Ég keypti mér nokkrar bækur á bókamarkaðnum í Perlunni um daginn. Meðal þeirra var bókin "Á fjalli lífs og dauða" eða "Into thin air" eftir Jon Krakauer sem er bandarískur blaðamaður. Bókin fjallar um uppgöngu á Mt Everest í maí 1996 sem endaði með ósköpum. Alls dóu 12manns á Everest þetta vor með nokkurra daga millibili. Jon tók þátt í Everest förinni til að skrifa greiin um ferðir á Mt Everest fyrir bandarískt útilífsblað. Ferðin breyttist síðan í óskaplega tragedíu með fyrrgreindum afleiðingum. Meðal annars fórust tveir leiðangursstjórar sem höfðu margoft gengið á fjallið. Í bókinni er því lýst þegar þeir sem niðri eru eru í sambandi við annan leiðangursstjórann sem treysti sér ekki niður fyrir Hillaryþrepið og sofnaði þar um síðir svefninum langa. Í bókinni er því lýst vel hvernig kappið getur borið reynda menn ofurliði. Það var farið að markaðssetja ferðir á Mt Everset af kappi meir en forsjá. Eitt af því sem lögð var mikil áhersla á var að svo og svo hátt hlutfall þeirra sem voru með þessum eða hinum leiðangursstjóranum hefðu komist alla leið. Í bókinni er því lýst hvernig verið er að draga fólk hálf meðvitundarlaust upp á tindinn. Þá er eftir erfiðari hluti leiðarinnar, að komast niður. Þótt ég viti ekkert um fjallgöngur á Everest þá hefur mér skilist að eftir þetta vor sé farið eftir miklu strangari reglum um hvernær eigi að snúa við. Þá er bæði verið að hugsa um það súrefnismagn sem tiltækt er svo og að fara niður fjallið í björtu eins langt og hægt er. Bókin er mögnuð lesning og áhugaverð fyrir alla þá sem hafa gaman af fjallgöngum og vetrarferðum. Þótt aðstæður á Mt Everest séu náttúrulega extreme miðað við vetrarferðir hérlendis þá kennir hún manni það að það má aldrei vanmeta öryggið og það að fara varlega. Á tímabili voru ýmsir fjallgöngumenn nefnilega farnir að líta niður á það að ganga á Mt Everest og töluðu m.a. um jakuxaleiðina.
Það hefur orðið töluverð umræða um það á síðustu viku hvort óhjákvæmlegt sé að lækka laun og hækka skatta til að framkvæma hið óhjákvæmilega, að minnka fjárlagahallann. Ef sú aðferð verður valin að skerða kjör alls almennings á þann hátt þá mun það einfaldlega hafa þau áhrif að einkaneysla mun dragast saman. Það hefur óhjákvæmileg áhrif á afkomu þeirra sem eru í almennri þjónustu. Það getur ekki verið fyrsti valkostur að keyra kjör almennings niður. Fyrst verður að fara yfir hvaða þjónusta og starfsemi á að vera hjá opinberum aðilum. Það væri til dæmis ráð að bera saman fjárlög fyrir þetta ár og fjárlög fyrir árið 2000. Hvað hefur bæst við? Hvað hefur bæst við sem má flokka undir velmegunarútgjöld? Mér finnst til dæmis að eitt af því fyrsta sem má skera niður er fæðingarorlof karla. Þar liggja nokkrir milljarðar. Hvað sem sagt er um það þá er Ísland eina landið í heiminum sem greiðir körlum laun mánuðum saman fyrir að vera heima eftir að barn hefur bæst við í fjölskylduna. Ég var á móti þessu á meðan afkoma ríkissjóðs og almennings var betri en hún er í dag. Að halda þessu til streytu miðað við ástandið í dag er tóm fásinna. Ég verð að segja að ég skil ekki hugsunina sem liggur á bak við það að gefa í hvað varðar listamannalaun á þessum tímum. Það er bara þannig.
Það var rok í morgun. Þá er hólminn í Elliðaárdalnum góður. Ég fór tólf hringi í honum og síðan smá útúrdúr. Náði 34 km. Vikan fór yfir 150 km.
sunnudagur, apríl 19, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli