Skokkaði niður í Laugardagslaug á tíunda tímanum í afar góðu veðri, sól, logni og hlýju. Ég kappdúðaði mig og fór meðal annars í Laugavegspeysuna frá því í fyrra. Með því að klæða sig vel á hlýjum dögum nær maður að ræsa kælingar- og frárennsliskerfið sem ekki mun af veita. Það voru allir aðrir léttklæddir á stuttbuxum og hlýrabol í góðviðrinu. Við hlupum saman inn í Elliðaárdal en ég fór síðan Poweratehringinn, tvo hringi í hólmanum og síðan Grensásslaufuna. Svona 25 - 26 km samtals. Maður svitnaði reiðinnar býsn og ég þurfti að fylla á tankinn uppi í Árbæjarlaug.
Dagurinn fór síðan í rólegheit, ég dundaði í garðinum og við lukum við að skila stólum og fleiru sem fengið var að láni í veisluna.
Menntamál eru manni vitanlega dálítið hugleikin þessa dagana. Þegar maður sér þann föngulega hóp sem útskrifaðist úr MR á föstudaginn og myndir af öðrum álíka hópum í blöðunum, þá á maður erfitt með að átta sig á þeim veruleika sem ýmsir stjórnmálamenn básúna í umræðum og blaðagreinum að menntakerfið sé í rúst og það sé vanhæft að sinna þörfum ungmenna landsins. Það er að mínu mati algerlega undir þeim ungmennum sjálfum komið sem eru að útskrifast úr menntaskólum í vor hvernig þau nýta hæfileika sína. Þeim standa allir vegir opnir til framhaldsnáms, strákum jafnt sem stúlkum, námslánakerfið gerir þeim kleyft að læra óháð efnahag aðstandenda og námsframboð er gríðarlegt. Hvar er hið ónýta menntakerfi sem ýmsir eru að fimbulfanba um? Ég kem ekki auga á það en sé fyrir mér afar gott menntakerfi að flestu leyti.
Mín skoðun er að vandamálin séu ekki síður og miklu frekar inni á heimilunum. Ég þekki fjölmörg dæmi þess að foreldrar sem hafa sjálfir dottið út úr skóla hafa innprentað hjá börnunum forakt á skólagöngu. Aðstoð er síðan enga að fá heima fyrir vegna þess að foreldrarnir hafa enga menntun. Það eru þessir krakkar sem eru hin raunverulegu fórnarlömd vegna þess að þau fá aldrei (eða sjaldan) tækifæri til að mennta sig, enda þótt þau séu ekki síður greind en þeir sem fara í langskólanám. Þau ala síðan sín börn upp á álíka hátt hvað viðhorf til skólans varðar, þannig að þarna eru ákveðnir hópar í vítahring sem erfitt er að losna út úr.
Það virðist á stundum vera nóg hjá ýmsum að hrópa eitthvað út í vindinn, þá eru fjölmiðlar komnir og endurkasta öllu á forsíður gagnrýnislaust. Mér sýnist þannig komið fyrir rektornum á Bifröst. Hann sló því fram í skólaslitaræðu að kvennemendur skólans hefðu 50% lægri laun en strákarnir að námi loknu og lýsti sök á hendur atvinnulífinu. Það kom ekki fram að það væri fyrir sömu vinnu, en það væri náttúrulega fyrsta spurningin sem ég myndi spyrja, væri ég blaðamaður. Það liggur ljóst fyrir og hefur alltaf gert að það eru greidd mismunandi laun fyrir mismunandi vinnu. Getur verið að kvennemendur sæki í annarskonar vinnu en strákarnir að námi loknu á Bifröst? Hvers vegna er það? Getur kannski verið að skólinn hafi vanrækt að byggja upp hjá kvennemendum nægjanlegt sjálfstraust til að takast á við samskonar viðfangsefni og skrákarnir að námi loknu? Allt um það, mér finnst þetta útspil rektorsins vekja fleiri spurningar en svör. Svoana fullyrðingar eru ekki fallnar til að vekja upplýsandi umræðu heldur miklu frekar má flokka þetta undir froðusnakk. Getur verið að rektorinn telji nauðsynlegt að tala í slíkum fyrirsögum vegna þess að hann hefur verið orðaður við framboð til alþingis í næstu kosningum. Þá er vitaskuld eins gott að byrja að hrópa strax.
mánudagur, maí 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli