Það hefur verið rætt mikið að undanförnu um aðgerðir í sambandi við þá stöðu þegar fólk ræður ekki við lánin sem hvílir á íbúðarhúsum þeirra. Mér finnst að það vanti miklar upplýsingar til að hægt sé að gera sér grein fyrir stöðunni. Hvað eru það margir sem ráða ekki við lánin? Hvað eru lánin há sem hvíla á íbúðunum? Hverjar eru aðstæður þeirra sem eiga í vandræðum? Hafði fólk spennt bogann til fulls í góðærinu svo að ekkert mátti útaf bera? Þannig mætti áfram telja.
Því má ekki gleyma að á undanförnum árum hafa margar fjölskyldur misst fjármálin í uppnám. Þá hefur varla nokkur maður lyft augabrún og hvað þá meira. Þá er ég að meina fólk í sjávarþorpum víða um land sem hefur misst vinnuna vegna þess að kvótinn hefur verið seldur úr plássinu eða atvinnan á annan hátt horfið. Fólki var nauðugur einn kostur að fara og leita sér að vinnu annarsstaðar. Það þurfti oft að skilja húsin eftir án þess að fá nema smá verð fyrir þau, verð sem oft á tíðum dugði ekki fyrir áhvílandi lánum. Sumir streðuðu við að borga lánin til að lenda ekki á vanskilaskrá og missa fjárhagslega stöðu í samfélaginu. Aðrir gátu ekki greitt af lánunum og létu húsin fara. Annar möguleiki var ekki í stöðunni. Ég þekki vel svona dæmi. Þrátt fyrir að reynt væri að kynna stöðuna fyrir viðkomandi stofnunum s.s. Íbúðarlánasjóði þá var það eins og að tala við steininn. Reglur eru reglur. Engu máli skipti að það gengju nokkursskonar efnahagslegar hamfarir yfir mörg sjávarpláss á landsbyggðinni. aður fékk á tilfinninguna að viðhorfið væri að fólkið gæti sjálfu sér um kennt fyrst það hefði verið svo vitlaust að setja sig niður á þessum eða hinum staðnum og kaupa sér húsnæði þar. Þetta var á þeim tíma sem allt var á fullu svingi hér í nafla alheimsins og allt var trendí og framsækið.
Fjármál voru málið, fiskur var gamaldags.
Nú er öldin önnur. Partíið er búið. Nú er það ekki bara landsbyggðarfólk sem á í vandræðum heldur þjóðin öll. Þá finnst mörgum mjög sjálfsagt að ríkið hlaupi undir bagga og létti byrðunum af þeim sem eru í vandræðum. Það þýðir í raun og veru að það á að dreifa þessum byrðum á alla landsmenn.
Margar tillögur hafa verið lagðar fram. Ýmsir hafa m.a. viljað reikna erlendu lánin á því gengi sem gilti þegar lánið var tekið. Afgangurinn verður þá settur á allan almenning. Það vita allir sem vilja vita að því fylgir áhætta að taka lán í annarri mynt en maður hefur tekjur sínar í. Það er sama í hvaða landi maður býr að gegnisáhætta er fyrir hendi í slíkum tilfellum. Í Noregi er sveitarfélögum t.d. bannað að taka erlend lán. Það va rvægast sagt mjög óvarlegt að taka erlend lán upp á tugi milljona til kaupa á húsnæði eins og margir gerðu.
Því fylgir áhætta að kaupa húsnæði, sérstaklega dýrt húsnæði. Það er gömul saga og ný að húsnæðisverð hækkar og lækkar á víxl. Það var eins og margir héldu hin seinni ár að húsnæðisverð myndi bara hækka og hækka. Því væri það áhættulaust að kaupa dýrt húsnæði. Bankarnir voru mjög óábyrgir í þessum efnum og hvöttu fólk óspart til að skuldsetja sig í botn. Það þekki ég persónulega en sem betur fer tók ég ákvarðarnir sjálfur en lét ekki aðra um það. Á hinn bóginn er það ljóst að ef ég hefði farið eftir ráðum hins svokallaða ráðgjafa hjá Kaupþingi sem lagði fram ákveðnar tillögur eftir að hafa reiknað út greiðslumat þá væri ég eignalaus í dag. Einhver sagði í viðtali í sjónvarpinu í gær að það væri eðlilegt að ríkið bæri skaðann ef húsnæði lækkaði í verði og væri lægra en áhvólandi lán. Hvað þá ef húsnæði hækkar þannig að sala þess skilar hagnaði? Þá hlýtur ríkið einnig að gera hagnaðinn upptækan með sömu rökum og ef það ber tapið. Ef maður segir A þá verður maður að segja B líka. Það er ekki hægt að taka ábyrgðina frá fólki á eigin ákvörðunum.
Ég hitti rafvirkja í fyrradag. Hann sagði mér meðal annars frá íbúðarhúsunum sem eru í byggingu víða á höfuðborgarsvæðinu en líkjast helst góðum félagsheimilum. Glerið í húsið kostar tugi milljóna. Sjónvarpskerfið í þessum húsum er svo flókið að það þúðir ekkert fyrir venjulega rafvirkja að leggja það heldur þarf sérhæfða fagmenn til að ráða við verkið. Ég er ekki sáttur við að þurfa að borga stóran hluta af byggingarkostnaði þessara húsa og þau verði svo afhent svokölluðum eigendum þeirra með miklum afföllum.
Ég held að sú von margra að lán verði afskrifuð af íbúðarhúsnæði í stórum stíl sé tálsýn. Slíkt er mjög vandasamt og spurning um markmið slíkra aðgerða. Vafalaust er margt fólk í erfiðleikum sem hefur verið varfærið í sínum ákvörðunum en hefur t.d. misst vinnuna og allt fer á annan endann í fjármálum heimilisins. Á hinn bóginn er ekki hægt að ganga ótakmarkað í vasa þess fólks sem hefur verið varfærið í fjármálum á undanförnum árum og ekki látið draga sig út í glannaskap og miklar áhættufjárfestignar.
Hafa sumir fréttamenn engan standard? Eru engin takmörk fyrir því bulli sem hægt er að bjóða fólki upp á í fjölmiðlum? Nú síðast sá ég frétt um að einhverjir fangar á Litla Hrauni væru að hugsa um að fara í hungurverkfall. Ástæðan var sögð sú að þeir væru ósáttir við matinn og vildu ráða því sjálfir hvað eldað væri ofan í þá. Þarna voru á ferðinni einhverjir útlendir dópsalar og ofbeldismenn sem líkaði ekki matseðillinn og vildu fá eitthvað annað að éta. Skyldi þetta lið ekki mega fara í hungurverkfall og vera sem lengst í því. Það þyrfti þá ekki að gefa þeim að éta á meðan. Svona er að ofdekra þetta lið á allan hátt. Þeir ættu að kynnast alvöru fangelsum eins og eru í flestum nálægum löndum. Að ég tali nú ekki um í Bandaríkjunum. Er staðan á blöðunum virkilega sú að það er sama hvaða bull er sent á þau, allt er birt.
Ég hef hvergi séð í blöðum í nálægum löndum álíka dæmi um hvað fjölmiðlar eru uppteknir af því hvað er sagt um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum eins og algengt er hérlendis. Það er náttúrulega ekkert annað en dæmafá minnimáttarkennd að finnast það nauðsynlegt að tiltaka það nákæmlega sem sagt er um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum. Ég held að þeir ættu þá að tiltaka hvernig er gert grín að Íslandi í skemmtiþáttum í Bandaríkjunum. Meira að segja er gert grín að fimmþúsundkallinum. Við nánari skoðun er hann reyndar forljótur því á honum eru myndir af einhverjum fáranlegumr höfuðbúnaði kvenna frá miðöldum.
Víkingur tapaði fyrir Stjörnunni í kvöld með einu marki. Stjarnan skoraði sigurmarkið þegar 10 sek voru eftir. Víkingar vinna ekki marga leiki ef þeir spila einungis eins og menn í tíu mínútur af þeim sextíu sem leikurinn tekur. Hörmulegt.
fimmtudagur, febrúar 05, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli