fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Í vetur hefur verið mikil umræða í samfélaginu um að ýmsum viðteknum vinnubrögðum verði breytt. Það hefur verið rætt um Nýtt Ísland og fleira í þeim dúr. Opnara samfélag og þroskaðra lýðræði. Meðal þess sem hefur verið sett á oddinn er meiri möguleikar almennings (kjósenda) á hverjir eru kosnir til Alþingis. Nú eru settir fram istar sem eru ákveðnir á ýmsan hátt og kjósendur hafa sáralitla möguleika til að hafa áhrif á hverjir komast á þing fyrir þann lista sem þeir vilja styðja. Nú er það svo að íslenska kosningakerfið er langt í frá það eina sem notað er. Í Danmörku, Finnlandi og Írlandi hafa kjósendur mikla möguleika á að hafa áhrif á hverjir eru kosnir á þing. Í Finnlandi er t.d. frambjóðendur settir í tilviljanakenndri röð á framboðslistann. Fyrir framan hvern frambjóðenda er ákveðið númer. Kjósandinn skrifar númer á þeim frambjóðenda sem hann vill kjósa í ákveðinn reit. Sá frambjóðandi sem fær flestar merkingar er í efsta sæti og svo koll af kolli. Ekki hefur heyrst annað en að kosningar til Alþingis viðkomandi landa gangi vandræðalaust fyrir sig í Finnlandi, Danmörku og Írlandi.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Ýmsir hópar hafa áttað sig á því að með aukinni aðkomu kjósenda að því að raða á lista minnka möguleikar allskonar hópa til að hafa vit fyrir kjósendum. Með auknum möguleikum kjósenda til að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu kosninganna þá minnka möguleikar sérhagsmunahópa til að tryggja aðilum sæti á Alþingi sem hafa ekki fylgi. Svo kallaðir jafnréttissinnar hafa langi barist fyrir þvæi að koma á fléttulistum sem þýðir að kynjunum yrði raðað til skiptis á framboðslista. Jafnvel þótt viðhaft sé prófkjör þá vilja þessir aðilar hafa fléttulista eða ákveðna skipan listans með hliðsjón af kynjum. Markmiðið er sem sagt að tryggja einhverjum sæti ofarlega á framboðslista jafnvel þótt viðkomandi hafi ekki fylgi almennings til að sætis framarlega á lista og þar með setu á Alþingi. Ýmis félög senda nú frá sér harðorðar ályktanir þess efnis að það komi ekki til mála að almenningur megi hafa endanleg áhrif á hverjir taki sæti á Alþingi með þvi að hafa persónukjör til Alþingis. Það eru aðrir sem eru betur fallnir til að ráða því. Svona er nú tilveran skrýtin. það er trúa mín að það verði engu breytt í kosningalögum hérlendis í náinni framtíð. Það er hættulegt að láta of mikil völd í hendur sauðsvörtunum almúganum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála. "Flokkseigendur" og sérhagsmunaklíkur munu ekki gefa sín völd eftir baráttulaust. -HA

Nafnlaus sagði...

Sem félagi í hagsmunahópnum sauðsvartur almúginn staðfesti ég hér með að fyrir mína parta væri það alveg stórhættulegt ýmsum sérhagsmunahópum og pólitískum trúarsöfnuðum ef ég fengi meiru að ráða :)
Bibba