fimmtudagur, apríl 23, 2009

Kaupmáttur launa hjá öllum almenningi hefur lækkað verulega á síðustu 12 mánuðum og í mörgum tilvikum hafa þau leinnig lækkað í krónutölu. Nefna má eftirfarandi atriði sem hafa leitt þetta af sér:
1. Verðbólgan upp á nær 20% hefur rýrt laun.
2. Útsvarsprósenta hækkaði í vel flestum sveitarfélögum (ekki í Reykjavík). Meðalútsvar hækkaði úr 12,97% í 13,11%.
3. Tekjuskattur hækkaði með nýjum fjárlögum. Persónuafsláttur hækkaði einnig þannig að áhrif hækkaðs skatts koma ekki fram fyrr en við ca 300.000 kr.
4. Minni möguleikar eru hjá mörgum til að vinna yfirvinnu.
5. Víða hafa laun beinlínis verið lækkuð, föst yfirvinna skorin niður eða laun á annan hátt lækkuð.
6. Ef fólk fer erlendis hefur kaupmáttur krónunnar rýrnað mun meir en hér heima.

Þannig hefur kaupmáttur launa hjá öllum almenningi lækkað verulega á liðnum misserum. Því er eðlilegt að leita fyrst annarra leiða til að stoppa upp í gatið á fjárlögum en að lækka laun hjá venjulegum launþegum. Ríkið greiðir ca 115 milljarða í laun á ári og sveitarfélögin rúma 80 ma. kr.

Ég skoðaði í dag hvernig fjárlög ríkisins hafa þróast á milli áranna 2004 og 2009. Þegar niðurstaða ríkisreiknings frá árinu 2004 hefur verið færð upp til verðlags í desember 2008 þá eru tekjur ríkisins 421 ma. kr og gjöldin 399 ma. kr. Verðlag hefur hækkað um nær 40% frá árinu 2004. Fjárlögin fyrir yfirstandandi ár gera ráð fyrir tekjum upp á 402 ma. kr og gjöld upp á 468 ma.kr. Þá er búið að draga vaxtagreiðslur frá í báðum tilvikum. Þær voru 14,1 ma. kr árið 2004 og 87 ma.kr á árinu 2009. Aukning ríkisútgjalda á þessum fimm árum er því 69,3 ma. kr eða 17,4%. Við höfðum það ágætt á árinu 2004. Síðan þá hafa útgjöld ríkisins aukist vegna velmegunarútgjalda að miklu leyti. Það er auðvelt að finna þá liði sem hafa bólgnað mest úr einfaldlega með því að bera saman rekstrarliði einstakra ráðuneyta milli ára og sjá hvað hefur bæst við á hverjum stað. Í flestum tilvikum má kútta það lóðbeint af án þess að þess sjái stað í samfélaginu. Vitaskuld mun þetta þýða það að einhverjir missi vinnuna. Það er óhjákvæmilegt þegar svo mikill niðurskurður er fyrir hendi sem raun ber vitni. Annað er óraunsætt.

Þegar útgjöld sveitarfélaganna eru borin saman á álíka hátt á sama tímabili þá kemur í ljós að þau hafa aukist um rúm 20% eða 26,5 ma. kr. að raungildi.

Þessi litla samantekt skýrir vonandi svolítið hve vandinn er mikill og hann er óleysanlegur nema með sársaukafullum aðgerðum. Því miður hefur umræðan í umræðuþáttum liðinna daga ósköp lítið komið nálægt kjarna málsins hvað þetta varðar. Vitaskuld þarf einnig að leita allra leiða til að auka atvinnu í landinu. Það er grundvallaratriði. Þar held ég að nærtækast sé að auka þorskafla. Hvað 100.000 tonn til viðbótar skila miklu í ríkissjóð hef ég ekki reiknað út en það ætti að vera tiltölulega auðvelst þegar grunnstærðir eru þekktar. Enda þótt það sé nöturlegt að hægt sé að fara aðmarkaðssetja landið með þvi hvað allt sé ódýrt hér fyrir útlendinga þá skapar það viss sóknarfæri. Þessi staða er hins vegar svipuð og var í ríkjum Austur evrópu til skamms tíma. Kaupmátturinn var ekki hár í þeim löndum og verður það ekki heldur hérlendis ef fer fram sem horfir.

Víkingar ætla að hleypa nýju hlaupi af stokkunum á morgun. Það er gert í minningu þeirra sem stofnuðu félagið fyrir 101 ári síðan. Hlaupið verður frá horni Túngötu og Garðastrætis þar sem félagið var stofnað og austur að Víkinni. Það gera um 8.5 km. Hlaupið hefst kl. 13.30 og kostar ekkert að hlaupa með.

Engin ummæli: