Mamma varð 85 ára í gær. Fjölskyldan og þau systkini mömmu sem gátu komið hittist í tilefni dagsins á Litlu Brekku. Þar áttum við góða dagstund og margt bar á góma eins og gengur. Þrátt fyrir árin áttatíu og fimm og drjúgt dagsverk er mamma afar ern og við góða heilsu. Þau pabbi brugðu búi og fluttu suður fyrir tæpum fjórtán árum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hún hefur notið þess tíma sem hún hefur búið hér syðra. Sívakandi yfir því sem menningarlífið hefur upp á að bjóða, stundar leikfimi og félagslíf eldri borgara og ferðast um landið á sumrin eftir því sem tækifæri gefast. Í gær birtust einnig tveir nýjir fjölskyldumeðlimir sem voru að koma í fyrsta sinn á svona samkomu enda bæði fædd eftir áramótin. Þetta er skemmtilegt.
Það var viðtal við stjórnmálafræðing í Kastljósinu í kvöld um prófkjör og aukna möguleika á persónukjöri. Ég var alveg sammála mati hennar á prófkjörum. Prófkjör eru bein ávísun á spillingu og sóðaskap í stjórnmálum. Stjórnmálamenn sem hafa þegið fjármagn sem skiptir máli til að fjármagna prófkjörsbaráttu eru ekki frjálsir menn þegar út í alvöruna er komið. Það liggur í augum uppi. Stjórnmálafræðingurinn setti m.a. fram hugmyndir um persónukjör en þá skildu leiðir. Hún setti fram hugmynd að persónukjöri þar sem kjósendur mættu velja tvo einstaklinga af listandum, konu og karl. Þá skildu leiðir. Það gengur náttúrulega alls ekki að slíkri forsjárhyggju verði beitt við útfærslu á persónukjöri til alþingis eða sveitarstjórna. Jafnrétti er í því fólgið að allir hafa jöfn tækifæri til mennta og atvinnu. jafnrétti er ekki fólgið í því að þvinga almenning til að kjósa yfir sig fulltrúa sem hann hefur ekki áhuga á. Sama af hvaða kyninu það er. Nú heyrast reyndar raddir að jafnréttið eigi bara að virka í aðra áttina. Karl eigi að víkja fyrir konu en kona eigi ekki að vikja fyrir karli svo jafnstöðu kynjanna verði náð. Rökin fyrir þessari afstöðu eru þau að kerfislægt ójafnrétti sé svo svakalegt og landlægt að það sé víst í lagi þótt halli á helv.... karlana í einhverjum málum. Þetta heitir jákvæð mismunun og er beitt gagnvart minnihlutahópum sem hafa verið beittir himinhrópandi óréttlæti í gegnum árhundruðin. Sem dæmi um ójafnréttið eru nefnd hlutföll kynjanna á alþingi, í sveitarstjórnum og í stjórnum fyrirtækja. Það er eins og þetta sé það eina sem máli skipti í lífinu, að ná kjöri til alþingis og / eða sveitarstjórn og setjast í stjórn fyrirtækja.
Það heyrist aldrei minnst á fjölskyldutengd málefni í þessu sambandi. Jafnréttisiðnaðurinn minnist aldrei á að konur fá forsvar barna í yfir 90% tilfella við skilnað. Það þykir líklega bara sjálfsagt af því það hafi alltaf verið svoleiðis. Enda þótt konur hefðu ekki kosningarétt öldum saman þá þótti framsýnum karlmönnum rétt að breyta því. Hví skyldi þetta viðhorf þá standa óbreytt og vera óumbreytanlegt. Oft er viðhorfið þannig að það er eins og föðurnum komi barnið ekki við eftir skilnað. Þegar slík mál ber á góma þá er alltaf vitnað í hegðan einhverra drullusokka og framkoma þeirra færð yfir á alla karla. Málið afgreitt. Nýlega féll t.d. dómur í máli sem faðir höfðaði gegn presti sem skýrði barnið hans án þess að hann vissi af því. Presturinn var dæmdur sekur um vítavert skeytingarleysi gagnvart föðurnum. Það kom ekki fram hvort presturinn var karl eða kona. Jafnréttisiðnaðurinn minnist síðan ekki á að mikill meirihluti þeirra sem nú eru atvinnulausir eru karlar.
Jón Baldvin var sjötugur á dögunum. Ég segi það eins og mér finnst að maður les ekki betur skrifaðar greinar í blöðum en eftir JB. Sömuleiðis eru fáir áheyrilegri og rökfastari í sjónvarpi og útvarpi en JB. Þegar það ber á góma að hann hafi áhuga á að fara í framboð til Alþingis aftur þá bresta menn út í glotti og segja að sökum aldurs sé hann óhæfur alþingismaður. Ég man ekki betur en það hafi verið í pípunum að skipta Jóhönnu Sigurðardóttur út á miðju kjörtímabili sökum aldurs. Nú er hún forystumanneskja og lífakkeri ríkisstjórnar. Það á að meta fólk að verðleikum en ekki telja það hæft/óhæft miðað við einhverja dagsetningu á dagatalinu.
Fór hefðbundinn sunnudagsrúnt í gær í frábæru veðri. Lagði af stað upp úr hálf átta og var kominn heim um ellefu leytið.
mánudagur, febrúar 23, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli