Ég ætlaði snemma út í morgun en það var rok og leiðindaveður þegar ég gáði til veðurs. Því hallaði ég mér aftur og fór ekki af stað fyrr en um kl. 10.00. Náði hálfu maraþoni. Það var ekki til setunnar boðið því síðasti hluti Photoshopsnámskeiðs var hjá Fókus í Faxafeninu eftir hádegið. Páll Guðjónsson verkfræðingur hafði tekið að sér að leiða félagsmenn í gegnum þann prósess að koma mynd úr vél á vegg. Páll er mjög praktiskur og kom með margar mjög gagnlegar ábendingar og leiðir til að ná sem mestu út úr þeim myndum sem maður er að myndast við að taka. Þetta er endalaus lærdónur og kann maður svona svipað á forritin eins og sá hluti ísjakans sem stendur upp úr sjónum er stórt hlutfall af heildinni.
María keppti á íslandsmótinu í fjölþraut meyja 15-16 ára seinnipartinn í dag. Hún stóð sig mjög vel, vann fjórar greinar af fimm og varð íslandsmeistari með yfirburðum. Svo skemmtilega vildi til að Ingi Rúnar, frændi hennar og jafnaldri úr Kópavoginum, vann sveinaflokkinn. Mömmur þeirra eru systradætur. Ættin var mjög ánægð með hvernig sprotarnir stóðu sig.
Fjórir framkvæmdastjórar séreignalífeyrissjóða birtu grein í Mogganum í morgun. Skoðun þeirra á því að opna sjóðina og hleypa fólki sem er í greiðsluvandræðum í þá var nákvæmlega sú sama sem ég hef verið að tuða um. Miað við aðstæður væru auðseljanlegustu eignirnar seldar fyrst (ríkisskuldabréf og þess háttar pappírar) og eftir sætu verri eingir. Það fólk sem er með fjármál sín í þokkalegu lagi væru þá að blæða sérstaklega. Þótt ég eigi ekki mikið í séreignasjóði og snillingarnir í Landsbankanum hafi lagt sitt af mörkum eða að gera lítið enn minna, þá er ég ekki sáttur við að svona reddingartrix sem stjórnmálamönnum dettur í hug verði keyrð í gegn. Þetta snýst um að sjá heildarmyndina og taka afstöðu út frá henni en skoða ekki einungis eina hlið teningsins.
Maður heyrir fleiri álíka vanhugsuð sjónarmið á fleiri vígstöðvum. Sumir verkalýðsleiðtogar vilja ganga af hörku fram í því að hækka laun samkvæmt fyrirliggjandi kjarasamningum. Miðað við stöðu atvinnuveganna í landinu þá mun launahækkun ekki leiða til neins annars en enn fleiri uppsagna og aukins atvinnuleysis. Greiðslugeta fyrirtækjanna hefur ekkert vaxið. Þegar fyrirtækin þurfa að greiða allt að 25% vexti fyrir hverja krónu sem tekin er að láni þá er ekki mikið eftir.
Sumir vilja knýja fram skattahækkanir. Sumum finnst það réttlætismál en öðrum ekki. Á þeirri umræðu er fleira en eitt sjónarhorn. Ef skattar verða hækkaðir þá hefur almenningur minna á milli handanna. Það eyðir minna en ella. Það þýðir minni veltu hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Það þýðir auknar uppsagnir og aukið atvinnuleysi. Hlutir eru ekki einfaldir, heldur margbrotnir og flóknir. Í þeirri stöðu sem við erum þarf að vanda alla ákvarðanatöku og forðast einhevrjar skyndilausnir.
sunnudagur, febrúar 15, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli