föstudagur, apríl 03, 2009

Við héldum peppupp fund í frjálsíþróttadeild Ármanns í gærkvöldi. Það er verið að hnýta ýmsa hnúta sem hafa verið heldur laushnýttir. Eitt af því er að horfa til framtíðar og setja sér markmið á ýmsan hátt. Það kom góður hópur fólks til fundar og ræddi málin. Þórólfur Árnason fyrrv. borgarstjóri hélt utan um hópinn og stjórnaði því sem stjórna þurfti. Þetta er eins og víða þegar verið er að byrja í svona félagsskap, maður kynnist fyrst andlitunum og svo pikkar maður upp hvað hver og einn heitir. Það tekur tíma og krafta að byggja upp starf í svona deildu. Ég fylltist mikilli bjartsýni í gær þegar mér va rsagt hvernig málin höfðu gegnið fyrir sig hjá fimleikadeildinni. Fyrir fimm til tíu árum var henni haldið gangandi af þjálfurunum. Ekkert fólk fékkst til starfa í stjórnarsetu. Síðan urðu kaflaskil. Nú eru um 1000 einstaklingar sem æfa fimleika hjá deildinni. Fimleikadeild Ármanns er ein og sér fjölmennari en ýmis íþróttafélög í Reykjavík. Þetta sýnir hverju áhugasamt og kraftmikið fólk getur áorkað.

Við Stefán Thordarson töluðum saman í kvöld. Hann kenndi mér að setja upp skráningarkerfið fyrir 100 km hlaupið. Skráningarformið verður sett upp hér og þar svo áhugasamir getir stokkið til. Einnig kom frétt um hlaupið á norska ultravefnum. Stefán er alger snillingur sem hefur gert mikið fyrir íslenskt hlaupasamfélag með hinum góða vef, hlaup.com.

Forseti ultramanna er nú að teygja úr sér í eyðimörkinni í Marákkó. Það var hvíldardagur i dag. Eftir þrjá daga er hann í 128 sæti af um 740 sem eru enn inni í hlaupinu. Hann hefur lagt dagana þrjá að baki á 23.klst 27 mín. Fremstu menn eru rétt um 10 klst á undan honum en þeir öftustu eru um einum sólarhring og sex klst. á eftir honum. Mér skilst að einungis sé eftir eitt maraþon. Hlaupið verður sem sagt stytt um einn dag í hvorn enda. Það er skítt að hafa ekki möguleika á að spreyta sig við fullvaxið MdS neftir a hafa æft lengi og lagt í mikinn kostnað. Hlaup Ágústar er ekki íþróttafrétt að mati fjölmiðla. Á hinn bóginn eru kvöld eftir kvöld birtar fréttir af golfara sem er að spila erlendis og gengur bæði upp og niður. Það vantar ekki að þá eru allir á tánum. Ég tala nú ekki um ef einhver sem er á mála hjá erlendu liði hefur setið á bekknum heilan handboltaleik. Frá því er skilmerkilega sagt ef möguleiki er á.

Í undirbúningi er að setja Víðavangshlaup ÍR, vorhlaup Fjölnis, Miðnæturhlaupið, Ármannshlaupið (sem verður endurvakið í sumar) og Reykjavíkurmaraþonið í samhangandi seríu sem verður auglýst sérstaklega upp. Það gefur sérstaka möguleika á sérstökum verðlaunum að taka þátt í sem flestum þessara hlaupa. Þau verða með um mánaðarmillibili frá apríl fram í ágúst. Þetta er breyting til batnaðar.

Það er strax betra að hlaupa eftir að hlýnaði og svellið fór af götunum. Það verður hlýtt einhverja daga áfram. Þetta fer nú að styttast. Annars á maður ekki að kvarta, það er engin ástæða til þess.

Engin ummæli: