Tók langan túr í kvöld. Fór Poweratehringinn með Hattinum, síðan út í Nauthólsvík og til baka að Elliðaárdalnum og að lokum út Bústaðaveg, niður Grensásveg og til baka Sogaveginn. Þetta gera um 25 km. Var léttur og formið fínt. Veðri gott, hlýtt og létt gola.
Var rétt búinn að gleyma því að í gær, þann 11. maí, er lokadagurinn. Þá lauk formlegri vetrarvertíð meðan vertíðir voru og hétu. Báturinn var þá skveraður upp og oft skipt yfir á önnur veiðarfæri. Sjómenn héldu mikinn gleðskap og oft var lokaball þessa helgi. Það eru nú 25 ár síðan ég var síðast á sjó frá Patró. Þá var ég á Jóni Þórðarsyni og var farið í siglingu síðasta túrinn til Grimsby. Það voru eftirminnilegir einstaklingar þarna um borð. Fæsta hef ég séð síðan þá. Einhverjir eru dánir. Það var nokkur upplifun að fara í siglingu en þessi túr var eina skiptið sem mér hlotnaðist sú upphefð. Þá kynntist maður meðal annars starfsumhverfi gleðikvenna í hafnarhverfum breskra hafnarborga. Þær héldu t.d. nákvæma skrá yfir væntanleg skip. Þegar nýtt skip var væntanlegt var farið að dorga. Jón Þórðarson var skráður á þennan lista eins og önnur skip. Um haustið 1980 hélt ég til Svíþjóðar í nám og er það önnur saga en þar urðu ákveðin kaflaskil í lífinu. Síðan hef ég ekki búið fyrir vestan nema í fríum.
föstudagur, maí 13, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli