Esjan í kvöld x 3. Síðasti dagur stórhelgarinnar. Lagði af stað á Esjuna í kvöld rúmlega 20.30 og tók þrjá túra upp að Steini. Tók mynd í hvert sinn uppi við Stein til að sýna að ég hefði ekki svindlað. Fór frekar rólega en hélt þó góðum dampi. Kraftgekk upp og skokkaði niður. Hélt góðum og jöfnum dampi allan tímann og var aðeins nokkrum mínútum lengur í síðasta túrnum en þeim fyrsta, fyrst og fremst vegna þes að ég fór varlega þar sem farið var að skyggja og ég vildi síður fara á hausinn í grjótið í síðustu ferðinni. Var búinn að þessu um hálf eitt.
Þetta er svolítið stór dagur. Nú er álagsæfingaprógramminu lokið og hefur allt gengið eftir sem ætlað var. Ég hafði sett mér fyrir sex mánuðum að taka þessa helgi sem endahnykkinn í æfingaplaninu. Það gekk allt eftir sem ekki er sjálfgefið fyrirfram. Síðustu þrjá daga hef ég hlaupið og kraftgengið í um 12 klst sem gerir um 120 km vegalangd á sléttu (svona sirka). Esjan x 3 og Skálafellið eru nær 3ja km hækkun eða um 10.000 fet.
Það má segja að það hafi allt gengið eftir sem ég setti mér í upphafi. Ég er búinn að fara rúmlega 1900 km frá áramótum og mun klára 2000 km fyrir mánaðamót eins og ég ætlaði mér. Langhlaup hafa verið eftir áætlun. Eina langa hlaupið sem ég hafði hugsað mér að fara en fór ekki var upp í Bláfjöll úr Hafnarfirðinum. Það kom bara annað í staðinn (hlaup upp í Kollafjörð, á Esjuna og til baka). Það er erfitt að segja til um hve miklu þetta hefur skilað, það verður bara að koma í ljós. Ég er þó mjög ánægður yfir t.d. hve létt það vara að fara þrisvar á Esjuna í kvöld, þrátt fyrir löng hlaup í gær og fyrradag. Ég þakka það að hluta til recoverinu frá Torfa sem ég er farinn að setja í mig í vaxandi mæli eftir löng hlaup. Ég fann t.d. ekki fyrir stirðleika í fótunum, hvorki að framan eða að aftan.
Nú verður allt heldur á léttari nótunum næstu viokurnar. Tek kannski nokkra rúnta um næstu helgi en annars verður bara verið á rólegum nótum og síðan farið yfir í algera hvíld. Skrítin tilfinning.
Aðeins að lokum um Eurovision. Sá viðtal við tvo helstu þáttakendurna í Kastljósi í kvöld. Það var svakalegt. Annað hvort er fólkið að skíta á sig úr stressi og er að reyna að breiða yfir það með mannalátum eða það er svona hlandvitlaust og monthanar af æðstu gráðu. Í fyrstu setningu sem stelpan sagði fór hún að skíta út Moldavíu lagið með ömmunni. Hvaða efni hafði hún á því? Moldavar fengu miklu, miklu fleiri atkvæði en hún og ekki bara frá nágrönnum sínum. Þau sýndu bara flottan performans. Að þeirra sögn var allt æðislegt hjá þeim, lagið, söngurinn, fötin, Selma sýndi ekki brjóstin og ég veit ekki hvað. Það voru bara þeir sem greiddu atkvæði sem voru vitlausir. Til að bæta gráu ofan á svart var búið að skrumskæla lagið yfir í einhvern Ali Baba stíl, líklega til að sýna hvað austurevrópsk tónlist væri hallærisleg. Það er ekki oft sem manni finnst í lagi að einhver nái ekki settu marki, en mér finnst það um þetta lið. Ekki svo orð meir um Eurovision þetta árið.
þriðjudagur, maí 24, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli