föstudagur, febrúar 27, 2009

Ég rak augun í það í Mogganum í morgun að Jón Kr. frá Bíldudal ætlaði að standa fyrir tónleikum í FÍH salnum í kvöld. Tilgangurinn var að afla fjár fyrir tónlistarsafnið á Bíldudal, Melódíur minninganna. Jón hefur komið safninu upp af eigin rammleik og mikilli elju. Það er með þetta eins og aðra söfnun. Það sem er venjulegt og vekur ekki eftirtekt meðan það er í notkun er orðinn safngripur og hefur sögulegt gildi eftir tiltölulega fá ár. Það vantar hins vegar oft fólk til að koma auga á hvar safngripina er að finna og þess vegna glatast þeir fyrr en varir. Í safni Jóns kennir margra grasa, grasa sem væru glötuð ef hann hefði ekki haft framsýni til að halda þeim saman.

Þar sem FÍH salurinn er hér hins vegar við götuna var það ekki ofverkið að labba niðureftir upp úr kl. 21:00. Þá var dagskráin komin á fullt og salurinn þéttsetinn. Dagskráin var keyrð á fullu fram til rúmlega 23:00. Meistarinn sjálfur söng nokkur lög í lokin. Þar á undan kom fjöldi fólks fram og var gaman að sjá það rifja upp gamla takta. Undirleikinn önnuðust kornungir strákar og kynnti Þuríður Sigurðardóttir söngkona tvo þeirra sérstaklega sem barnabörn Magnúsar Ingimarssonar. Það eru rúmlega fjörutíu ár síðan hún byrjaði að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á Röðli í gamla daga og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Þetta var fínt kvöld hjá Jóni og honum til sóma. Vonandi hefur það skilað nokkrum krónum í kassann því ekki mun af veita. Bílddælingar voru alltaf mikið leiklistar- og tónlistarfólk. Vonandi er svo enn þótt fólkinu hafi fækkað. Þar var stundum ekkert of mikið að gera á veturna og tíminn var þá nýttur þess betur til að auðga og rækta menninguna.

Ég náði aldrei að fara á ball með Facon í gamla daga fyrir vestan. Þeir hættu um það leyti sem þótti óhætt að sleppa mér á böll. Það hefur verið svona 1968 eða þar um bil. Þá voru dansleikir í vestursýslunni um hverja helgi frá júní byrjun fram til septemberloka. Birkimelur, Patró, Tálknafjörður og Bíldudalur skiptust um að halda dansleiki. Fullt af fólki og mikið að gerast. Á þessum árum var mikið af ungu fólki á þessum slóðum eins og svo víða á landsbyggðinni. Yfirleitt nóg vinna og miklir peningar. Það þótt síðan ekki frágangssök þótt a.m.k. þrjár kynslóðir færu á böllin saman. Þetta er orðið breytt og þessir tímar eða aðrir álíka koma ekki aftur. Það er áftur á móti gaman að hafa upplifað þá.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tveir þumlar upp fyrir að auglýsa tónleikana hjá Jóni Kr. frænda mínum :-)

Nafnlaus sagði...

Og gaman að sjá svona fína mynd af Þuru æskuvinkonu minni, þeirri eðalkonu.

Bkv.


Bryndís.