laugardagur, apríl 25, 2009

Vormaraþondagurinn rann upp bjartur, fagur, lygn og frekar hlýr. Frábært veður til hlaupa í aprílmánuði. Félagarnir höfðu tekið daginn snemma inni í Elliðaárdal, reist tjald og gert allt klárt svo aðstaða væri eins og best var á kosið. Það er alltaf gaman að hitta félagana, þarna var vel mætt og dagurinn lofaði góðu. Formaður og aðalritari hvöttu menn til dáða og svo skaut Stebbi af haglabyssu. Ég ætlaði bara að taka þetta hlaup sem gott æfingahlaup. Ég hafði ekki á mér hlaupaúr og leit aldrei á armbandsúrið. Því mátti segja að nákvæmasti tímamælirinn í hlaupi þessa dags var dagatal. Markmiðið var að finna hraða sem skrokknum liði vel á og rúlla þannig í gegn. Það er nefnilega hlaupadagur á morgun og prógrammið fer ekki að slakna fyrr en um 10. maí. Ég hitti Starra Heiðmarsson fljótlega í hlaupinu og við héldum sjó saman eftir það. Spjölluðum margt og héldum góðu róli. Aðstæður voru góðar og bara smá gola vestur við snúninginn þar sem alltaf blæs. Starri sagði mér meðal annars maður skrifar nafnið á fuglinum Stara með einu erri en ekki tveimur eins og ég hafði gert á blogginu. Þessi fugl heitir Starling upp á ensku. Það er líklega dregið af því að við sérstök birtuskilyrði þá glampar á hann eins og jólatré með ljósum eða eins og stjörnubjartur himinn sé. Ef þetta er rétt þá hafa nafnameistarar verið í ambögustemmingu þann daginn sem fuglinum var gefið nafnið Stari upp á íslensku. Hann ætti auðvitað að heita Stjarni eða Stirnir. Að klæma enska nafninu beint yfir á íslensku og kalla hann Stara er svona og svona. Allavega er nafnið með einu erri.

Á hálfu maraþoni vorum við á 1.42 sem var betra en undanfarin ár. Seinni hringurinn rann í gegn á svipuðu róli. Starri fékk smá í magann á síðasta leggnum og dróst aðeins aftur úr við brúna í Fossvogsbotninum. Ég hélt áfram á sama hraða og kláraði maraþonið á rúmum 3.22 sem er minn besti tími í um fimm ár. Seinni helmingurinn var því hraðari en sá fyrri sem er nýtt. Ég man ekki eftir því áður. Fæturnir voru slakir og fínir og hvergi eymsli eða stirðleiki. Ég átti því töluvert inni ef ég hefði stílað inn á að taka allt úr sem fyrir hendi er. Puðið í vetur hefur því skilað sér þokkalega en ég hef þó ekki verið að leggja sértaka alúð við hraðaæfingar. Einnig skiptir máli að vera léttari en ég var hér áður. Það munar um allt. Úrslitin eru ekki komin enn á netið svo ég veit ekki röðina.

Það var svolítið skrítin tilfinnig að kjósa í dag. Vanalega fylgir því smá sérstök frelsistilfinning að taka þátt í kosningum. Kosningarétturinn er hluti af því að búa í lýðræðisríki. Hann er ekki sjálfgefinn. Nú var maður næstum því dapur. Ég hef horft af athygli á alla umræðuþætti í sjónvarpi á undanförnum dögum sem ég hef getað. Það hefur ekki aukið mér bjartsýni.

Leikurinn milli Man.Udt og Tottenham var svakalegur. Tottarnir voru verðskuldað yfir í hálfleik. Ferguson hefur líklega sett stóra blásarann í gang inni í klefanum í hálfleik því það var gjörbreytt United lið sem kom út á völlinn í seinni hálfleik. Fimm mörk voru uppskeran. Svona spila bara meistarar.

Engin ummæli: