mánudagur, febrúar 02, 2009

Sá sem er skuldum hlaðinn er ekki frjáls maður í þess orðs fyllstu merkingu. Eftir því sem skuldirnar eru meiri því viðkvæmara er allt. Sá sem á kröfuna hefur beint eða óbeint áhrif á líf og ákvarðanatöku ef þannig ber undir. Því er gríðarlega mikilvægt að stjórnmálamenn séu fjárhagslega sjálfstæðir þannig að kröfuhafar geti ekki haft áhrif á afstöðu eða ákvarðanatöku með því að gefa eitt eða annað í skyn. Þetta er nú bara þannig. Því hverði það verið stórfrétt í öllum nálægum löndum ef það hefði komið á daginn að aðstoðarmaður fyrrverandi forsætisráðherra hefði verið stórskuldugur við ákveðna fjármálastofnun vegna verðbréfabrasks. Það er alveg á hreinu að Gestur af Götunni hefði ekki fengið að taka tugi milljóna í lán og einungis látið á móti veð í hlutabréfum þeim sem keypt væru fyrir lánið. Þetta fengu aðeins útvaldir. En hvers vegna aðstoðarmaður forsætisráðherra? Gamalt máltæki segir; "Æ sér gjöf til gjalda". Það er alveg á hreinu að það er mjög hæpið að stjórnmálamaður eða sá sem hefur áhrif inn í stjórnmálin muni leggja til að reglugerðir, frumvörp eða aðrar stjórnvaldsaðgerðir verði samþykktar sem munu hafa þau áhrif að það geti skaðað hann fjárhagslega prívat og persónulega. Sérstaklega er það viðkvæmt ef menn eru mjög skuldugir. Þetta er bara í mannlegu eðli. Var því með svona gjörningum verið að negla menn svo að þeir beittu sér fyrir því að fjármálageirinn væri látinn í friði? Látinn í friði við að blása efnahagsreikningana út eins og frekast er unnt svo hægt verði að taka enn meiri lán og veðsetja allt klabbið enn meir. Ekki veit ég það en niðurstöðuna þekkja allir. Það þýðir ekkert að afgreiða svona mál með því að segja að þetta sé ekki ólöglegt. Ef siðferðismælikvarðinn er ekki meiri en það hjá mönnum en að allt sé lagt á mælistiku þess hvort hlutir og gerðir standist hegningarlög eða ekki þá er dálítið langt seilst.

Það verður áhugavert að sjá hvernig ný ríkisstjórn notar þá sextíu daga eða svo sem hún hefur til að starfa áður en kosningabaráttan fyrir kosningar hefst í apríl. Næg eru verkefnin og mikið er búið að tala. Jóhanna er enginn flysjungur og ekki fædd í gær. Hún mun vafalaust nota tímann til að taka þær ákvarðanir sem möguleiki er á. Mikilvægt er þó að rasa ekki um ráð fram haldur taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Ég er ekki viss um að opnun séreignalífeyrissjóðanna sé skynsamleg. Í raun finnst mér hún mjög óskynsamleg og dæmi um trix sem hlaupið er í án þess að skoða heildarmyndina. Séreignasjóðirnir hafa lítið fé handbært. Þeir eiga misseljanlegar eignir. Hluti þeirra er í ríkisskuldabréfum en hluti þeirra í öðrum og illseljanlegri eignum. Ef fólk sem er illa statt fjárhagslega fær að taka sinn sparnað út þá munu sjóðirnir leysa út þær eignir sem auðseljanlegastar eru. Eftir situr það sem illseljanlegra eða verðminna. Í dag er erfitt að selja eignir, jafnvel góðar eignir. Því væri með þessu móti verið að gera gróflega upp á milli fólks og jafnvel að eyðileggja inneignina fyrir þeim sem eftir sitja og eru þannig staddir að þeir eru ekki taldir þurfa á þessum fjármunaum að halda.

Sigþór kíkti í heimsókn í dag. Hann var á fyrsta í atvinnuleysi. Hann hefur í bígerð að sækja um vinnu til Noregs. Það er kostur við slíkar aðstður að geta sett það í CVið að maður hafi hlaupið maraþon. Sá sem hefur hlaupið maraþon á 3.05 er bæði þrautseigur, þolgóður og líklegur til að sigrast á ýmsum erfiðleikum.

María keppti á meistaramóti Íslands fyrir 15 - 19 ára í gær. Hún stóð sig vel, vann tvær greinar og var í öðru og þrija sæti í nokkrum öðrum. Nú er runan að byrja, meistaramótið um næstu helgi, svo er fimmtarþraut og síðan bikarkeppnin. Það er alltaf gaman þegar uppskerutíminn byrjar og allt gengur vel.

Ég fór Poweradehringinn á laugardagsmorguninn, svo vestur á Eiðistorg og inni Laugar og svo sömu leið til baka. Þetta gerði 44 km. Á sunnudaginn fór ég sömu leið nema sleppti Poweradehringnum. Það eru 34 km. Fínt hlaupaveður, smá frost og logn.

Engin ummæli: