Mér finnst ekki alveg ljóst hvoru megin við hrossið maður stendur eftir að hafa hlustað á Kastljósið í kvöld. DO er náttúrulega mikill skákmaður og spilar bæði sókn og vörn af mikilli snilld. Mér fannst Sigmar ekki alveg ná vopnum sínum. Hann var of mikið í almennum viðhorfum en það vantaði að ganga meira konkret fram. Hvernig var með vaxtastefnu Seðlabankans og Jöklabréfin sem hanga nú eins og myllusteinn um hálsinn á krónunni og þjóðinni. DO kom inn á að það jaðraði við að hafa verið mistök. Hvernig var með hin gríðarlegu eitruðu lán til stóru bankanna sem fóru í gegnum smáfyrirtækin á síðasta ári sem gerðu Seðlabankann gjaldþrota? Af hverju var ekki spurt að því? Ef Seðlabankinn var svona viss um að allt væri að snarast til helvítis hvers vegna greip hann ekki inn í málin á eigin spýtur þegar ljóst var að ríkisstjórnin var í tómri afneitun? Enda þótt beint inngrip hefði verið erfitt og umdeilanlegt þá er yfirleitt betra að hleypa ígerðinni út áður en drep kemur í sárið. Það er hins vegar yfirleitt sársaukafullt. Frestur er hinsvegar á illu bestur.
Það kemur hins vegar betur og betur í ljós hvert er hið raunverulega andlit Baugsveldisins. Ef staðan hefur verið þannig að Baugur hefur ekki fengið lánafyrirgreiðslu erlendis frá árslokum 2007 eins og maður les um í erlendum fjölmiðlum þá er ljóst að staðan er svolítið á annan veg en eigendur fyrirtækisins hafa viljað vera láta. EBITDA fyrirtækisins segir ekkert um stöðuna þegar ekki liggur fyrir hverjar eru árlegar skuldbindingar fyrirtækisins. Nú skilur maður betur hið gríðarlega kapp Baugsmanna að ná undirtökunum í einhverjum bankanna hérlendis. Það er gott að eiga bensínstöð ef maður fær ekki skrifað bensín á bílinn.
Í þessu sambandi er síðan annar flötur sem hefur verið að skýrast. Baugsveldið á gríðarlegan fjölda verslana og fyrirtækja hérlendis. Líkur benda til að þessi fyrirtæki hafi verið rekin með tapi til að ryðja keppinautum af markaði vegna þess að til skamms tíma höfðu þau auðveldara aðgengi að fjármagni en margir aðrir. Ársreikningum hefur ekki verið skilað þannig að staðan liggur alls ekki ljós fyrir. Mér sýnist staðan hafa verið þannig að skammt hefur verið í að Baugur ætti Ísland með húð og hári.
Eitt sagði DO í kvöld sem hlýtur að kalla eftir frekari skýringum. Hann sagði að einhverjir stjórnmálamenn hefðu verið í klúbbnum sem fengu lánafyrirgreislu fyrir utan hefðbundnar vinnureglur bankanna. Það hlýtur að vera kallað eftir því hverjir eru þar á ferðinni. Svona lagað getur ekki verið í einhverri umræðu sem fer eins og köttur í kringum heitan graut. Meðan hún skýrist ekki eru liggja allir undir grun. Ef það verður ekki gert er samfélagið hér þvílíkt drulludíki að fáu er til við að jafna.
þriðjudagur, febrúar 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli