Það er eitt einkenni þess ofdekrunarsamfélags sem hefur verið byggt upp hérlendis á liðnum árum að einstaklingar eru hætti að bera ábyrgð á eigin gjörðum. Það er allt einhverjum öðrum að kenna ef eitthvað fer úrskeiðis. Ef menn taka lán alveg upp í þak og síðan breytast forsendur til hins verra þá er er sökin annarra en lántakandans. Vitaskuld áttu fáir von á því að bankakerfið og gjaldmiðillinn mndi hrynja en það var hvorki heil brú í því að halda að íbúðaverð myndi haldast í því um aldur og eilífð sem það var komið í né að krónan yrði svo sterk sem hún var um skeið um alla framtíð. Dollarinn fór í 110 krónur árið 2002, gleymum því ekki. Ég sá í Mogganum í morgun að margir bædur væru illa staddir vegna þess að þeir hefðu fjárfest mjög mikið fyrir lánsfé á undanförnum árum. Bankarnir ráðlögðu okkur þetta var sagt. Þegar ég vann sem ráðunautur hér á árum áður þá var það eitt grundvallaratriði sem maður vann alltaf út frá. Það var alltaf viðkomandi bóndi sem tók ákvörðun og var ábyrgur fyrir henni. Ráðunauturinn lagði upp forsendur, kosti og galla en bóndinn var ábyrgur fyrir ákvörðuninni og öllu því sem henni fylgdi.
Það voru sýndar myndir af tönnum ungra barna í sjónvarpinu í kvöld. Margar þeirra voru alveg hræðilegar. Glerungurinn uppétinn, tennurnar niðurbrenndar og ég veit ekki hvað. Þriggja ára gömul börn voru með ónýtar tennur. Eitt af því sem kostar mjög lítið annað en árvekni og reglusemi er að hirða tennur ungbarna. Engu að síður var ríkinu kennt um að tennur smábarna væru of víða komnar í rusl. Tennur svona ungra barna eru ekki niðurbrunnar nema til komi annað hvort taumlaus gosdrykkja og sælgætisát eða alger vanhirða. Smábörn hafa ekki þroska til að hirða tennur sínar svo viðunandi sé. Að halda tönnum ungbarna heilbrigðum er eitt af grunnskyldum foreldra. Það ætti að skylda foreldra sem standa ekki undir þeirri ábyrgð sem felst í foreldrahlutverkinu hvað þetta varðar undir sérstakt eftirlit. Ef þeir fara ekki eftir settum reglum þá ætti að beita viðurlögum. Ef tennur barna stórskemmast eða eyðileggjast veldur það viðkomandi einstakling óbætanlegum skaða fyrir lífstíð.
Í Bretlandi eru foreldrar sektaðir ef krakkarnir koma of oft of seint í skólann. Það er sagt að foreldrarnir beri ábyrgð á því að krakkarnir mæti í skólann og verði að standa undir hlutverki sínu sem foreldri hvað þetta varðar.
Í gær hitti ég mann sem á kunningja í Noregi. Sá norski hafði ýmsar sögur að segja af útrásarvíkingunum í Noregi, hegðan þeirra og framferði. Það væri ekki hægt að líkja þeim við neitt annað en ræningjaflokk sem hefði hramsað til sín grónar fjármálastofnanir á uppskrúfuðu verði fyrir lánsfé. Þær voru síðan tættar í sundur, rúðar eignum og að lokum skilið við allt í rúst. Yfirleit voru þetta ungir strákabjálfar sem fór þarna í broddi fylkingar, nýskriðnir úr skóla og ekkert nema montið og belgingurinn. Þegar spilaborgin hrundi þá var ekkert eftir nema sviðin jörð. Fyrirtækin ónýt, starfsfólkið sem hafði byggt þau upp í gegnum áratugina tvístrað um allt og viðskiptavildin horfin. Það er arfleifð svona þokkapilta sem verður landinu ekki síður dýrkeypt á næstu árum heldur en þær skuldir sem þjóðin situr uppi með. Fyrstu viðbrögð verða að vantreysta íslendingum þegar leitað er eftir viðskiptasamböndum.
Ég fór út um sex leytið í morgun og hljóp 34 km. Svo var mætt vestur við Endurmenntun HÍ um kl. 10:00 í fuglaljósmyndun með Jóhanni Óla. Við fórum vestur á Bakkatjörn, skarfaklettana í Hafnarfirði, út á Álftanes og síðan í Fossvogskirkjugarðinn. Það var gaman að fást við margæsirnar úti á Álftanesi. einnig sá ég Toppandarhóp þar sem ég komst ágætlega nálægt. Toppendur eru ljónstyggar svo það er ekki sjálfsagt að ná að mynda þær í næði. Þær voru að djöflast þarna hver í annarri í vorgalsanum. Svo fór tjaldur að æpa: "Það er maður", "Það er maður" og þá fór allt í vaskinn. Tók kvöldhlaup til að ná dagskammtinum.
laugardagur, apríl 18, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli