Ég sé að Mogginn er kominn í lið með þeim sem vilja að reglur gildi bara stundum. Þær eiga ekki að gilda þegar einhverjum finnst leiðinlegt að fara eftir þeim samkvæmt umfjöllun blaðsins. Fyrirsögnin á baksíðu þess á laugardaginn er þvi síðan til minnkunnar.
Ég er nýbúinn að fá Fjölmiðlabók Ólafs Teits Guðnasonar fyrir árið 2007. Mig undrar ekki að einhverjum svíði undan því sem kemur fram í bókinni. Ólafur fer þarna oft á ítarlegan og skemmtilegan hátt yfir hroðvirkni, mótsagnir, óvandvirkni og jafnvel hlutdrægni fjölmiðlamanna. Mér finnst að Blaðamannafélag Íslands ætti að sæma Ólaf sérstakri viðurkenningu fyrir að veita þeim aðhald með skrifum sínum. Fjölmiðlamenn eru síður en svo hafnir yfir gagnrýni í störfum sínum frekar en aðrir. Stöðu sinnar vegna ættu þeir að fagna svona skrifum sérstaklega en reyndin hefur víst orðið eitthvað önnur.
Nú í aðdraganda kosninga eru einhverjir sem vilja afnema verðtryggingu. Það finnst mörgum afar skemmtileg tilhugsun og því vekur svona framsetning áhuga einhverja að kjósa þá sem halda slíku fram. Einhverjir halda vafalaust að afnám verðtryggingar þýði að verðtryggingarhlutinn í afborgunum verðtryggðra lána detti út og eftir sitji vaxtahlutinn. Nú er það svo að það hefur verið hægt að taka óverðtryggð lán hérlendis um áratuga skeið. Það hafa hins vegar fæstir tekið slík lán vegna þess að þau eru óhagstæðari en verðtryggð lán. Vestir á óverðtryggðum lánum eru hærri en vextir og verðtrygging samanlögð á verðtryggðum lánum því það er lagt sérstakt áhættuálag á vexti óverðtryggðra lána. Því er þá ekki verðtrygging á lánum í okkar nágrannalöndum. Það er tiltölulega einfalt mál. Gjaldmiðlar okkar nágrannalanda (Evra, pund, dönsk króna, sænsk króna og norsk króna) eru svo stöðugir sem raun ber vitni vegna þess að agi í opinberum fjármálum (ríkis- og sveitarfélaga)er svo miklu miklu meiri en hérlendis. Það er ekki eytt um efni fram. Með aðhaldi í opinberum fjármálum helst gjaldmiðillinn tiltölulega stöðugur og á honum ríkir traust undir öllum venjulegum kringumstæðum. Það hefur í för með sér lága verðbólgu. En þar fylgir böggull skammrifi. Atvinnuleysi hefur verið að jafnaði mun hærra í þessum löndum en hefur veruð hér. Ef verðbólgan yrði keyrð niður í 1-2% eða niður í þau mörk sem þarf að uppfylla til að öðlast aðild að myntkerfi Evrópusambandsins þá hefði það í för með sér að atvinnuleysi væri að jafnaði miklu hærra en við höfum þurft að venjast. Mitt mat er að það myndi verða á bilinu 5-8%. Það gleymist oft að ræða það að á öllum peningum eru yfirleit tvær hliðar. Það eru engar töfralausnir til í þssu sambandi. Þetta er spurning um ákvarðanatöku og ákvörðunum geta fylgt bæði kostir og gallar. Síðan er það metið hverju sinni hvort vegur þyngra, kostir eða gallar.
Við Jói fórum suður að Kleifarvatni á föstudagskvöldið. Norðurljósaspáin var góð. Norðurljósin hafa verið afar dauf í vetur svo þetta var einn af seinni möguleikunum að sjá nokkuð. Við komum suðureftir eftir upp úr kl. 23:00 í strekking og kulda en heiðskýru veðri. Upp úr miðnætti fór að koma mistur á himininn sem er undanfari noðurljósa. Þau létu hins vegar standa á sér. Við biðum fram á kl. 1:00 og vorum farnir að tala um að fara að koma okkur heim. Þá logaði himininn í ca þrjár mínútur eins og hendi væri veifað. Svo var allt búið. Þetta var skemmtilegur túr og við fórum hinir ánægðustu heim.
Ég hef verið hálf sloj yfir páskana. Kvefdrullan hefur haldið okkur nokkuð föstum tökum en það er allt á undanhaldi nú. Ég hef ekkert hlaupið mikið og hef verið orkulaus og þungur. Hef þó skrönglast rúmlega 110 km í vikunni.
mánudagur, apríl 13, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli