Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, kom í dag ásamt fríðu föruneyti til fundar í sambandinu. Þau eru hér til að kynna sér stöðu mála á Íslandi og ræða viðhorf gagnvart inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þau voru ekki alltof hrifin af umræðunni hérendis. Þeim fannst umræðan snúast alltof mikið um hverjar væru hætturnar fyrir Ísland við inngöngu en ekki hvaða möguleikar væru fólgnir í inngöngu í sambandið. Nú er það alltaf svo að flestum ákvörðunum fylgja kostir og gallar. Ákvörðun hverju sinni tekur mið af því hvort vegur þyngra. Síðan skiptir máli hvaða aðrir valkostir eru fyrir hendi. Íslendingar hafa skipað málum sínum þannig að það eru afar fá góð spil á hendinni. Það þýðir ekkert að reyna að koma sökinni af því á aðra, sökin er alfarið innlend ákvarðanataka. Annað hvort ákvarðanir eða aðgerðaleysi. Það er oft erfitt að taka óvinsælar ákvarðanir en afleiðingar þess að taka slíkar ákvarðanir ekki eru yfirleitt ennþá verri. Þá skilur á milli alvöru manna eða meðalskussa.
Ég held að flestum ætti að vera ljóst núorðið að umræða um einhliða upptöku Íslands á öðrum gjaldmiðli er hreint bull. Styrkur gjaldmiðils hverju sinni ræðst af því baklandi sem er til staðar. ef við myndum reyna að skipta öllum íslenskum krónum sem til væru í landinu fyrir erlendan gjaldeyri án annarra hliðaraðgerða yrði gengi krónunnar svo lágt að það myndi leiða fátækt yfir þjóðina. Traustið á henni erlendis er ekki mikið sem stendur.
Þegar öll umræðan snýst um hvar seðlabankastjóri er staddur hverju sinni og hvað stendur í þeim bréfum sem hann fær eða skrifar þá er ekki von á að umræðan þokist neitt áfram.
Mikilvægast af öllu er að ræða og móta skýra stefnu til framtíðar. Hvert skal stefna? Hver er framtíðarsýnin? Hvar á að skipa íslensku þjóðfélagi?
Að undanförnu er ýmsum gjarnt að taka sér í munn að þjóðin vilji hitt og þjóðin vilji þetta þegar verið er að færa rök fyrir viðhorfum eða einstökum ákvörðunum. Hver er þessi þjóð? Eru það þeir sem mætt hafa á mótmælafundi að undanförnu eða eru það þeir sem sinna bloggsíðum Morgunblaðsins af ákefð? Hvernig er þetta viðhorf þjóðarinnar mælt? Er það gert í skoðanakönnunum? Ætti þá ríkisstjórn að segja af sér hverju sinni sem hún mælist í minnihluta samkvæmt skoðanakönnunum? Á ríkisstjórn eða embættismenn að segja af sér í hvert sinn sem ákvörðunum þeirra er mótmælt? Spyr sá sem ekki veit? Að mínu viti er vilji þjóðarinnar fyrst og fremst sá sem kemur fram í kosningum. Síðan er hægt að stöðva alla funktion í samfélaginu með fjöldaverkföllum svo dæmi sé nefnt. á þann hátt er hægt að skapa ástand svo löglega kjörinni ríkisstjórn sé ekki sætt. Það verður að vera eitthvað stórkostlegt sem ryður burt niðurstöðum úr lýðræðislegum kosningum í lýðræðisríki. Þótt einhver skríll ráðist á lögregluna með líkamsmeiðingum og djöfulskap þá veltir það ekki ríkisstjórn undir öllum venjulegum kríngumstæðum.
mánudagur, febrúar 09, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli