Frídagur í dag, föstudag. Stefni að löngum hlaupum á laugardag og sunnudag. Veðurútlit heldur gott.
Heyrði í dag viðtal við Harald Ólafson en hann er að leggja á Hvannadalshnjúk með 100 manns. Hann var m.a. að fara yfir þær öryggisráðstafanir sem þarf að viðhafa í ferðum sem þessum. Ég hef tvisvar gengið á Hvannadalshnjúk, árið 1998 og 2003 og í bæði skiptin munaði einungis hársbreidd að stórslys yrði. Því er það reynsla mín að það verði aldrei of varlega farið í þessari ferð. Það er ekki allt sem sýnist.
Í fyrri ferðinni setti kóf á okkur þegar við vorum komin upp undir sjálfan hnjúkinn og sneri þá hluti hópsins frá en hin gengu alla leið upp. Þegar við lögðum af stað niður vorum við í tveimur línum, samtals 15 manns. Fararstjórinn var fyrstur í fyrri línunni en ég leiddi þá seinni. Hermann fararstjóri ætlaði að fara niður sunnan megin við uppgönguna en við komum hinummegin upp. Hann þurfti að leita fyrir sér að niðurgöngunni sökum dimmviðris og síðan sé ég allt í einu að hann hverfur og svo hver af öðrum. Síðustu mennirnir í línunni, franskir járnbrautarstarfsmenn, náðu að henda sér á ísaxirnar og forða því að allir hröpuðu niður. Þegar Hermann kom fram á brúnina skreið undan honum fleki svo hann flaug fram af ca 4 metra háum hjalla. Næsti maður í línunni stöðvaðist fyrir miðjum hjallanum en sá þriðji á brúninni. Ef allir hefðu farið fram af hefði örugglega orðið verulegt slys við að 6 - 7 manns hefðu lent í einni kös úr svona mikilli hæð. Sökum þess að Hermann hafði kennt okkur daginn áður hvernig ætti að nota ísaxirnar við aðstæður eins og þessar vissu strákarnir hvernig átti að bregðast við og gerðu það eftir kúnstarinnar reglum. Það slasaðist því enginn en mönnum var brugðið.
Fyrir tveimur árum ætluðum við nokkur hópur hlaupafólks ásamt kunningjum upp um hvítasunnuna sem fyrr en við þurftum að snúa við í um 1900 metra hæð sökum storms, dimmviðris og kulda. Frostið var örugglega um 15 stig og kælingin mikil. Við leituðum í skjól undir Dyrhömrum á leiðinni niður til að fá okkur að drekka. Þá henti það að steinn kom á fótinn á Úlfari hennar Bryndísar. Það gerðist svo snöggt að hann veitti því ekki mikla athygli en þegar niður var komið áttaði hann sig á því að blóð lagaði úr fætinum. Þarna skall því hurð nærri hælum því hefði steinninn lent á miðjum fætinum eða á annan stað á líkamanum hefði hann leitt af sér mikla áverka eða jafnvel það sem verra er. Í þessari ferð lentu einnig einhverjir í því að falla í sprungu en voru sem betur fer í línu.
Þetta sýnir að á þessari leið er þörf á mikilli aðgæslu og ekki gerandi nema fyrir alvana menn að vera leiðsögumenn í svona ferð. Á sama hátt eiga fararstjórar að snúa illa búnum mönnum frá því það getur verið alvörumál að lenda í því að vera með uppgefna menn hátt uppi á jöklinum sem ofkælast vegna slaklegs búnaðar. Við sáum einnig í fyrri ferðinni að lofthræðsla getur orðið að verulegu vandamáli.
Á hinn bóginn er það vissulega fyrirhafnarinnar virði að ganga upp og leggja mikið erfiði á sig ef menn ná að standa á hnjúknum í bjartviðri. Þá gleymist allt streðið.
laugardagur, maí 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli