fimmtudagur, maí 19, 2005

Nú var ekkert hlaupið í dag þrátt fyrir gott veður. Hvíld fram á laugardag. Heyrði í félaga Halldóri í dag. Hann er kominn til Odense og er að undirbúa sig fyrir laugardaginn. Hann leggur af stað kl. 6.00 að dönskum tíma og verður kominn í mark ca 10 klst síðar (+/- 1 klst) ef allt gengur eins og ætlað er. Styrktarkveðjur fylgja honum.

Lá uppí sófa og horfði á undankeppni Eurovision í kvöld. Sofnaði yfir Andorra og vaknaði aftur við Pólland. Sá þá að félagi Gísli má prísa sig sælan að vera ekki pólskur ef ákveðin afastelpa hefði gert það að kröfu að afinn hefði lært danssporin við lag heimalandsins. Þá voru Selmusporin auðveldari. Mér fundust mörg laganna óvenju skemmtileg. Austur evrópsku þjóðirnar voru margar með sérstök og skemmtileg lög sem byggðu á músíkhefðum heimalandanna. Rúmenía, Ungverjaland og Króatía koma mér í hug í því sambandi. Trommur og tunnur voru mikið notaðar fyrir taktslátt. Amman með trommuna var fín. Austurríki líflegt. Einnig norsku rokkararnir. Kannski er tími Noregs runninn upp á nýjan leik eftir Bobbysocks. Finnski (norski) whyarinn var svona svipaður og Jónsi í fyrra, átti ekkert erindi í þetta dæmi. Hann var víst svona nokkursskonar Björgvin, reyndi og reyndi þar til hann datt inn í tíundu tilraun. Gott hjá ungverjunum sem voru með típiskt riverdanslag. Þegar írar fóru eitthvað að nudda þá sögðu þeir að þetta væri æfaforn unverskur dans. Á sama hátt hefði Selmuliðið átt að segja að hennar dansatriði væri dæmigerður íslenskur hjásetudans sem hefði verið iðkaður upp um allar heiðar hér áður þegar börn sátu yfir kindum á sumrin. Það var síðan svolítið fyndið að fylgjast með Lilla Klifurmús og sístækkandi gordonshnút í maganum á honum þegar dýpkaði á Selmulaginu. Síðan rann ískaldur veruleikinn upp. Falleinkunn.

Mér hefur fundist umfjöllunin um þetta minna svolítið á Gleðibankann sáluga. Ég bjó þá úti í Danmörku og þar var varla minnst á Evróvision en hér var þjóðfélagið á öðrum endanum. Það þótti varla formsatriði að halda keppnina, íslendingar voru hvort sem er búnir að vinna. Lagið var svo frábært. Það voru meir að segja sérsmíðaðir silfurhnappar í ljóta jakkanum hans Pálma. Síðan fór það eins og það fór. Núna voru menn einnig því sem næst búnir að vinna fyrirfram. Liðið sem hefur atvinnu af því að klappa hvert öðru á bakið var búið að sjá þetta allt út fyrirfram. Lagið var sigurlag. Fréttir að austan voru ekkert nema spár um 1. sætið. Svo kom bara á daginn að það voru margir aðrir miklu betri. Hver skyldi eiginlega hafa hannað fötin á stelpugreyið núna? Það var eins og hún hefði vaknað of seint og hlaupið upp á sviðið í náttfötunum. Þó var lán að hún sleppti tuskunni sem hún átti að hafa á höfðinu. Ég var aldrei hrifinn af laginu. Það er svona dæmigert karakterlaust klisjupopp sem gekk kannski hér áður en dugar sem betur fer ekki lengur. Allt í lagi að fá stundum á kjaftinn, sérstaklega ef maður gefur sér höggið sjálfur. Kannski verður næsti keppandi munstraður upp í þjóðbúningnum með olíutunnu.

Engin ummæli: