þriðjudagur, apríl 21, 2009

Ég prufaði í gær að setja upp vefverslun á síðunni. Ég er í tengslum við náunga sem er með námskeið í hvernig á að setja upp vefverslun á netinu sem hægt er að hala inn smá aura á. Það er ekki af neinni þörf sem ég er að velta þessu fyrir mér, miklu frekar af forvitni til að prufa eitthvað nýtt. Ég eyddi í gærkvöldi svona klukkutíma til að fikra mig áfram með þetta og náði að setja upp smá dæmi. Það er undir hlekknum "Vefverslun" Þetta er náttúrulega fyrst og fremst til að prufa hvort þetta væri hægt og það er hægt.

Ég sá í morgun vitnað í Okursíðu Dr Gunna. Hann er þar að fárast yfir verðinu á blekhylkjum í prentara. Hann gerir það ekki að ástæðulausu. Verðlagningunni er þannig háttað að prentararnir eru seldir á algjöru lágmarksverði en verðið á blekhylkjunum keyrt upp úr öllu valdi til að ná hagnaðinum inn. Sá sem á prentara verður að kaupa sér hylki. Þetta er bara svona. Mannskepnan er hins vegar eins og vatn, maður finnur alltaf smugur. Ég fann í fyrra blekdunka á netinu sem voru gerðir fyrir prentarann minn. Dunkur með 100 ml kostaði svipað eins og eitt hylki með 7 ml. Þá var þrautin þyngri að koma blekinu í hylkin. Það var svolítið maus að finna út úr því í upphafi. Það er nefnilega svo að þegar hylkin tæmast þá blokkerast örgjörfaflögurnar sem eru á þeim. Því verður að fylla á hylkin áður en þau tæmast. Það gerir maður með því að bora fínt gat á þau á góðum stað þegar farið er að minnka í þeim, fylla á hylkið með fínni málmsprautu og loka gatinu með límbandi. Virkar fínt og er þrælódýrt.

Jói og félagar spiluðu í undanúrslitum 2. flokks á Akureyri í kvöld. Þeir töpuðu í framlengdum leik þar sem Akureyringar náðu að jafna á síðustu sekúndu venjulegs leiktíma. Svona er þetta, það gengur ekki alltaf allt upp en þeir hafa engu að síður staðið sig vel í vetur og betur en búist var við. Þeir eru með eitt af fjórum bestu liðuum landsins í þessum flokki og tóku fleiri stig gegn toppliðunum en botnliðunum.

Engin ummæli: