Við Steinn héldum fyrirlestra um ofuríþróttir í morgun fyrir nemendur í íþróttafræðum í Háskólanum í Reykjavík. Þráinn Hafsteinsson tugþrautarkappi hafði forgöngu um þetta. Steinn fjallaði mest um reynslu sína af þríþraut en ég fjallaði um hlaupin og ýmislegt þeim skylt s.s. mataræði. Steinn er gamall frjálsíþróttakappi og var einnig mikill sundmaður áður en hann sneri sér að þríþrautinni með frábærum árangri. Hann er rúmlega fertugur. Þegar ég var jafngamall honum var ég ca 15 kílóum þyngri en ég er í dag og gekk út frá því sem sjálfsögðum hlut að það litla sem ég hefði tengst íþróttum væri alfarið að baki. Maður skyldi hins vegar aldrei segja aldrei.
Nemendurnir sem þarna voru eru vafalaust allt saman ágætt íþróttafólk á besta aldri. Nokkra þekkti ég sem gott afreksfólk. Það var svolítið gaman að upplifa það þegar þetta unga íþróttafólk saup hveljur yfir þvi sem við Steinn erum að gera.
Það var gaman að fá tækifæri til að fara í gegnum ultrahlaupin og það sem til þarf að ná árangri í þeim efnum með þessum hóp svo og Þráni. Það kveikir kannski í einhverjum að velta þessu fyrir sér. Á hinn bóginn eru þau varla tilbúin fyrr en eftir svona tíu ár.
Það eru til ýmsar aðferðir við að hagnast á eignarhaldi og rekstri fyrirtækja. Ein aðferðin er að blóðmjólka þau. Fyrirtæki er keypt, stundum með skuldsettri yfirtöku sem krefst lágmarks fjármagns af hálfu kaupenda. Þegar eigarhaldið er komið á hreint er hafist handa við að ná fjármagni út úr þeim. Það er gert með því að selja fyrirtækinu allskonar þjónustu s.s. ráðgjafaþjónustu á mjög háu verði. Fyrirtækið er látið borga allskonar kostnað fyrir eigendur. Miklar úttektir úr fyrirtækinu geta átt sér stað. Viðkomandi kaupa eignir af fyrirtækinu á lágu verði. Smám saman hrannast upp skuldir og að lokum fara þau lóðbeint á hausinn. Maður heyrir öðru hverju af stórum gjaldþrotum sem eru eitthvað dúbíus eftir allan þann uppgang sem hefur átt sér hérlendis stað á liðnum misserum.
Frjálsíþróttadeild Ármanns hélt peppuppfund í kvöld. Ný stjórn er að hefjast handa um að blása nýju lífi í deildina. Það eru ýmsir góðir stofnar sem eru þarna til staðar en eitt og annað vantar á til að hlutirnir myndu smella vel saman. Meðal annars hefur vantað mannskap til að skipa sér í forystu. Nú er kominn mjög áhugasamur formaður sem er fullur af krafti og nýjum hugmyndum. Það er ýmsilegt sem þarf að gera á næstu mánuðum. Þórólfur Árnason fyrrv. borgarstjóri hélt utan um fundarstjórn af miklum myndarskap.
Komst ekkert út í gærkvöldi. Því fór ég fyrr út í morgun en vanalega og náði aukahring eða 12 km fyrir kl. 7.00. Flott veður en fór fljótlega að blása.
Ég fékk í gær upplýsingar um Evrópumeistaramótið í 24 tíma hlaupi. Það verður haldið í Bergamo á Ítalíu í byrjun maí. Það kitlar að reyna að komast á það en þá verð ég að fórna 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi sem er haldið í maílok. Fyrir A flokkinn er lágmark 190 km og fyrir B flokkinn er lágmark 180 km. Ég er því vel yfir tilskyldum mörkum. Ég brýt heilann um þetta á næstu vikum en verð að vera búinn að ákveða mig fyrir 20. mars. Meðal annars þarf ég að leita hófanna með að afla mér einhverra styrkja. Það hefur líklega oftast verið auðveldara en nú.
miðvikudagur, febrúar 25, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það var mjög gaman að fjalla um áhugamálið á þessum vettvangi og mikilvægt innlegg í umræðu um afreksíþróttir.
Skrifa ummæli