laugardagur, febrúar 07, 2009

Ég fór út kl. 6.30 í morgun og tók fyrst Poweradehringinn. Aðstæður voru eins og bestar geta verið að vetrarlagi, frost, logn og stígarnir stamir. Um kl 8.00 var ég kominn vestur að brúnni yfir Kringlumýrarbrautina. Þangað komu svo Jói, Gauti og Stebbi. Víð fórum hefðbundna leið vestur á Eiðistorg og þaðan inn í Laugar. Þar héldu Jói og Stebbi áfram en við Gauti snerum við vestur á Eiðistorg aftur og síðan austur með flugvellinum, gegnum Fossvoginn og heim. Rennslið var fínt, við vorum yfirleitt á um 5.00 mín og hvern km síðasta legginn frá Laugum. Þetta er fimmta helgarmaraþonið frá áramótum og allt hefur gengið upp sem planlagt var. Ég fer að herða á vegalengdum þegar líður á mánuðinn en annars er þetta mesta hlaupamagn um miðjan vetur sem ég hef lagt að baki til þessa.

María keppti á meistaramótinu í frjálsum í dag niður í Laugardal. Hún var aðeins frá sínu besta í langstökki en bætti persónulegan árangur í hástökki og varð önnur. Hún hefur átt í svolitlum erfiðleikum með hástökkið síðustu tvö árin og festist í 1.55. Hún bara komst ekki hærra. Það voru allir afslappaðir yfir þessu því þessi stífla hlaut að losna. Nú er allt komið í gott rennsli. Hún bætti sinn besta árangur um síðustu helgi og aftur í dag. Hún á mikið inni þegar sjálfstraustð er komið fyrir alvöru.

Ég hitti Ásdísi Höllu, formann FRÍ, niður í Laugardalshöll í dag. Hún var ánægð með að UMFR36 væri komið formlega inn í íþróttahreyfinguna. Sú gríðarlega aukning sem hefur átt sér stað í lengri hlaupum að undanförnu hefur ekki farið fram hjá íþróttahreyfingunni og það var í sjálfu sér bara tímaspursmál hvenær skrefið yrði stigið til fulls. Ungt fólk hefur snerpu og sprengikraft. Það eru góðir kostir upp að vissu marki en hafa sín takmörk. Þegar fólk eldist þá þroskast með því seigla, úthald og aukinn agi auk þess sem reynslubankinn verður stærri og stærri með hverju árinu sem líður. Það er sá grunnur sem langhlauparar byggja sinn árangur á. Fyrrgreindir hæfileikar eru ekki minna virði en sprengikraftur yngra fólks. Best er þegar þetta tvennt er nýtt til fullnustu og er virt sem skildi. Það á bæði við um íþróttahreyfinguna svo og samfélagið í heild sinni.

Jói minn er tvítugur í dag. Tíminn líður fljótt. Í gærkvöldi skrapp ég upp í Egilshöll og horfði á Víking spila við Val. Í Víkingsliðinu spiluðu þrír jafnaldrar hans sem voru litlir pottar þegar við fluttum suður fyrir tæpum tíu árum síðan. Það er alltaf jafn gaman að fylgjast með krökkunum þroskast frá barnsaldri upp í að verða fulltíða fólk. Best er þegar þeir nýta þau spil til fulls sem þeir hafa á hendinni.

Lag og texti dagsins er eftir Björn Afzelius. Lagið "Pa egna vingar" er á síðustu plötu Björns og er tileinkað dóttur hans á nítján ára afmælisdegi hennar. Hoola Bandoola Band spilar lagið á minningartónleikum sem haldnir voru um Björn árið 1999. Mikael Wiehe syngur á sinni frábæru skánsku.

Engin ummæli: