Aðalfundur UMFR36 var í kvöld. Vel mætt og góðar umræður. Í félaginu er rjóminn af ultrajöxlum landsins svo og fjöldi góðra maraþonhlaupara. Svona félagsskapur er mjög gagnlegur til að halda utan um hópinn, flytja þekkingu og reynslu milli manna og síðan styður hver annan eftir föngum. Merk tíðindi voru kynnt á fundinum en nú hefur UMFR36 verið tekið formlega inn í ÍBR. Ég rifjaði það upp að það eru rétt tæp fimm ár síðan ég sótti um inngöngu fyrir UMFR36 í ÍBR. Bréfið var dagsett 22. mars 2004. Jákvætt svar kom loks í janúar 2009. ÍBR virtist reyna að drepa málinu á dreif og bíta okkur af sér með smásmugulegum athugasemdum um eitt og annað. Það var sama hvað við bættum lögin (sem voru kópía af lögum Ungmennafélagsins Fjölnis) þau voru ekki nógu góð. Að lokum fengum við á hreint að í lögunum þurftu að standa eftirfarandi orð: "Markmið félagsins er að stunda íþróttir." Þá var allt í lagi. Það var sama hvað tekið var oft fram í lögum félagsins að tilgangur og markmið félagsins væri að standa fyrir íþróttaæfingum og íþróttamótum, ef þessu sex orð var ekki að finna í lögunum vorum við ekki tekin inn fyrir Gullna hliðið. Það var heldur ekki verið að leiðbeina okkur of mikið.
Bibba sýndi síðan myndir frá Ironmaninum í Busseltown í Ástralíu sem hún og Ásgeir tóku þátt í í haust. Þar var ýmislegt öðruvísi en við eigum að venjast. Það hefur verið magnað að táka þátt í því ævintýri. Síðan var sýnd mynd frá Spartathlonhlaupinu sl. haust. Það var gaman að rifja þetta mikla hlaup upp enn einu sinni. Það er það góða við góðar minningar, sama er hvernig allt veltist, þær verða aldrei teknar frá manni.
miðvikudagur, febrúar 18, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli