. Það verður minna um fjármagn til þeirra hluta á næstunni.

Það verða nefndafundir á morgun en svo lýkur þinginu á laugardag. Ég verð ekki viðlátinn þá svo Ásgeir mætir fyrir mig.

Ég fékk símtal í gær þar sem mér var boðin áskrift að Stöð 2. Ég sagði þeim sem hringdi að hann skyldi segja yfirboðurum sínum að á meðan þeir hefðu nýupplýstan dópista við dómaraborðið í Idolinu þá myndi ég aldrei kaupa eitt eða annað af Stöð 2. Idol þýðir fyrirmynd. Stöð 2 verður að athuga hvaða skilaboð þeir eru að senda út í samfélagið. Mér finnst að ef drengurinn hefði átt að halda þessari vinnu þá hefði átt að gera samning upp á það að hann skilaði testi til lögreglunnar næstu tvö árin þar sem fram kæmi að hann væri hættur þessu rugli. Að öðrum kosti hefði hann þurft að leita sér að annari vinnu að mínu mati.

Það á að halda áfram með tónlistarhúsið. Það er sagt að það kosti svona 13 milljarða að ljúka því. Annað eins er komið í það. Sagt er að þetta auki atvinnu og þá sé þetta gott. Nú eru litlir peningar til. því verður að vanda vel í hvað peningarnir eru látnir. Er þetta tónlistarhús í fyrsta sæti um hvað það er sem ríki og borg vantar akkúrat nú? Ég efast um það.

Ég sá einhversstaðar að tónlistarhúsið væri álíka að stærð og kostnaði eins og tónlistarhúsið í Sevilla á Spáni. Í Sevilla og nágrenni búa um 1.4 milljónir manna. Hér búa 300 þúsund. Svo kostar nú eitthvað að reka herlegheitin men det er en anden sag.

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

The Moody Blues Question

Horft yfir Ingólfsfjörð á Ströndum

Við Steinn héldum fyrirlestra um ofuríþróttir í morgun fyrir nemendur í íþróttafræðum í Háskólanum í Reykjavík. Þráinn Hafsteinsson tugþrautarkappi hafði forgöngu um þetta. Steinn fjallaði mest um reynslu sína af þríþraut en ég fjallaði um hlaupin og ýmislegt þeim skylt s.s. mataræði. Steinn er gamall frjálsíþróttakappi og var einnig mikill sundmaður áður en hann sneri sér að þríþrautinni með frábærum árangri. Hann er rúmlega fertugur. Þegar ég var jafngamall honum var ég ca 15 kílóum þyngri en ég er í dag og gekk út frá því sem sjálfsögðum hlut að það litla sem ég hefði tengst íþróttum væri alfarið að baki. Maður skyldi hins vegar aldrei segja aldrei.

Nemendurnir sem þarna voru eru vafalaust allt saman ágætt íþróttafólk á besta aldri. Nokkra þekkti ég sem gott afreksfólk. Það var svolítið gaman að upplifa það þegar þetta unga íþróttafólk saup hveljur yfir þvi sem við Steinn erum að gera.
Það var gaman að fá tækifæri til að fara í gegnum ultrahlaupin og það sem til þarf að ná árangri í þeim efnum með þessum hóp svo og Þráni. Það kveikir kannski í einhverjum að velta þessu fyrir sér. Á hinn bóginn eru þau varla tilbúin fyrr en eftir svona tíu ár.

Það eru til ýmsar aðferðir við að hagnast á eignarhaldi og rekstri fyrirtækja. Ein aðferðin er að blóðmjólka þau. Fyrirtæki er keypt, stundum með skuldsettri yfirtöku sem krefst lágmarks fjármagns af hálfu kaupenda. Þegar eigarhaldið er komið á hreint er hafist handa við að ná fjármagni út úr þeim. Það er gert með því að selja fyrirtækinu allskonar þjónustu s.s. ráðgjafaþjónustu á mjög háu verði. Fyrirtækið er látið borga allskonar kostnað fyrir eigendur. Miklar úttektir úr fyrirtækinu geta átt sér stað. Viðkomandi kaupa eignir af fyrirtækinu á lágu verði. Smám saman hrannast upp skuldir og að lokum fara þau lóðbeint á hausinn. Maður heyrir öðru hverju af stórum gjaldþrotum sem eru eitthvað dúbíus eftir allan þann uppgang sem hefur átt sér hérlendis stað á liðnum misserum.

Frjálsíþróttadeild Ármanns hélt peppuppfund í kvöld. Ný stjórn er að hefjast handa um að blása nýju lífi í deildina. Það eru ýmsir góðir stofnar sem eru þarna til staðar en eitt og annað vantar á til að hlutirnir myndu smella vel saman. Meðal annars hefur vantað mannskap til að skipa sér í forystu. Nú er kominn mjög áhugasamur formaður sem er fullur af krafti og nýjum hugmyndum. Það er ýmsilegt sem þarf að gera á næstu mánuðum. Þórólfur Árnason fyrrv. borgarstjóri hélt utan um fundarstjórn af miklum myndarskap.

Komst ekkert út í gærkvöldi. Því fór ég fyrr út í morgun en vanalega og náði aukahring eða 12 km fyrir kl. 7.00. Flott veður en fór fljótlega að blása.

Ég fékk í gær upplýsingar um Evrópumeistaramótið í 24 tíma hlaupi. Það verður haldið í Bergamo á Ítalíu í byrjun maí. Það kitlar að reyna að komast á það en þá verð ég að fórna 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi sem er haldið í maílok. Fyrir A flokkinn er lágmark 190 km og fyrir B flokkinn er lágmark 180 km. Ég er því vel yfir tilskyldum mörkum. Ég brýt heilann um þetta á næstu vikum en verð að vera búinn að ákveða mig fyrir 20. mars. Meðal annars þarf ég að leita hófanna með að afla mér einhverra styrkja. Það hefur líklega oftast verið auðveldara en nú.

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Yardbirds; For your love

Suðurlandið í fjörunni á Djúpuvík

Mér finnst ekki alveg ljóst hvoru megin við hrossið maður stendur eftir að hafa hlustað á Kastljósið í kvöld. DO er náttúrulega mikill skákmaður og spilar bæði sókn og vörn af mikilli snilld. Mér fannst Sigmar ekki alveg ná vopnum sínum. Hann var of mikið í almennum viðhorfum en það vantaði að ganga meira konkret fram. Hvernig var með vaxtastefnu Seðlabankans og Jöklabréfin sem hanga nú eins og myllusteinn um hálsinn á krónunni og þjóðinni. DO kom inn á að það jaðraði við að hafa verið mistök. Hvernig var með hin gríðarlegu eitruðu lán til stóru bankanna sem fóru í gegnum smáfyrirtækin á síðasta ári sem gerðu Seðlabankann gjaldþrota? Af hverju var ekki spurt að því? Ef Seðlabankinn var svona viss um að allt væri að snarast til helvítis hvers vegna greip hann ekki inn í málin á eigin spýtur þegar ljóst var að ríkisstjórnin var í tómri afneitun? Enda þótt beint inngrip hefði verið erfitt og umdeilanlegt þá er yfirleitt betra að hleypa ígerðinni út áður en drep kemur í sárið. Það er hins vegar yfirleitt sársaukafullt. Frestur er hinsvegar á illu bestur.

Það kemur hins vegar betur og betur í ljós hvert er hið raunverulega andlit Baugsveldisins. Ef staðan hefur verið þannig að Baugur hefur ekki fengið lánafyrirgreiðslu erlendis frá árslokum 2007 eins og maður les um í erlendum fjölmiðlum þá er ljóst að staðan er svolítið á annan veg en eigendur fyrirtækisins hafa viljað vera láta. EBITDA fyrirtækisins segir ekkert um stöðuna þegar ekki liggur fyrir hverjar eru árlegar skuldbindingar fyrirtækisins. Nú skilur maður betur hið gríðarlega kapp Baugsmanna að ná undirtökunum í einhverjum bankanna hérlendis. Það er gott að eiga bensínstöð ef maður fær ekki skrifað bensín á bílinn.

Í þessu sambandi er síðan annar flötur sem hefur verið að skýrast. Baugsveldið á gríðarlegan fjölda verslana og fyrirtækja hérlendis. Líkur benda til að þessi fyrirtæki hafi verið rekin með tapi til að ryðja keppinautum af markaði vegna þess að til skamms tíma höfðu þau auðveldara aðgengi að fjármagni en margir aðrir. Ársreikningum hefur ekki verið skilað þannig að staðan liggur alls ekki ljós fyrir. Mér sýnist staðan hafa verið þannig að skammt hefur verið í að Baugur ætti Ísland með húð og hári.

Eitt sagði DO í kvöld sem hlýtur að kalla eftir frekari skýringum. Hann sagði að einhverjir stjórnmálamenn hefðu verið í klúbbnum sem fengu lánafyrirgreislu fyrir utan hefðbundnar vinnureglur bankanna. Það hlýtur að vera kallað eftir því hverjir eru þar á ferðinni. Svona lagað getur ekki verið í einhverri umræðu sem fer eins og köttur í kringum heitan graut. Meðan hún skýrist ekki eru liggja allir undir grun. Ef það verður ekki gert er samfélagið hér þvílíkt drulludíki að fáu er til við að jafna.

mánudagur, febrúar 23, 2009

The Kinks; All day and all of the night

Horft yfir Örlygshöfn

Mamma varð 85 ára í gær. Fjölskyldan og þau systkini mömmu sem gátu komið hittist í tilefni dagsins á Litlu Brekku. Þar áttum við góða dagstund og margt bar á góma eins og gengur. Þrátt fyrir árin áttatíu og fimm og drjúgt dagsverk er mamma afar ern og við góða heilsu. Þau pabbi brugðu búi og fluttu suður fyrir tæpum fjórtán árum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hún hefur notið þess tíma sem hún hefur búið hér syðra. Sívakandi yfir því sem menningarlífið hefur upp á að bjóða, stundar leikfimi og félagslíf eldri borgara og ferðast um landið á sumrin eftir því sem tækifæri gefast. Í gær birtust einnig tveir nýjir fjölskyldumeðlimir sem voru að koma í fyrsta sinn á svona samkomu enda bæði fædd eftir áramótin. Þetta er skemmtilegt.

Það var viðtal við stjórnmálafræðing í Kastljósinu í kvöld um prófkjör og aukna möguleika á persónukjöri. Ég var alveg sammála mati hennar á prófkjörum. Prófkjör eru bein ávísun á spillingu og sóðaskap í stjórnmálum. Stjórnmálamenn sem hafa þegið fjármagn sem skiptir máli til að fjármagna prófkjörsbaráttu eru ekki frjálsir menn þegar út í alvöruna er komið. Það liggur í augum uppi. Stjórnmálafræðingurinn setti m.a. fram hugmyndir um persónukjör en þá skildu leiðir. Hún setti fram hugmynd að persónukjöri þar sem kjósendur mættu velja tvo einstaklinga af listandum, konu og karl. Þá skildu leiðir. Það gengur náttúrulega alls ekki að slíkri forsjárhyggju verði beitt við útfærslu á persónukjöri til alþingis eða sveitarstjórna. Jafnrétti er í því fólgið að allir hafa jöfn tækifæri til mennta og atvinnu. jafnrétti er ekki fólgið í því að þvinga almenning til að kjósa yfir sig fulltrúa sem hann hefur ekki áhuga á. Sama af hvaða kyninu það er. Nú heyrast reyndar raddir að jafnréttið eigi bara að virka í aðra áttina. Karl eigi að víkja fyrir konu en kona eigi ekki að vikja fyrir karli svo jafnstöðu kynjanna verði náð. Rökin fyrir þessari afstöðu eru þau að kerfislægt ójafnrétti sé svo svakalegt og landlægt að það sé víst í lagi þótt halli á helv.... karlana í einhverjum málum. Þetta heitir jákvæð mismunun og er beitt gagnvart minnihlutahópum sem hafa verið beittir himinhrópandi óréttlæti í gegnum árhundruðin. Sem dæmi um ójafnréttið eru nefnd hlutföll kynjanna á alþingi, í sveitarstjórnum og í stjórnum fyrirtækja. Það er eins og þetta sé það eina sem máli skipti í lífinu, að ná kjöri til alþingis og / eða sveitarstjórn og setjast í stjórn fyrirtækja.

Það heyrist aldrei minnst á fjölskyldutengd málefni í þessu sambandi. Jafnréttisiðnaðurinn minnist aldrei á að konur fá forsvar barna í yfir 90% tilfella við skilnað. Það þykir líklega bara sjálfsagt af því það hafi alltaf verið svoleiðis. Enda þótt konur hefðu ekki kosningarétt öldum saman þá þótti framsýnum karlmönnum rétt að breyta því. Hví skyldi þetta viðhorf þá standa óbreytt og vera óumbreytanlegt. Oft er viðhorfið þannig að það er eins og föðurnum komi barnið ekki við eftir skilnað. Þegar slík mál ber á góma þá er alltaf vitnað í hegðan einhverra drullusokka og framkoma þeirra færð yfir á alla karla. Málið afgreitt. Nýlega féll t.d. dómur í máli sem faðir höfðaði gegn presti sem skýrði barnið hans án þess að hann vissi af því. Presturinn var dæmdur sekur um vítavert skeytingarleysi gagnvart föðurnum. Það kom ekki fram hvort presturinn var karl eða kona. Jafnréttisiðnaðurinn minnist síðan ekki á að mikill meirihluti þeirra sem nú eru atvinnulausir eru karlar.

Jón Baldvin var sjötugur á dögunum. Ég segi það eins og mér finnst að maður les ekki betur skrifaðar greinar í blöðum en eftir JB. Sömuleiðis eru fáir áheyrilegri og rökfastari í sjónvarpi og útvarpi en JB. Þegar það ber á góma að hann hafi áhuga á að fara í framboð til Alþingis aftur þá bresta menn út í glotti og segja að sökum aldurs sé hann óhæfur alþingismaður. Ég man ekki betur en það hafi verið í pípunum að skipta Jóhönnu Sigurðardóttur út á miðju kjörtímabili sökum aldurs. Nú er hún forystumanneskja og lífakkeri ríkisstjórnar. Það á að meta fólk að verðleikum en ekki telja það hæft/óhæft miðað við einhverja dagsetningu á dagatalinu.

Fór hefðbundinn sunnudagsrúnt í gær í frábæru veðri. Lagði af stað upp úr hálf átta og var kominn heim um ellefu leytið.

sunnudagur, febrúar 22, 2009

The Undertones - My Perfect Cousin

Hörð keppni í 60 m grind

Í gær var steig María eitt skref áfram. Hún var í fyrsta sinn valin í hópinn hjá meistaraflokk HK/Víkings á föstudagskvöldið. Það var leikur í Reykjavíkurmótinu uppi í Egilshöll við Aftureldingu/Fjölni. Hún spilaði síðustu tuttugu mínúturnar og stóð sig vel. Hún er það fljót að hlaupa að það á eftir að nýtast henni vel ef hún heldur þessu áfram. Leikurinn endaði með jafntefli. Næsti leikur er uppi á Leiknisvelli í fyrramálið.

Laugardagurinn var dálítið pakkaðir. ég fór út upp úr kl. 6.00 og tók Powerade og öfugan eiðistorgshring. Þannig náði ég tveimur km auka. Hitti Jóa og Stebba í vesturbænum. Ég var kominn inn um 9.30 og hafði náð 32 km. Kl. 10:00 þurfti ég að mæta niður í Vík en þar var ég með smá fyrirlestur fyrir strákana í 2. flokki í handbolta. Ég lagði út frá þeirri reynslu sem ég hef fengið úr ultrahlaupunum. Skýr markmið, mikill agi og gott mataræði var það sem ég lagði út frá sem forsendum fyrir að ná árangri. Fundurinn tókst vel og stóð yfir í rúman klukkutíma. Strákarnir voru áhugasamir og tóku góðan þátt í umræðunni. Líklega tek ég meistaraflokkinn í yfirhalningu á næstunni.
Um kl. 12:00 fórum við María svo niður í frjálsíþróttahöll en þar var haldin bikarkeppni í frjálsum. Ég var að aðstoða í sjoppunni og inni á vellinum og síðan tók ég myndir. María keppti í tveimur greinum og svo í 4 x 400 m. boðhlaupi. Hún var 3ja í 60 m grind og 4ða í þrístökki og við sinn besta árangur í báðum greinum. Spretturinn í 400 m var einnig mjög fínn. Kvennalið Fjölnis/Ármanns varð í 2. sæti þrátt fyrir að Helga Margrét væri meidd og gæti ekki keppt.
Síðan var horft á Man. Udt og Blackburn niður á Kleppsvegi. Man. Udt. vann með frábæru marki Ronaldos.
Ég fór að gera myndirnar klárar um kvöldið eftir að hafa þrifið svolítið og koma þeim inn á vefinn. Fór svo út milli 23:00 og 24:00 og tók 10 km. Veðrið var orðið fínt. Þá var skammtur dagsins klár. Ef maður setur sér markmið þá er ekkert annað í stöðunni en að standa við þau.

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Í vetur hefur verið mikil umræða í samfélaginu um að ýmsum viðteknum vinnubrögðum verði breytt. Það hefur verið rætt um Nýtt Ísland og fleira í þeim dúr. Opnara samfélag og þroskaðra lýðræði. Meðal þess sem hefur verið sett á oddinn er meiri möguleikar almennings (kjósenda) á hverjir eru kosnir til Alþingis. Nú eru settir fram istar sem eru ákveðnir á ýmsan hátt og kjósendur hafa sáralitla möguleika til að hafa áhrif á hverjir komast á þing fyrir þann lista sem þeir vilja styðja. Nú er það svo að íslenska kosningakerfið er langt í frá það eina sem notað er. Í Danmörku, Finnlandi og Írlandi hafa kjósendur mikla möguleika á að hafa áhrif á hverjir eru kosnir á þing. Í Finnlandi er t.d. frambjóðendur settir í tilviljanakenndri röð á framboðslistann. Fyrir framan hvern frambjóðenda er ákveðið númer. Kjósandinn skrifar númer á þeim frambjóðenda sem hann vill kjósa í ákveðinn reit. Sá frambjóðandi sem fær flestar merkingar er í efsta sæti og svo koll af kolli. Ekki hefur heyrst annað en að kosningar til Alþingis viðkomandi landa gangi vandræðalaust fyrir sig í Finnlandi, Danmörku og Írlandi.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Ýmsir hópar hafa áttað sig á því að með aukinni aðkomu kjósenda að því að raða á lista minnka möguleikar allskonar hópa til að hafa vit fyrir kjósendum. Með auknum möguleikum kjósenda til að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu kosninganna þá minnka möguleikar sérhagsmunahópa til að tryggja aðilum sæti á Alþingi sem hafa ekki fylgi. Svo kallaðir jafnréttissinnar hafa langi barist fyrir þvæi að koma á fléttulistum sem þýðir að kynjunum yrði raðað til skiptis á framboðslista. Jafnvel þótt viðhaft sé prófkjör þá vilja þessir aðilar hafa fléttulista eða ákveðna skipan listans með hliðsjón af kynjum. Markmiðið er sem sagt að tryggja einhverjum sæti ofarlega á framboðslista jafnvel þótt viðkomandi hafi ekki fylgi almennings til að sætis framarlega á lista og þar með setu á Alþingi. Ýmis félög senda nú frá sér harðorðar ályktanir þess efnis að það komi ekki til mála að almenningur megi hafa endanleg áhrif á hverjir taki sæti á Alþingi með þvi að hafa persónukjör til Alþingis. Það eru aðrir sem eru betur fallnir til að ráða því. Svona er nú tilveran skrýtin. það er trúa mín að það verði engu breytt í kosningalögum hérlendis í náinni framtíð. Það er hættulegt að láta of mikil völd í hendur sauðsvörtunum almúganum.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

John Mogensen Så Længe Jeg Lever

Sex tíma hlaupið í eyjunni sl. haust.

Aðalfundur UMFR36 var í kvöld. Vel mætt og góðar umræður. Í félaginu er rjóminn af ultrajöxlum landsins svo og fjöldi góðra maraþonhlaupara. Svona félagsskapur er mjög gagnlegur til að halda utan um hópinn, flytja þekkingu og reynslu milli manna og síðan styður hver annan eftir föngum. Merk tíðindi voru kynnt á fundinum en nú hefur UMFR36 verið tekið formlega inn í ÍBR. Ég rifjaði það upp að það eru rétt tæp fimm ár síðan ég sótti um inngöngu fyrir UMFR36 í ÍBR. Bréfið var dagsett 22. mars 2004. Jákvætt svar kom loks í janúar 2009. ÍBR virtist reyna að drepa málinu á dreif og bíta okkur af sér með smásmugulegum athugasemdum um eitt og annað. Það var sama hvað við bættum lögin (sem voru kópía af lögum Ungmennafélagsins Fjölnis) þau voru ekki nógu góð. Að lokum fengum við á hreint að í lögunum þurftu að standa eftirfarandi orð: "Markmið félagsins er að stunda íþróttir." Þá var allt í lagi. Það var sama hvað tekið var oft fram í lögum félagsins að tilgangur og markmið félagsins væri að standa fyrir íþróttaæfingum og íþróttamótum, ef þessu sex orð var ekki að finna í lögunum vorum við ekki tekin inn fyrir Gullna hliðið. Það var heldur ekki verið að leiðbeina okkur of mikið.

Bibba sýndi síðan myndir frá Ironmaninum í Busseltown í Ástralíu sem hún og Ásgeir tóku þátt í í haust. Þar var ýmislegt öðruvísi en við eigum að venjast. Það hefur verið magnað að táka þátt í því ævintýri. Síðan var sýnd mynd frá Spartathlonhlaupinu sl. haust. Það var gaman að rifja þetta mikla hlaup upp enn einu sinni. Það er það góða við góðar minningar, sama er hvernig allt veltist, þær verða aldrei teknar frá manni.

mánudagur, febrúar 16, 2009

Manfred mann - Do wah diddy

Jói skorar með tilþrifum

Það voru athyglisverðar upplýsingar sem komu fram hjá Haraldi L. á fundinum í Háskólabíó í kvöld. Haraldur hefur verið að skoða skuldir bankanna, fjárhæðir og hvar þær eru staðsettar. Hans ninðurstaða var í meginatriðum tvennskonar. Í fyrsta lagi höfðu bankarnir tekið lán á undangengnum fjórum árum sem svaraði allri lántökum íslendinga síðustu 100 árin þar á undan. Hann spurði eðlilega hvar þessir peningar væru niðurkomnir. Í öðru lagi var niðurstaða hans að bönkunum hefði að uppistöðu til verið stjórnað af fólki sem hafði varla nokkurt einasta vit á hvað það var að gera. Það stemmir nokkuð við það sem formaður félags bankamanna, Friðbert Traustason, sagði í viðtali við Moggann á helginni. Hann sagði að í áhrifastöðum í bönkunum hin síðustu ár varla starfað nokkur maður sem hefði starfsaldur sem væri lengri en til aldamóta. Það mátti finna einstaka undantekningar en þetta var meginreglan. Það er ekki nóg að kunna á Excel til að geta rekið banka. Það dugar lítið að geta hlaupið ef ekkert fylgir vitið með sagði Þórður á Höfða í Dýrafirði. Oflátungsháttur, græðgi og taumlaus þörf til að verða stór var drævið í starfsemi bankanna. Ruglinu voru engin takmörk sett. Land sem hafði einungis verið örfá ár í alþjóðlegri bankastarfsemi ætlaði sér að verða að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Seinni tíma upplýsingar fela í sér að þetta þýðir að öllum líkindum alþjóðlega peningaþvottavél. Framboð Íslands til Öryggisráðsins var grein af þessum sama meiði.

Það er flott að sjá hve Spaugstofan hefur gengið í endurnýjun lífdaga í haust. Hver revían er öðrum betri laugardag eftir laugardag. Það slær enginn þeim við á meðan þeir eru í þessum gír. Þeir hrista fram fínan tuttugumínútna langan þátt vikulega á meðan áramótaskaupið sem er svona helmingi lengra er fleiri mánuði í undirbúningi, og alls ekki betra.

Ég skráði mig í London-Brighton á dögunum. Þetta hlaup er eitt af fjórum klassísku ultrahlaupum í heimi. Það er það elsta og var hlaupið fyrst árið 1835. Leiðinni var breytt dálítið fyrir nokkrum árum, að mestu leyti vegna öryggismála. Það var flutt af hraðbrautinni út á sveitavegi í þeim tilgangi að auka öryggi hlaupara. Það er um 90 km langt en tekur allt að 13 klst. Að þessu loknu er einungis eitt eftir af þeim fjórum klassísku. það er Comerades í Suður Afríku.

Það verður aðalfundur hjá UMFR36 á miðvikudaginn. Hann verður haldinn á sama stað og áður, í Borgartúninu. Nú bætist við nýr liður, kosning fulltrúa á ÍBR. Þetta mjakast áfram.

Jói og félagar spiluðu við HK í kvöld. Þeir unnu góðan sigur eftir jafnan og spennandi leik sem var í járnum alaln tímann.

sunnudagur, febrúar 15, 2009

The Kinks - A Well Respected Man

Frændsystkinin taka sig vel út

Ég ætlaði snemma út í morgun en það var rok og leiðindaveður þegar ég gáði til veðurs. Því hallaði ég mér aftur og fór ekki af stað fyrr en um kl. 10.00. Náði hálfu maraþoni. Það var ekki til setunnar boðið því síðasti hluti Photoshopsnámskeiðs var hjá Fókus í Faxafeninu eftir hádegið. Páll Guðjónsson verkfræðingur hafði tekið að sér að leiða félagsmenn í gegnum þann prósess að koma mynd úr vél á vegg. Páll er mjög praktiskur og kom með margar mjög gagnlegar ábendingar og leiðir til að ná sem mestu út úr þeim myndum sem maður er að myndast við að taka. Þetta er endalaus lærdónur og kann maður svona svipað á forritin eins og sá hluti ísjakans sem stendur upp úr sjónum er stórt hlutfall af heildinni.

María keppti á íslandsmótinu í fjölþraut meyja 15-16 ára seinnipartinn í dag. Hún stóð sig mjög vel, vann fjórar greinar af fimm og varð íslandsmeistari með yfirburðum. Svo skemmtilega vildi til að Ingi Rúnar, frændi hennar og jafnaldri úr Kópavoginum, vann sveinaflokkinn. Mömmur þeirra eru systradætur. Ættin var mjög ánægð með hvernig sprotarnir stóðu sig.

Fjórir framkvæmdastjórar séreignalífeyrissjóða birtu grein í Mogganum í morgun. Skoðun þeirra á því að opna sjóðina og hleypa fólki sem er í greiðsluvandræðum í þá var nákvæmlega sú sama sem ég hef verið að tuða um. Miað við aðstæður væru auðseljanlegustu eignirnar seldar fyrst (ríkisskuldabréf og þess háttar pappírar) og eftir sætu verri eingir. Það fólk sem er með fjármál sín í þokkalegu lagi væru þá að blæða sérstaklega. Þótt ég eigi ekki mikið í séreignasjóði og snillingarnir í Landsbankanum hafi lagt sitt af mörkum eða að gera lítið enn minna, þá er ég ekki sáttur við að svona reddingartrix sem stjórnmálamönnum dettur í hug verði keyrð í gegn. Þetta snýst um að sjá heildarmyndina og taka afstöðu út frá henni en skoða ekki einungis eina hlið teningsins.
Maður heyrir fleiri álíka vanhugsuð sjónarmið á fleiri vígstöðvum. Sumir verkalýðsleiðtogar vilja ganga af hörku fram í því að hækka laun samkvæmt fyrirliggjandi kjarasamningum. Miðað við stöðu atvinnuveganna í landinu þá mun launahækkun ekki leiða til neins annars en enn fleiri uppsagna og aukins atvinnuleysis. Greiðslugeta fyrirtækjanna hefur ekkert vaxið. Þegar fyrirtækin þurfa að greiða allt að 25% vexti fyrir hverja krónu sem tekin er að láni þá er ekki mikið eftir.
Sumir vilja knýja fram skattahækkanir. Sumum finnst það réttlætismál en öðrum ekki. Á þeirri umræðu er fleira en eitt sjónarhorn. Ef skattar verða hækkaðir þá hefur almenningur minna á milli handanna. Það eyðir minna en ella. Það þýðir minni veltu hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Það þýðir auknar uppsagnir og aukið atvinnuleysi. Hlutir eru ekki einfaldir, heldur margbrotnir og flóknir. Í þeirri stöðu sem við erum þarf að vanda alla ákvarðanatöku og forðast einhevrjar skyndilausnir.

laugardagur, febrúar 14, 2009

Ingo / Patterson árið 1959

Preláti í Róm eitthvað að bardúsa

Það eru stór tíðindi þegar alræmdur fjármálaflóttamaður frá Rússlandi tekur fram að Ísland hafi verið notað sem þvottavél fyrir illa fengna peninga frá Rússlandi. Afhverju skyldi hann nefna Ísland á nafn umfram önnur lönd þegar SKY er að taka viðtal við hann. Vegna þess að Ísland er honum ofarlega í huga þegar fjármálamisferli ber á góma. Þeta er ekki í fyrsta sinn sem þetta ber á góma. Extrabladet i Danmörku birti greinaflokk um þetta mál fyrir nokkrum árum. Kaupþing brást hart við og kærði greinaflokkinn og fékk blaðið dæmt fyrir óvandaðan málaflutning. Þessi umræða var náttúrulega afgreidd hérlendis sem dæmi um öfund Dana yfir því hvað vel gengi hérlendis. Þannig var yfirleitt öll gagnrýnin umræða afgreidd. Öfundsjúkir útlendingar sem sáu ofsjónum yfir því að lille Ísland hefði skotið þeim ref fyrir rass voru bara að væla sagði útnesjaliðið á skerinu. Annað kom á daginn. Það var engin innistæða fyrir velgengninni. Hún var öll tekin að láni. Var t.d. allt veldi Baugs byggt á sandi vegna þess að fyrirtækið hafði ótakmarkaðan aðgang að lánsfé í gegnum sístækkandi íslenska banka. Þegar harðna fór á dalnum jókst ásóknin í að ná tangarhaldi á banka sem mætti nota að vild. Þegar aðgengi að lánsféþraut hrundi spilaborgin.
Félagi minn sem hefur unnið í einum gömlu bankanna um nokkurra ára skeið sagði mér nýlega hvernig kaupin hefðu gengið fyrir sig þar innan dyra. Allir venjulegir starfsmenn sem höfðu með einhver útlán að gera þurftu að leggja allar lánaumsóknir fyrir lánanefnd bankans ef þau námu meir en 20 m.kr. Eftir þessu var stranglega gengið og viðbrögðin voru hörð ef farið var út af sporinu í þessu efni. Við bankahrunið kom síðan ýmislegt í ljós. Innan bankans hafði verið starfandi nokkurskonar úrvaldsdeild sem annaðist ákveðna lánafyrirgreiðslu. Þar var ekki lánað í milljónum heldur hundruðum milljóna eða milljörðum. Ekkert af þessum lánum hafði farið fyrir lánanefndina. Það brá mörgum af starfsmönnum bankans þegar þeir áttuðu sig á þessu tvöfalda vinnulagi sem hafði viðgengist innan bankans.

Það bera sig margir illa yfir fjárhagslegri stöðu sinni þessa dagana og hafa vafalaust fulla ástæðu til þess. En er ekki ástæða ti að líta aðeins í eigin barm? Eru íslendingar ekki spennu- og áhættufíklar upp til hópa. Er hugtakið: "Þetta hlýtur að reddast" ekki landlægur frasi við ákvarðanatöku. Þegar boginn er spenntur til hins ítrasta við ákvarðanir um fjárskuldbindingar þegar allt er í jafnvægi þá segir það sig sjálft að það má ekki mikið út af bregða svo ekki fari illa. Það vissu allir sem vildu vita að gengi krónunnar var skráð alltof hátt. Engu að síður var lánum í erlendum gjaldmiðlum haldið fast að íslenskum almenningu og hann skuldsetti sig upp í rjáfur með því að kaupa dýra bíla og byggja sér stór hús, iðulega allt upp á krít.

Lúðvík vinnufélagi minn er þýskur. Hann er búinn að búa hérlendis í um 30 ár og er betur upplýstur um land og þjóð en margur innfæddur. Hann hefur sagt okkur að ástandið í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina sitji svo fast í þýskum almenningi enn í dag að hann geti ekki tekið fjárhagslega áhættu með eigin fjárhag. Það komi einfaldlega ekki til greina. Seinni heimsstyrjöldin skildi eftir sig þveröfug áhrif hjá íslensku þjóðinni. Nýrík þjóðin kunni sér engin takmörk. Það má heimfæra ástandið á þessum tíma yfir á ljóðbrotið eftir Stein Steinarr:

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
En þótt þú tapir það gerir ekkert til
því það er nefnilega vitlaust gefið.

Þetta reddast allt saman.

Venjulegir þýskir bændur kaupa sér ekki mjólkurróbota í fjósin segja mér kunnugir menn. Þeir segjast þurfa að velja á milli þess að greiða sjálfum sér laun eða bankanum vexti. Ef róbotinn er keyptur hirðir bankinn það sem afgangs er og ekkert verður eftir til að greiða laun til bóndans. Á Íslandi hafa tækjaóðir bændur keypt sér mjólkurróbota í hrönnum. Hvort búið getur staðið undir honum verður bara að koma í ljós. Ef búið er of lítið fyrir róbotinn þá er bara keyptur rándýr mjólkurkvóti. Hvernig getur svona lagað endað nema með ósköpum?

Ég fór út um 6.30 í morgun og tók 21 km. Það gat ekki verið lengra því ég þurfti að vera mættur niður í Laugardalshöll upp úr kl. 9.00 til að vinna á öldungamótinu. Það var gaman og flott að sjá kappa sem marga fjöruna hafa sopið mæta þar til leiks. Í góða veðrinu í eftirmiðdaginn tók ég svo annan álíka hring svo markmiði dagsins var náð þótt svo það væri ekki í einum áfanga. Það var mjög hált á köflum í morgun en í dag var færið orðið eins og á sumardegi og vorveður í lofti.

Þegar við Haukur bróðir vorum litlir þá áttum við okkar fyrirmyndir og hetjur eins og gengur. Þær voru ekki sóttar í íslendingasögurnar heldur í samtímann. Ég man helst eftir tveimur pörum. Fyrst voru Tal og Botvinnik, hinir miklu sovésku skákmeistarar. Þegar við tefldum saman þá tefldum við yfirleitt sem Tal og Botvinnik. Tal var eftirsóttari þvi hann var snjallari sóknarskákmaður. Ef annar fór illa hallloka þá þurfti stundum að jafna tapskákina með stuttum slag. Þó slógumst við ekki eins og aðrar tvær hetjur, Floyd Patterson og svíinn ógurlegi Ingemar Johansson. Ingemar var frægur fyrir að geyma hægri hnefann undir hökunni þar til rétta tækifærið kom. Þá sló hann til. Eitt slíkt högg feykti Patterson út af æðsta stalli hnefaleikana og Ingemar steig upp á hann í staðinn. Hann var meistarinn um tíma en svo kom Patterson og rotaði Ingemar tveim árum síðar. Það þótti okkur ekkert skemmtilegt. Þetta rifjast upp þvi Ingemar Johansson dó nýlega og var jarðaður í gær. Champ verður alltaf champ þótt árin færist yfir og líkaminn hrörni. Það er við hæfi að sýna smá klippu frá bardaganum fræga árið 1959.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Hollies; Bus Stop

Horft af Keflavíkurbjargi

Það berast alltat nýjar og nýjar fréttir að því sem var að egrast bak við tjöldin hérlendis á undanförnum´árum. Nú er það rússneska mafían, eða ein þeirra. Í rússlandi eru vafalaust fleiri en ein mafía. Þegar ég bjó í Petropavlovsk forðum daga þá var talað um Moskvu mafíuna, Vladivostok mafíuna og Kóreu mafíuna. Ég veit ekki hverslags mafíur þetta voru, líklega svona braskarar sem voru í innflutningi og vafalaust einhverju fleira. Einn hópurinn hélt til á annarri hæð hótelsins sem við bjuggum á til að byrja með. Þar hékk töluvert gengi sínkt og heilagt. Eina nóttina var skotinn maður á tröppum hótelsins. Við vissum ekki hvort hann drapst eða ekki, það var ekki okkar mál. Stelpurnar í lobbýinu voru að reyna að drýgja tekjurnar eftir vinnu. Þær hringdu stundum í okkur á kvöldin. Hvort þær voru á vegum einhverrar mafíunnar var aldrei á hreinu.

Ég hef áður heyrt rúmor um það að rússneska mafían væri með þvottastöð hérlendis. Það er í sjálfu sér ekkert ólíklegt að það skuli hafa getað gerst. Asni klyfjaður af gulli nær oft ótrúlegum árangri í að komast yfir torfærur.

Það var haldinn aðalfundur frjálsíþróttadeildar Ármanns í kvöld. Kosin var ný stjórn. Við Ómar nágranni minn létum okkur hafa það að setjast í stjórn. Það er það minnsta sem við getum gert að reyna að leggja stelpunum okkar lið með því að vinna við félagið. Formaður er Freyr ólafsson, kraftmikill áhugamaður, sem hefur sett sér það markmið að hefja frjálsíþróttadeild Ármanns til fornrar frægðar.

Segjum sem svo að mér væri illa við einhvern mann sem mér fyndist að hefði leikið mig grátt með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi. Ég vildi hefna mín á einhvern hátt. Af því betra er að gera illt en ekki neitt þá fengi ég kunningja mína í lið með mér og gerði það sem ég gæti til að gera þessum einstaklingi lífið leitt í vinnunni. Ég myndi fyrst reyna að koma í veg fyrir að hann kæmist inn í vinnuna. Ef það tækist ekki þá myndi ég reyna að gera honum ókleyft að vinna með því að halda uppi hávaða utanhúss með lúðrum, flautum og pottaglamri. Hvað ætli viðbrögðin yrðu? Ætli sá sem inni sæti og væri pirraður yfir hávaðanum myndi ekki hringja í lögregluna og biðja um að ég og mínir menn yrðu fjarlægðir. Mjög líklega. Mjög líklegt að lögreglan kæmi og héldi uppi lögum og rétti eins og hún er ráðin til. Ætli útvarp og sjónvarp myndi segja samviskusamlega frá því hvenær ég mætti með pottaglamrið og taka viðtöl við mig dag eftir dag í hverjum fréttatímanum eftir annan? Mjög líklega ekki.

Nú er það ekki svo að ég líti þannig á málin að aðgerðir eða aðgerðaleysi Seðlabankans á undanförnum misserum sé hafið yfir gagnrýni. Alls ekki. Kannski eru afleiðingarnar svo svakalegar að það varðar embættismissi fyrir æðstu menn bankans. Allt um það. Ef svo er þá á það að ganga eftir formlegu ferli hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum.

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Rolling Stones; Paint it Black

Vitinn á Bjargtöngum

Næturvaktin/Dagvaktin eru einar best heppnuðustu seríur sem hafa verið gerðar hérlendis. Það er yfirleitt vandasamasta leikverkið að gera gott grín. Persónurnar eru teiknaðar í einföldum línum en mjög sterkum. Það eru oft bestu grínmyndirnar sem eru gerðar á þann hátt. Það er svo merkilegt að þessar persónur sem virtust teknar út úr loftinu hafa mörg þau karaktereinkenni sem eru rík með íslenskri þjóð. Georg Bjarnferðarson er mikill kall inni í sinni litlu sjoppu. Þar ræður hann ríkjum og vill það sé borin skilyrðislaus virðing fyrir sér enda með fimm háskólagráður. Engu að síður fer allt einhvernvegin í hnút þegar utanaðkomandi einstaklingar koma inn í myndina. Þá verður allt að einhverjum endalausum misskilning.
Ólafur Ragnar er holdgerfingur hins dæmigerða íslendings sem vill verða ríkur hraðar en hratt. Hann getur allt að eigin mati en engu að síður fokkast hlutirnir yfirleitt upp. Hann kaupir Crúser á 38 tommum á afborgunum enda þótt hann hafi varla helming mánuðarlegrar afborgunar í mánuðarlaun. Þetta reddast hins vegar allt að hans mati því hann er með mynd af nígerískum prins upp á vasann sem ætlar að redda peningum. Þegar allt um þrýtur er það ferðasána sem á að bjarga málunum. Þeir sem seldu fótanuddtækin í bílförmum hér um árið græddu vel en þeir sem keyptu þau létu lítið fyrir sér fara.
Daníel er ljósið í myrkrinu. Hann gerir glappaskot en engu að síður er hann ákveðin kjölfesta í þessu samfélagi.

Hvað myndum við hafa sagt ef viðlíka fréttir hefðu borist frá Færeyjum á sínum tíma þegar þeir áttu í erfiðleikum eins og hafa borist frá Íslandi síðustu daga og vikur. Þá er ég ekki að taka um efnahagshrunið sem slíkt heldur ýmislegt annað. Godbevares.

Ég fór á fyrsta námskeiðshlutann af þremur í að koma mynd úr vél á vegg. Það er ljósmyndaklúbburinn Fókus sem stendur fyrir námskeiðinu. Það var vel mætt en um 30 manns höfðu skráð sig. Páll Guðjónsson miðlar þekkingu sinni af miklum myndugleik. Næsti hluti í kvöld.

mánudagur, febrúar 09, 2009

Tom Robinson Band; 2 4 6 8 Motorway

Húsdýragarðsbrekkan

Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, kom í dag ásamt fríðu föruneyti til fundar í sambandinu. Þau eru hér til að kynna sér stöðu mála á Íslandi og ræða viðhorf gagnvart inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þau voru ekki alltof hrifin af umræðunni hérendis. Þeim fannst umræðan snúast alltof mikið um hverjar væru hætturnar fyrir Ísland við inngöngu en ekki hvaða möguleikar væru fólgnir í inngöngu í sambandið. Nú er það alltaf svo að flestum ákvörðunum fylgja kostir og gallar. Ákvörðun hverju sinni tekur mið af því hvort vegur þyngra. Síðan skiptir máli hvaða aðrir valkostir eru fyrir hendi. Íslendingar hafa skipað málum sínum þannig að það eru afar fá góð spil á hendinni. Það þýðir ekkert að reyna að koma sökinni af því á aðra, sökin er alfarið innlend ákvarðanataka. Annað hvort ákvarðanir eða aðgerðaleysi. Það er oft erfitt að taka óvinsælar ákvarðanir en afleiðingar þess að taka slíkar ákvarðanir ekki eru yfirleitt ennþá verri. Þá skilur á milli alvöru manna eða meðalskussa.

Ég held að flestum ætti að vera ljóst núorðið að umræða um einhliða upptöku Íslands á öðrum gjaldmiðli er hreint bull. Styrkur gjaldmiðils hverju sinni ræðst af því baklandi sem er til staðar. ef við myndum reyna að skipta öllum íslenskum krónum sem til væru í landinu fyrir erlendan gjaldeyri án annarra hliðaraðgerða yrði gengi krónunnar svo lágt að það myndi leiða fátækt yfir þjóðina. Traustið á henni erlendis er ekki mikið sem stendur.

Þegar öll umræðan snýst um hvar seðlabankastjóri er staddur hverju sinni og hvað stendur í þeim bréfum sem hann fær eða skrifar þá er ekki von á að umræðan þokist neitt áfram.

Mikilvægast af öllu er að ræða og móta skýra stefnu til framtíðar. Hvert skal stefna? Hver er framtíðarsýnin? Hvar á að skipa íslensku þjóðfélagi?

Að undanförnu er ýmsum gjarnt að taka sér í munn að þjóðin vilji hitt og þjóðin vilji þetta þegar verið er að færa rök fyrir viðhorfum eða einstökum ákvörðunum. Hver er þessi þjóð? Eru það þeir sem mætt hafa á mótmælafundi að undanförnu eða eru það þeir sem sinna bloggsíðum Morgunblaðsins af ákefð? Hvernig er þetta viðhorf þjóðarinnar mælt? Er það gert í skoðanakönnunum? Ætti þá ríkisstjórn að segja af sér hverju sinni sem hún mælist í minnihluta samkvæmt skoðanakönnunum? Á ríkisstjórn eða embættismenn að segja af sér í hvert sinn sem ákvörðunum þeirra er mótmælt? Spyr sá sem ekki veit? Að mínu viti er vilji þjóðarinnar fyrst og fremst sá sem kemur fram í kosningum. Síðan er hægt að stöðva alla funktion í samfélaginu með fjöldaverkföllum svo dæmi sé nefnt. á þann hátt er hægt að skapa ástand svo löglega kjörinni ríkisstjórn sé ekki sætt. Það verður að vera eitthvað stórkostlegt sem ryður burt niðurstöðum úr lýðræðislegum kosningum í lýðræðisríki. Þótt einhver skríll ráðist á lögregluna með líkamsmeiðingum og djöfulskap þá veltir það ekki ríkisstjórn undir öllum venjulegum kríngumstæðum.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Herman's Hermits - No milk today

Kristinn FHingur sló þrjátíu ára gamalt íslandsmet í þrístökki innanhúss

Fór út um kl. 8.00 í morgun. Fór hefðbundna leið vestur á Eiðistorg og síðan inn í Laugar. Sneri þar við og fór sömu leið til baka. Alls 34 km. Ágætis veður en fáir á ferli. Rúmar 3 klst í túrnum.

Seinni dagur meistaramótsins var í dag. Maríu gekk vel og bætti sig í báðum greinum sem hún tók þátt í. Hún varð í þriðja/fjórða sæti í 60 m. grind (fullorðinsgrind) og síðan í fjórða sæti í þrístökki. Þar fór hún í fyrsta sinn yfir 11 metra og vantar tvo cm til að komast í úrvalshóp. Það eru margir efnilegir krakkar og unglingar að koma upp en það er er ekki stór hópur í toppíþróttamanna sem æfir frjálsar íþróttir á þeim aldri þar sem þeir eiga að vera fullþroskaðir íþróttamenn. Reyndar vantaði nokkra vegna meiðsla og fjarveru en sama er. Þokkalegur árangur náðist í nokkrum greinum en töluvert vantaði upp á annarsstaðar að árangurinn væri ásættanlegur. Jón Þ. Ólafsson, gamli hástökkvarinn sem stökk alltaf grúfustökk, fór yfir tvo metra á meir en 200 mótum. Nú vannst hástökkið sem dæmi á 1.91. Aðstæður til að æfa og keppa í frjálsíþróttum hafa aldrei verið betri á landinu og er vonandi að þær skili sér bæði í aukinni breidd og betra afreksfólki. Það segir einnig sína sögu þegar það er verið að slá íslandsmet sem hafa staðið í meir en þrjátíu ár.

Til að ná toppárangri þarf mikinn sjálfsaga og járnvilja til að leggja sig allan fram og helst betur en það. Því fylgir að það þarf að neita sér um ýmsa aðra hluti og láta íþróttirnar hafa forgang. Það er kannski þetta sem færri eru tilbúnir að gera. Þar skilur á milli afreksfólks og hinna sem dingla bara með.

laugardagur, febrúar 07, 2009

Hoola Bandoola Band; Pa Egna Vingar

Afmælisbarnið lætur vaða

Ég fór út kl. 6.30 í morgun og tók fyrst Poweradehringinn. Aðstæður voru eins og bestar geta verið að vetrarlagi, frost, logn og stígarnir stamir. Um kl 8.00 var ég kominn vestur að brúnni yfir Kringlumýrarbrautina. Þangað komu svo Jói, Gauti og Stebbi. Víð fórum hefðbundna leið vestur á Eiðistorg og þaðan inn í Laugar. Þar héldu Jói og Stebbi áfram en við Gauti snerum við vestur á Eiðistorg aftur og síðan austur með flugvellinum, gegnum Fossvoginn og heim. Rennslið var fínt, við vorum yfirleitt á um 5.00 mín og hvern km síðasta legginn frá Laugum. Þetta er fimmta helgarmaraþonið frá áramótum og allt hefur gengið upp sem planlagt var. Ég fer að herða á vegalengdum þegar líður á mánuðinn en annars er þetta mesta hlaupamagn um miðjan vetur sem ég hef lagt að baki til þessa.

María keppti á meistaramótinu í frjálsum í dag niður í Laugardal. Hún var aðeins frá sínu besta í langstökki en bætti persónulegan árangur í hástökki og varð önnur. Hún hefur átt í svolitlum erfiðleikum með hástökkið síðustu tvö árin og festist í 1.55. Hún bara komst ekki hærra. Það voru allir afslappaðir yfir þessu því þessi stífla hlaut að losna. Nú er allt komið í gott rennsli. Hún bætti sinn besta árangur um síðustu helgi og aftur í dag. Hún á mikið inni þegar sjálfstraustð er komið fyrir alvöru.

Ég hitti Ásdísi Höllu, formann FRÍ, niður í Laugardalshöll í dag. Hún var ánægð með að UMFR36 væri komið formlega inn í íþróttahreyfinguna. Sú gríðarlega aukning sem hefur átt sér stað í lengri hlaupum að undanförnu hefur ekki farið fram hjá íþróttahreyfingunni og það var í sjálfu sér bara tímaspursmál hvenær skrefið yrði stigið til fulls. Ungt fólk hefur snerpu og sprengikraft. Það eru góðir kostir upp að vissu marki en hafa sín takmörk. Þegar fólk eldist þá þroskast með því seigla, úthald og aukinn agi auk þess sem reynslubankinn verður stærri og stærri með hverju árinu sem líður. Það er sá grunnur sem langhlauparar byggja sinn árangur á. Fyrrgreindir hæfileikar eru ekki minna virði en sprengikraftur yngra fólks. Best er þegar þetta tvennt er nýtt til fullnustu og er virt sem skildi. Það á bæði við um íþróttahreyfinguna svo og samfélagið í heild sinni.

Jói minn er tvítugur í dag. Tíminn líður fljótt. Í gærkvöldi skrapp ég upp í Egilshöll og horfði á Víking spila við Val. Í Víkingsliðinu spiluðu þrír jafnaldrar hans sem voru litlir pottar þegar við fluttum suður fyrir tæpum tíu árum síðan. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með krökkunum þroskast frá barnsaldri upp í að verða fulltíða fólk. Best er þegar þeir nýta þau spil til fulls sem þeir hafa á hendinni.

Lag og texti dagsins er eftir Björn Afzelius. Lagið "Pa egna vingar" er á síðustu plötu Björns og er tileinkað dóttur hans á nítján ára afmælisdegi hennar. Hoola Bandoola Band spilar lagið á minningartónleikum sem haldnir voru um Björn árið 1999. Mikael Wiehe syngur á sinni frábæru skánsku.

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Kim Larsen; Midt Om Natten

Vetur

Það hefur verið rætt mikið að undanförnu um aðgerðir í sambandi við þá stöðu þegar fólk ræður ekki við lánin sem hvílir á íbúðarhúsum þeirra. Mér finnst að það vanti miklar upplýsingar til að hægt sé að gera sér grein fyrir stöðunni. Hvað eru það margir sem ráða ekki við lánin? Hvað eru lánin há sem hvíla á íbúðunum? Hverjar eru aðstæður þeirra sem eiga í vandræðum? Hafði fólk spennt bogann til fulls í góðærinu svo að ekkert mátti útaf bera? Þannig mætti áfram telja.

Því má ekki gleyma að á undanförnum árum hafa margar fjölskyldur misst fjármálin í uppnám. Þá hefur varla nokkur maður lyft augabrún og hvað þá meira. Þá er ég að meina fólk í sjávarþorpum víða um land sem hefur misst vinnuna vegna þess að kvótinn hefur verið seldur úr plássinu eða atvinnan á annan hátt horfið. Fólki var nauðugur einn kostur að fara og leita sér að vinnu annarsstaðar. Það þurfti oft að skilja húsin eftir án þess að fá nema smá verð fyrir þau, verð sem oft á tíðum dugði ekki fyrir áhvílandi lánum. Sumir streðuðu við að borga lánin til að lenda ekki á vanskilaskrá og missa fjárhagslega stöðu í samfélaginu. Aðrir gátu ekki greitt af lánunum og létu húsin fara. Annar möguleiki var ekki í stöðunni. Ég þekki vel svona dæmi. Þrátt fyrir að reynt væri að kynna stöðuna fyrir viðkomandi stofnunum s.s. Íbúðarlánasjóði þá var það eins og að tala við steininn. Reglur eru reglur. Engu máli skipti að það gengju nokkursskonar efnahagslegar hamfarir yfir mörg sjávarpláss á landsbyggðinni. aður fékk á tilfinninguna að viðhorfið væri að fólkið gæti sjálfu sér um kennt fyrst það hefði verið svo vitlaust að setja sig niður á þessum eða hinum staðnum og kaupa sér húsnæði þar. Þetta var á þeim tíma sem allt var á fullu svingi hér í nafla alheimsins og allt var trendí og framsækið.

Fjármál voru málið, fiskur var gamaldags.

Nú er öldin önnur. Partíið er búið. Nú er það ekki bara landsbyggðarfólk sem á í vandræðum heldur þjóðin öll. Þá finnst mörgum mjög sjálfsagt að ríkið hlaupi undir bagga og létti byrðunum af þeim sem eru í vandræðum. Það þýðir í raun og veru að það á að dreifa þessum byrðum á alla landsmenn.

Margar tillögur hafa verið lagðar fram. Ýmsir hafa m.a. viljað reikna erlendu lánin á því gengi sem gilti þegar lánið var tekið. Afgangurinn verður þá settur á allan almenning. Það vita allir sem vilja vita að því fylgir áhætta að taka lán í annarri mynt en maður hefur tekjur sínar í. Það er sama í hvaða landi maður býr að gegnisáhætta er fyrir hendi í slíkum tilfellum. Í Noregi er sveitarfélögum t.d. bannað að taka erlend lán. Það va rvægast sagt mjög óvarlegt að taka erlend lán upp á tugi milljona til kaupa á húsnæði eins og margir gerðu.

Því fylgir áhætta að kaupa húsnæði, sérstaklega dýrt húsnæði. Það er gömul saga og ný að húsnæðisverð hækkar og lækkar á víxl. Það var eins og margir héldu hin seinni ár að húsnæðisverð myndi bara hækka og hækka. Því væri það áhættulaust að kaupa dýrt húsnæði. Bankarnir voru mjög óábyrgir í þessum efnum og hvöttu fólk óspart til að skuldsetja sig í botn. Það þekki ég persónulega en sem betur fer tók ég ákvarðarnir sjálfur en lét ekki aðra um það. Á hinn bóginn er það ljóst að ef ég hefði farið eftir ráðum hins svokallaða ráðgjafa hjá Kaupþingi sem lagði fram ákveðnar tillögur eftir að hafa reiknað út greiðslumat þá væri ég eignalaus í dag. Einhver sagði í viðtali í sjónvarpinu í gær að það væri eðlilegt að ríkið bæri skaðann ef húsnæði lækkaði í verði og væri lægra en áhvólandi lán. Hvað þá ef húsnæði hækkar þannig að sala þess skilar hagnaði? Þá hlýtur ríkið einnig að gera hagnaðinn upptækan með sömu rökum og ef það ber tapið. Ef maður segir A þá verður maður að segja B líka. Það er ekki hægt að taka ábyrgðina frá fólki á eigin ákvörðunum.

Ég hitti rafvirkja í fyrradag. Hann sagði mér meðal annars frá íbúðarhúsunum sem eru í byggingu víða á höfuðborgarsvæðinu en líkjast helst góðum félagsheimilum. Glerið í húsið kostar tugi milljóna. Sjónvarpskerfið í þessum húsum er svo flókið að það þúðir ekkert fyrir venjulega rafvirkja að leggja það heldur þarf sérhæfða fagmenn til að ráða við verkið. Ég er ekki sáttur við að þurfa að borga stóran hluta af byggingarkostnaði þessara húsa og þau verði svo afhent svokölluðum eigendum þeirra með miklum afföllum.

Ég held að sú von margra að lán verði afskrifuð af íbúðarhúsnæði í stórum stíl sé tálsýn. Slíkt er mjög vandasamt og spurning um markmið slíkra aðgerða. Vafalaust er margt fólk í erfiðleikum sem hefur verið varfærið í sínum ákvörðunum en hefur t.d. misst vinnuna og allt fer á annan endann í fjármálum heimilisins. Á hinn bóginn er ekki hægt að ganga ótakmarkað í vasa þess fólks sem hefur verið varfærið í fjármálum á undanförnum árum og ekki látið draga sig út í glannaskap og miklar áhættufjárfestignar.

Hafa sumir fréttamenn engan standard? Eru engin takmörk fyrir því bulli sem hægt er að bjóða fólki upp á í fjölmiðlum? Nú síðast sá ég frétt um að einhverjir fangar á Litla Hrauni væru að hugsa um að fara í hungurverkfall. Ástæðan var sögð sú að þeir væru ósáttir við matinn og vildu ráða því sjálfir hvað eldað væri ofan í þá. Þarna voru á ferðinni einhverjir útlendir dópsalar og ofbeldismenn sem líkaði ekki matseðillinn og vildu fá eitthvað annað að éta. Skyldi þetta lið ekki mega fara í hungurverkfall og vera sem lengst í því. Það þyrfti þá ekki að gefa þeim að éta á meðan. Svona er að ofdekra þetta lið á allan hátt. Þeir ættu að kynnast alvöru fangelsum eins og eru í flestum nálægum löndum. Að ég tali nú ekki um í Bandaríkjunum. Er staðan á blöðunum virkilega sú að það er sama hvaða bull er sent á þau, allt er birt.

Ég hef hvergi séð í blöðum í nálægum löndum álíka dæmi um hvað fjölmiðlar eru uppteknir af því hvað er sagt um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum eins og algengt er hérlendis. Það er náttúrulega ekkert annað en dæmafá minnimáttarkennd að finnast það nauðsynlegt að tiltaka það nákæmlega sem sagt er um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum. Ég held að þeir ættu þá að tiltaka hvernig er gert grín að Íslandi í skemmtiþáttum í Bandaríkjunum. Meira að segja er gert grín að fimmþúsundkallinum. Við nánari skoðun er hann reyndar forljótur því á honum eru myndir af einhverjum fáranlegumr höfuðbúnaði kvenna frá miðöldum.

Víkingur tapaði fyrir Stjörnunni í kvöld með einu marki. Stjarnan skoraði sigurmarkið þegar 10 sek voru eftir. Víkingar vinna ekki marga leiki ef þeir spila einungis eins og menn í tíu mínútur af þeim sextíu sem leikurinn tekur. Hörmulegt.

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Povl Dissing; 25 minuter endnu

You never walk alone

Það var tekin ákvörðun í vinnunni í dag að taka þátt í Lífshlaupinu. Það er verkefni sem gengur út á að vinnustaðir taki sig saman að hreyfa sig á einn eða annan hátt í næstu þrjár vikur. Þetta er hluti af íþróttum fyrir alla og er ætlað til að fá fólk til að hreyfa sig reglubundið. Þetta er mjög fínt en engu að síður finnst mér dálítið skrítið að setja svona verkefni á stað á Þorranum. Á þessum tíma er allra veðra von. Skynsamlegra hefði verið að hrinda þessu af stað upp úr miðjum maí. Sama hefur stundum verið með hjóladaginn sem hefur verið haldinn. Tímasetningin hefur ekki alltaf verið skynsamleg.

Ég sá í dag að Grundarfjörður og HSH vildu kanna hvort hægt væri að seinka því um eitt ár að halda unglingalandsmót UMFÍ þar. Þetta er skynsamlegt af Snæfellingum. Samkvæmt skipulaginu á mótið að vera í Grundarfirði næsta sumar. Nú eru ýmsar fjárhagslegar forsendur brostnar. Það er í fyrsta lagi afar umdeilanlegt hvort það sé rétt stefna að byggja upp aðstöðu til að geta haldið svona mót út um allt land. Á næsta ári er fyrirhugað að mótið verði haldið á Hólmavík. Frjálsíþróttavöllur með tartanbraut, fótboltavellir, íþróttahús, sundlaug, golfvöllur og fleira. Þetta er engin smáræðis aðstaða sem þarf að vera til staðar. Hvernig er svo nýtingin þegar helgin er liðin. Ég hef fylgst með þessum mótum um nokkurra ára skeið og sé að það er ekki alltaf samhengi á milli þess að hafa aðstöðu til alls eða að hafa áhuga á frjálsum íþróttum. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið er fínasta aðstaða til að halda svona mót í Þorlákshöfn, Vík í Mýrdal, Hornafirði, Egilsstöðum, Laugum í Þingeyjarsýslu, Sauðárkróki, Ísafirði, Stykkishólmi og Borgarnesi. Það er því vægast sagt hæpið að rétt sé að halda óbreyttri stefnu í þessu efni við þær aðstæður sem við erum lent í. Bætt notkun á þeim fjárfestingum sem eru til staðar er mjög skynsamlegt. Það er einfaldlega hvorki skynsamlegt né mögulegt að byggja upp aðstöðu fyrir mót sem þessi í flestum þéttbýlisstöðum um allt land. Á hinn bóginn eru mótin mjög skemmtileg og mikið framfaraskref sem UMFÍ hafði frumkvæði að og hefur staðið að af milum myndarskap.

Baugur er kominn á hnén. Það er engin smá frétt. Hann hefur borið höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki íslensk. Mikið hefur verið gert úr fjárhagslegum styrk fyrirtækisins. Það er hins vegar svo að þegar boginn er spenntur til hins ítrasta að þá má lítið út af bera. Samdráttur á mörkuðum og fallandi verðmæti fasteigna samfara miklum skuldum er blanda sem getur ekki farið vel. Fullyrðingar Jóns Ásgeirs um að DO hafi sett skilyrði um að Baugur skyldi falla á undan honum eru sík fásinna að það tekur engu tali. Hefur hann DO á heilanum?

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

The Clash; I Fought The Law

Pan eitthvað að skúnkast

Stjórnmálamenn skapa sér virðingu með því að hafa stíl. Það er ekki alltaf auðvelt ef staðið er í erfiðum málum, en sama er. Það verður að hugsa til lengri tíma hvað þetta varðar. Lélegir fréttamenn hafa gjarna gripið það á lofti og sett í fréttir ef einhver þingmaðurinn notar stóryrði og grófyrði í ræðustól á Alþingi. Gott ef hann kemst ekki í Kastljós eða Ísland í dag fyrir vikið. Þá er freistingin mikil að nota gróft orðaval oftar og oftar ef það er greið leið til að komast í fjölmiðla. Þá verður slíkur orðavaðall marklaus á endanum og kemur sér verst fyrir viðkomandi ef menn kunna sér ekki hóf. Ég vissi ekki hvað ég átti að halda þegar ég sá ljósrit af bréfi forsætisráðherra til seðlabankastjóra í vefmiðlum í dag. Er þetta ný stefna að senda afrit af bréfum forsætisráðherra í fjölmiðla? Verða öll bréf send þessa leið eða bara ákveðið úrval? Forsætisráðherra verður að hafa stíl og halda sig fyrir ofan ódýran popúlisma. Þetta var af ódýrari sortinni. Þó sé verið að glíma við pólitískan andstæðing þá verður að fara eftir ákveðnum edikettum. Þetta minnir mig á kallinn sem sagði: Sáðuð þið hvernig ég tók hann?

Það var athylgisverð frétt í dag um launamál fótboltamanna í efstu deild Um 25% leikmanna var með 3-4 milljónir á mánuði og um 30% með 2-3 milljónir á mánuði. Nær því allir leikmenn fengu greiðslur af einu eða öðru tagi. Ofan á þetta var íbúð á stundum. Nær 20% leikmanna var með frían bíl. Þetta s+ynir betur en nokkuð annað í haða rugl þessi mál hafa verið komin. Að miðlungsleikmenn hér uppi á Íslandi skuli ekki geta spilað fótbolta nema fá borgað fyrir það er náttúrulega bara út í hött. Þetta væri í lagi ef félögin væru rekin með verulegum hagnaði en svo er nú aldeilis ekki. Leikmenn ættu í mesta lagi að fá þá peninga sem koma inn í aðgangseyri. það er sá peningur sem almenningur er tilbúinn að borga til að horfa á þá. Það koma um 100.000 manns á völlinn í efstu deild á ári. Um 80% áhorfenda greiðir aðgangseyri. Miðaverðið var 1.500 kall. Aðgangseyririnn gerir því um 120 milljónir kr. Það eru að jafnaði 10 milljónir á lið. Það er svona eins og tveir til þrír launahæstu leikmennirnir í hverju liði fá borgað. Hvílíkt fjandans rugl. Síðan má ekki gleyma næst efstu deild. Þar er leikmönnum borgað alltof mikið. Það eitt er víst. Í árferði eins og við erum að sigla inn í ætti ekki að greiða leikmönnum í 1. deild krónu í laun umfram aðgangseyrinn. Það er nóg verkefni fyrir félögin að afla fjármuna til að borga þjálfara laun og standa undir öðrum rekstrarkstnaði. Þeir sem ekki vilja sætta sig við þetta geta bara átt sig. Menn eiga ekki að setja félögin á hausinn með því að borga heimtufrekum leikmönnum með miðlungsgetu há laun fyrir að spila lélegan fótbolta. Svo er félagatryggðin ekki til lengur. Alltof margir eru nokkursskonar málaliðar sem flakka á milli liða eftir því hvernig gengur að kreista dropa úr appelsínunni.

Jói og félagar í 2. flokk Víkings í handbolta sigruðu Frammarana í kvöld. Bjarki er á góðri leið með liðið en samt er nokkuð í land.

mánudagur, febrúar 02, 2009

Rolling Stones; Satisfaction

Tekið á því í langstökki

Sá sem er skuldum hlaðinn er ekki frjáls maður í þess orðs fyllstu merkingu. Eftir því sem skuldirnar eru meiri því viðkvæmara er allt. Sá sem á kröfuna hefur beint eða óbeint áhrif á líf og ákvarðanatöku ef þannig ber undir. Því er gríðarlega mikilvægt að stjórnmálamenn séu fjárhagslega sjálfstæðir þannig að kröfuhafar geti ekki haft áhrif á afstöðu eða ákvarðanatöku með því að gefa eitt eða annað í skyn. Þetta er nú bara þannig. Því hverði það verið stórfrétt í öllum nálægum löndum ef það hefði komið á daginn að aðstoðarmaður fyrrverandi forsætisráðherra hefði verið stórskuldugur við ákveðna fjármálastofnun vegna verðbréfabrasks. Það er alveg á hreinu að Gestur af Götunni hefði ekki fengið að taka tugi milljóna í lán og einungis látið á móti veð í hlutabréfum þeim sem keypt væru fyrir lánið. Þetta fengu aðeins útvaldir. En hvers vegna aðstoðarmaður forsætisráðherra? Gamalt máltæki segir; "Æ sér gjöf til gjalda". Það er alveg á hreinu að það er mjög hæpið að stjórnmálamaður eða sá sem hefur áhrif inn í stjórnmálin muni leggja til að reglugerðir, frumvörp eða aðrar stjórnvaldsaðgerðir verði samþykktar sem munu hafa þau áhrif að það geti skaðað hann fjárhagslega prívat og persónulega. Sérstaklega er það viðkvæmt ef menn eru mjög skuldugir. Þetta er bara í mannlegu eðli. Var því með svona gjörningum verið að negla menn svo að þeir beittu sér fyrir því að fjármálageirinn væri látinn í friði? Látinn í friði við að blása efnahagsreikningana út eins og frekast er unnt svo hægt verði að taka enn meiri lán og veðsetja allt klabbið enn meir. Ekki veit ég það en niðurstöðuna þekkja allir. Það þýðir ekkert að afgreiða svona mál með því að segja að þetta sé ekki ólöglegt. Ef siðferðismælikvarðinn er ekki meiri en það hjá mönnum en að allt sé lagt á mælistiku þess hvort hlutir og gerðir standist hegningarlög eða ekki þá er dálítið langt seilst.

Það verður áhugavert að sjá hvernig ný ríkisstjórn notar þá sextíu daga eða svo sem hún hefur til að starfa áður en kosningabaráttan fyrir kosningar hefst í apríl. Næg eru verkefnin og mikið er búið að tala. Jóhanna er enginn flysjungur og ekki fædd í gær. Hún mun vafalaust nota tímann til að taka þær ákvarðanir sem möguleiki er á. Mikilvægt er þó að rasa ekki um ráð fram haldur taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Ég er ekki viss um að opnun séreignalífeyrissjóðanna sé skynsamleg. Í raun finnst mér hún mjög óskynsamleg og dæmi um trix sem hlaupið er í án þess að skoða heildarmyndina. Séreignasjóðirnir hafa lítið fé handbært. Þeir eiga misseljanlegar eignir. Hluti þeirra er í ríkisskuldabréfum en hluti þeirra í öðrum og illseljanlegri eignum. Ef fólk sem er illa statt fjárhagslega fær að taka sinn sparnað út þá munu sjóðirnir leysa út þær eignir sem auðseljanlegastar eru. Eftir situr það sem illseljanlegra eða verðminna. Í dag er erfitt að selja eignir, jafnvel góðar eignir. Því væri með þessu móti verið að gera gróflega upp á milli fólks og jafnvel að eyðileggja inneignina fyrir þeim sem eftir sitja og eru þannig staddir að þeir eru ekki taldir þurfa á þessum fjármunaum að halda.

Sigþór kíkti í heimsókn í dag. Hann var á fyrsta í atvinnuleysi. Hann hefur í bígerð að sækja um vinnu til Noregs. Það er kostur við slíkar aðstður að geta sett það í CVið að maður hafi hlaupið maraþon. Sá sem hefur hlaupið maraþon á 3.05 er bæði þrautseigur, þolgóður og líklegur til að sigrast á ýmsum erfiðleikum.

María keppti á meistaramóti Íslands fyrir 15 - 19 ára í gær. Hún stóð sig vel, vann tvær greinar og var í öðru og þrija sæti í nokkrum öðrum. Nú er runan að byrja, meistaramótið um næstu helgi, svo er fimmtarþraut og síðan bikarkeppnin. Það er alltaf gaman þegar uppskerutíminn byrjar og allt gengur vel.

Ég fór Poweradehringinn á laugardagsmorguninn, svo vestur á Eiðistorg og inni Laugar og svo sömu leið til baka. Þetta gerði 44 km. Á sunnudaginn fór ég sömu leið nema sleppti Poweradehringnum. Það eru 34 km. Fínt hlaupaveður, smá frost og logn.