Það var tekin ákvörðun í vinnunni í dag að taka þátt í Lífshlaupinu. Það er verkefni sem gengur út á að vinnustaðir taki sig saman að hreyfa sig á einn eða annan hátt í næstu þrjár vikur. Þetta er hluti af íþróttum fyrir alla og er ætlað til að fá fólk til að hreyfa sig reglubundið. Þetta er mjög fínt en engu að síður finnst mér dálítið skrítið að setja svona verkefni á stað á Þorranum. Á þessum tíma er allra veðra von. Skynsamlegra hefði verið að hrinda þessu af stað upp úr miðjum maí. Sama hefur stundum verið með hjóladaginn sem hefur verið haldinn. Tímasetningin hefur ekki alltaf verið skynsamleg.
Ég sá í dag að Grundarfjörður og HSH vildu kanna hvort hægt væri að seinka því um eitt ár að halda unglingalandsmót UMFÍ þar. Þetta er skynsamlegt af Snæfellingum. Samkvæmt skipulaginu á mótið að vera í Grundarfirði næsta sumar. Nú eru ýmsar fjárhagslegar forsendur brostnar. Það er í fyrsta lagi afar umdeilanlegt hvort það sé rétt stefna að byggja upp aðstöðu til að geta haldið svona mót út um allt land. Á næsta ári er fyrirhugað að mótið verði haldið á Hólmavík. Frjálsíþróttavöllur með tartanbraut, fótboltavellir, íþróttahús, sundlaug, golfvöllur og fleira. Þetta er engin smáræðis aðstaða sem þarf að vera til staðar. Hvernig er svo nýtingin þegar helgin er liðin. Ég hef fylgst með þessum mótum um nokkurra ára skeið og sé að það er ekki alltaf samhengi á milli þess að hafa aðstöðu til alls eða að hafa áhuga á frjálsum íþróttum. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið er fínasta aðstaða til að halda svona mót í Þorlákshöfn, Vík í Mýrdal, Hornafirði, Egilsstöðum, Laugum í Þingeyjarsýslu, Sauðárkróki, Ísafirði, Stykkishólmi og Borgarnesi. Það er því vægast sagt hæpið að rétt sé að halda óbreyttri stefnu í þessu efni við þær aðstæður sem við erum lent í. Bætt notkun á þeim fjárfestingum sem eru til staðar er mjög skynsamlegt. Það er einfaldlega hvorki skynsamlegt né mögulegt að byggja upp aðstöðu fyrir mót sem þessi í flestum þéttbýlisstöðum um allt land. Á hinn bóginn eru mótin mjög skemmtileg og mikið framfaraskref sem UMFÍ hafði frumkvæði að og hefur staðið að af milum myndarskap.
Baugur er kominn á hnén. Það er engin smá frétt. Hann hefur borið höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki íslensk. Mikið hefur verið gert úr fjárhagslegum styrk fyrirtækisins. Það er hins vegar svo að þegar boginn er spenntur til hins ítrasta að þá má lítið út af bera. Samdráttur á mörkuðum og fallandi verðmæti fasteigna samfara miklum skuldum er blanda sem getur ekki farið vel. Fullyrðingar Jóns Ásgeirs um að DO hafi sett skilyrði um að Baugur skyldi falla á undan honum eru sík fásinna að það tekur engu tali. Hefur hann DO á heilanum?
miðvikudagur, febrúar 04, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli