Í dag, föstudag, var útskriftardagur Sveins. Reyndar luku María og Jói sínum prófum einnig í dag en það féll nokkuð í skuggann fyrir útskrift þess elsta. Morguninn fór í reddingar og akstur milli staða að ná í eitt og annað sem vantaði. Síðan var mætt í Háskólabíó fyrir kl 14.00. Athöfnin stóð í tvo og hálfa klst. og var afar fín. 160 nemendur útskrifuðust. Þeir strákarnir sem hafa haldið sjó saman gengum árin, Höskuldur, Jommi, Sveinn, Kári og Bessi stóðu sig allir mjög vel og luku prófi með fínum einkunnum. Höskuldur setti reyndar met í einkunnagjöf hjá MR með sína 9.9 í aðaleinkunn. Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt.
Þrír fulltrúar eldri nemenda fluttu góð og stutt ávörp og af þeim er Oddný Thorsteinsson eftirminnilegust, 85 ára gömul. Hún útskrifaðist vorið 1940, rétt eftir hernámið. Hún sagði meðal annars frá því að þýskukennarinn hafði verið handtekinn eins og aðrir sem höfðu einhver tengsl við Þýskaland. Pálmi Hannesson rektor fékk hann lausan úr fangelsi tímabundið til að getað lokið skólanum en varð að skila honum að prófum loknum.
Veðrið var afar gott og fín stemming í háskólaskeifunni þar sem útskriftarmyndin var tekin. Síðan hélt hver til síns heima þar sem útskriftarveislurnar biðu. Fjölskyldan og vinir hittust hér í Rauðagerðinu og áttu góða stund saman fram eftir kvöldi. Síðan fór nýstúdentinn í fagnað meðal félaganna, glaður með góðan dag. Af skiljanlegum ástæðum var ekkert hlaupið í dag.
laugardagur, maí 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli