Ég fór út að snudda með myndavélina í góða veðrinu í gær. Nú fer sá tími að koma að það er mikið að gerast fyrir þá sem hafa gaman af því að taka myndir nú eða bara að skoða það sem er að gerast í kringum þá. Farfuglarnir eru að koma til landsins og allt er að lifna við. Ég sá í gær að ég hafði misst af fyrirlestri um Djúpavogsverkefnið á þriðjudagskvöldið var. Djúpavogsmenn hafa mikinn sóma af því að koma því einstaka umhverfi á framfæri sem er í kringum þorpið. Ég hlustaði á viðtal um þetta í Samfélagið í nærmynd í gærmorgun þegar ég sá af hverju ég hafði misst. Fyrir utan allt og allt þá er það t.d. að gerast í sumar að ferðaskrifstofa sem hefur til þessa í besta falli stoppað í þorpinu til að leyfa túristunum að fara á klósettið ætlar að stoppa eina nótt í sumar og gefa fókinu möguleika á að ganga um og skoða fuglalífið. Það eru hvorki meira eða minna en um 600 gistinætur með tilbehör. Það munar um minna fyrir ekki stærra samfélag. Svona eru margfeldisáhrifin ef menn eru með gott efni í höndunum, marka sér stefnu og fylgja því eftir. Djúpavogsmenn halda úti vefnum www.birds.is
Ég renndi fyrst úr að tjörnini á Seltjarnarnesi. Það er alltaf gaman að koma þangað þótt það sé yfirleitt sami fuglaflokkurinn sem heldur þar til. Stóiskar gæsir, sofandi endur og svo mávaskrattar. Það var meira líf fyrir neðan bakkann. Fjörufuglarnir voru á fullu í útfirinu við að leita af marfló eða skel. Ég fór svo inn í Fossvogskirkjugarð. Þar er oft líflegt fuglalíf. Þrestirnir eru fyrirferðarmestir og hafa hátt. Þegar maður fór að hlusta betur þá heyrðust önnur hljóð. Við nánari athugun sáust auðnutittlingarnir skjótast um. Ég hafði ekki séð þá áður en vissi að þeir væru þarna. Gulltoppan og hettusöngvarinn eiga einnig að vera þarna og fleiri fuglar sem ég sá ekki í þetta skiptið. Þegar ég var að ganga þarna kom maður á móti mér. Við tókum tal saman og þá kom í ljós að við höfðum verið saman á Hvanneyri veturinn 1972-1973. Ég hef aldrei séð hann síðan leiðir skildu þá um vorið. Hann er alvörufuglaáhugamaður og er í arnardeildinni. Þangað komast bara sérstakir menn. Hann hefur verið að fljúga með menn frá Náttúrufræðistofnun í um 20 ára skeið um Breiðafjörðinn og Faxaflóann við eftirlit og kortlagningu á arnaróðölum. Hann þekkti þetta allt út og inn. Hann benti mér á vefinn www.eyjasigling.is en þar er hægt að tengja sig inn á vefmyndavél sem hefur verið komið fyrir við eitt arnaróðal í Breiðafirði. Þannig er hægt að fylgjast með hreiðrinu og því sem þar fer fram á netinu. Það var skemmtileg tilviljun að rekast á gamlan félaga þarna og fræðast af honum um ýmsa hluti.
Ég renndi svo suður í Hafnarfjörð að skoða skarfana. Þeir sitja garna á skerjum í fjörunni niður af Hrafnistu með útbreidda vængi til að þurrka sig. Það var vænn hópur þarna í heimspekilegum vangaveltum og lét umferðina sig engu varða.
Ég var hálfslappur í gær. Það kom einhver kvefdrulla í mig á mánudaginn. Lét mig þó hafa það að fara Eiðistorgshring fyrir kvöldmatinn en var þungur. Veðrið eins og best var á kosið. Ég hitti formann Hlaupasamtaka lýðveldisins á Ægissíðunni. Hann sagði að það ætti að taka á móti forsetanum með lúðrablæstri og söng þann 19. apríl n.k, þegar hann kemur til landsins eftir fína för um eyðimerkur Marakkó.
föstudagur, apríl 10, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli