Í allri umræðu er nauðsynlegt að forðast „Úlfur úlfur“ syndrómið. Ef farið er offari í umræðu um einhvern hlut þá er hætta á að það verði ekki tekið mark á viðvörunum þegar þær eiga rétt á sér. Fyrir nokkrum árum tröllreið umræðan um fuglaflensuna heiminum. Það dó fólk í Kína, það dó fólk í Tyrklandi, það dó fólk í Indónesíu og ég veit ekki hvað. Maður sá myndir frá útlandinu af mönnum klæddum geimfarabúningum að sprauta á dekk á bílum, reyndar bara á hliðina á dekkjunum en sama var, það var sprautað. Stjórnvöld hér brugðust við af mikilli hörku. Allir fuglar í húsdýragarðinum voru drepnir og settar voru sérstakar reglur um að alifuglar yrðu að vera innan dyra. Bóndi sem hefði hleypt út nokkrum haughænsnum á meðan þessi umræða gekk yfir hefði getað búist við því að lenda í steininum. Dauð álft sem fannst upp við Elliðavatn var send með hraði til Svíþjóðar og manni fannst á tímabili stemmingin vera þannig að því hefði verið tekið allt að því fagnandi ef það hefði verið staðfest ef hún hefði drepist úr einhvers konar fuglaflensu. Ísland hefði verið komið í efstu deild. Maður gat alveg eins búist við því að víkingasveitinni væri raðað á suðurströndina vopnaðri haglabyssum til að skjóta farfugla sem væru að koma til landsins. Skyndilega var eins og dytti bylur af húsi. Fuglaflensa hvarf úr fréttum og hefur ekki heyrst á hana minnst í fleiri ár. Það skal hins vegar vera alveg á hreinu að aðstæður í alifuglarækt í Kína, Víetnam, Indónesíu og Tyrklandi hafa varla breyst mikið á síðustu árum.
Nú er komin upp svínaflensa. Ég veit ekkert um hana en af fenginni reynslu þá hefur maður ákveðinn fyrirvara gagnvart þeim fréttum sem berast af framgangi veikinnar. Það vantar síðan ekki hysterískar fyrirsagnir. „Alls geta 700.000 veikst í Bretlandi“.
Í Mexíkó búa 20 milljón einstaklingar, margir þeirra við misjafnar aðstæður. Sagt er að þar hafi látist um 160 manns úr veikinni og um 1.600 veikst. Íslendingar eru 1,5% íbúa Mexíkóborgar. Þannig jafngilda 160 manns í Mexíkó 2,4 einstaklingum hér. Á sama hátt eru 1600 manns í Mexíkó sama hlutfall íbúanna og 24 eru hér.
Það gengur flensa yfir Ísland á hverju ári. Það eru hafðar ákveðnar varnaðaraðgerðir við henni svo sem bólusetning. Bólusetningin er sérstaklega miðuð að eldra fólki, fólki sem heilsufarslega veiklað og fólki í stöðum sem mega síður við því að veikjast. Engu að síður veikjast iðulega mjög margir úr inflúensu hérlendis á hverju ári. Reyndar var hún mjög væg í vetur. Ég man eftir því einn veturinn, þegar mjög skæð flensa geisaði, að dánartilkynningum í Mogganum fjölgaði mjög mikið. Manni var sagt að það hefðu margir aldraðir og sjúkir látist beint og óbeint vegna flensunnar. Það er alveg klárt mál að það þætti ekki slæm flensa hérlendis ef hægt væri að rekja dauðsföll tveggja til þriggja einstaklinga til hennar og að samtals hefðu 24 veikst.
Eins og ég sagði þá veit ég ekkert um þessa flensu en það er oft gagnlegt að setja hlutina í samhengi.
Mér fannst Gissur Sigurðsson fréttamaður góður í gærmorgun. Í morgunútvarpi Bylgjunnar barst talið að kjörklefaskítadreifaranum. Annar fastastarfsmaðurinn byrjaði að fjasa fram og til baka um málið ("hvers vegna gerir maður svona", "hver er tilgangurinn" og svo framvegis). Maður sá fyrir sér fréttaviðtal, umfjöllun í Íslandi í dag og síðan Sjálfstætt fólk. Gissur skriðtæklaði þetta: "Ég nenni ekki að tala meir um þetta helv.... rugl" Málið var dautt.
miðvikudagur, apríl 29, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli