Við bjuggum í fimm ár norður á Raufarhöfn á síðasta áratug. Það voru góð ár, maður kynntist góðu fólki þar norður frá, nýjum landshluta og þeirri varnarbaráttu sem fólkið í litlum sjávarþorpum stendur í fyrir tilveru sinni. Það eru ekki allir sammála þvi að það sé einhvers virði að búseta haldist í þessum samfélögum. Norðausturhornið hefur átt í erfiðleikum á margan hátt. Fólki hefur fækkað, rækjuveiði í Öxarfirðinum hefur hrunið, bújarðir eru aflagðar, aflaheimildir verið seldar frá stöðunum og þannig mætti áfram telja. Á Raufarhöfn bjuggu tæp 400 manns fyrir 10 árum síðan. Nú búa þar um 250 manns. Þetta svæði hefur hins vegar marga kosti. Mikil náttúrufegurð, gjöful veiðivötn, mikið fuglalíf, laxveiðiár og fleira sem skilar mismiklu í pyngjuna. Eins og Simon Spies sagði hér í denn; "Peningar eru ekki allt, þeir eru svona 80%". Menn lifa ekki af loftinu einu. Það hefur verið vandséð hvað gæti gerst sem myndi snúa þeirri þróun við sem heur verið allsráðandi á síðustu árum. Landbúnaður og fiskveiðar eru takmarkaðar, ferðamannatíminn er stuttur. Svæðið er langt frá þéttbýlisstöðum suðvesturhornsins. Vegasamgöngur voru lengi flöskuháls fyrir þetta landssvæði. Allur almeninngur er farinn að veigra sér við að fara á malarvegi með góða bíla. Það er bara þannig. Það var mikil framför þegar Tjörnesið var lagt bundnu slitlagi. Það var gæfa sveitarstjórna frá Kelduhverfi til Vopnafjarðar á seinni hluta tíunda áratugarins að sameinast um að setja Tjörnesið í fyrstu áhersluröð. Bundið slitlag á Tjörnesið gagnaðist öllum, Því skyldi það tekið fyrst. Það gekk eftir og nú er komið bundið slitlag langleiðina austur á Kópasker. Næsta skref var að leggja almennilegan veg yfir Öxarfjarðarheiði úr Öxarfirðinum til Þórshafnar og legg norður til Raufarhafnar. Þetta þótti hálfgerð útópía fyrir tíu árum síðan en nú eru framkvæmdir hafnar. Mig minnir að síðasti fundurinns em ég sat fyrir hönd sveitarfélagsins fyrir norðan hafi verið um þetta mál þar sem reynt var að færa það í öruggan farveg. Þetta er allt gott og blessað og mikil framför. Engu að síður vantar fleiri atvinnutækifæri fyrir svæðið svo íbúarnir geti náð vopnum sínum.
Spennandi fréttir hafa borist á síðustu misserum um möguleika á olíu á hinu svokallaða Drekasvæði sem liggur norðaustur af Norðausturlandi. Það er ljóst að ef settir verða fjármunir í rannsóknir á þessu svæði og markvissa leit að olíu þá mun það skipta sköpum fyrir Norðaustuhornið. Ný framtíðarsýn, nýir möguleikar. Allt mun breytast til betri vegar. Þessi umræða hefur vakið ákveðnar vonir hjá íbúum svæðisins um aukin umsvif og meiri möguleika.
Ábyrgð stjórnvalda er mikilí málum eins og þessum. Þeirra hlutverk er aðallega tvennskonar. Í fyrsta lagi að fylgja málinu eftir af fullum þunga með hagsmuni íbúa landsins fyrir augum. Í öðru lagi að tryggja það að farið verði eftir eðlilegum reglum er varða viðskiptalega - og umhverfislega hagsmuni.
Það vakti því furðu mína þegar ég heyrði frænku mína umhverfisráðherrann lýsa því yfir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrradag að hún væri alfarið á móti olíuleit á Drekasvæðinu. Það voru kaldar kveðjur til íbúa norðausturhornsins sem hafa eygt möguleika á nýjum möguleikum fyrir svæðið og íbúa þess sem hefur átt undir högg að sækja undanfarna áratugi.
Víkingshlaupið var haldið í dag. Það er minningarhlaup um þá frumherja sem stofnuðu Knattspyrnufélagið Víking. Þeir voru ekki gamlir eða á aldrinum 12-15 ára. Fyrsti formaður Víkings, Axel Axelsson, var 12 ára gamall þegar hann var munstraður í embættið. Það má segja að þeir hafi ávaxtað sitt pund ágætlega. Það voru um 40 manns sem mættu að horni Túngötu og garðastrætis, yngri og eldri Víkingar. Ég skokkaði vestur eftir og hljóp svo til baka. Tempóið var ágætt eða 4.15. Ég varð annar en Gúi, léttstígur strákur um tvítugt, vann hlaupið. Hann hefur hlaupið 10 km niður á 39 mínútur svo það var engin skömm að tapa fyrir honum. Þetta var ágæt frumraun hjá Víkingum og er komin til að vera. Í markinu gengu áskoranir á víxl milli gróinna Víkinga að vera með á næsta ári eða jafnvel ekki fyrr en á þar næsta ári. Allt hefur sinn aðdraganda.
Víðavangshlaup ÍR var einnig í dag og fengu þeir metþátttöku eða yfir 400 manns. Það er fín þátttaka sem sýnir hvað er að gerast í almenningshlaupum í landinu. Mikil gerjun og sívaxandi fjöldi sem hleypur sér til ánægju og uppbyggingar bæði líkamlega og andlega. Það voru einhverjir smá stressaðir yfir því að Víkingar settu á hlaup ofan í Víðavangshlaup ÍR. Ég held að það þurfi enginn að strssa sig yfir þvi heldur eiga menn að vera ánægðir með þá þróun sem er að gerast í þessum málum. Víkingar eru að byggja upp áhuga fyrir almenningshlaupum innan félagsins og það er fínt að tengja svona við hlaup við afmælisdag félagsins og sumarhátíðina sem haldin er á sumardaginn fyrsta. Það er nóg pláss fyrir áhugasama í þessum geira.
fimmtudagur, apríl 23, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli