Kerfið var eitthvað bilað í gærkvöldi (þid) þannig að það fór ekkert inn. Tók 16 km hring í gærkvöldi og var kominn heim rétt undir miðnætti. Viðurkenni alveg að ég var svolítið latur að fara út um 22.30 en svona er þetta, þegar maður hefur sett sér ákveðin markmið þarf maður líka að fara út að hlaupa þegar manni finnst miklu áhugaverðara að vera inni í rólegheitum. veðrið var mjög gott, + 1C og logn.
Hef verið að hugsa um hvort rétt sé að telja kílómetrana þegar verið er að meta hlaupamagn og telja þess í stað þann tíma sem verið er að. Ég sé að þetta gera menn víða þegar verið er að setja upp hlaupaplön. Haft er á orði að hlauparar verði kílómetrafíklar en hugsi minna um gæðin!! Þarf að skoða þetta þegar þessi törn er frá.
Sat foreldrafund með unglingaráði handboltans í Víking í gærkvöldi og þar var margt spjallað um hvernig megi bæta umgjörina um handboltann hjá yngri flokkum Víkings. Margt er vel gert og hefur ráðning yfirþjálfara hjá félaginu sýnt sig vera stórt skref fram á við. En lengi getur gott batnað og metnaðarfull stjórn unglingaráðs hefur margar hugmyndir um hvað hægt er að gera næsta vetur. Þasð þarf bara að virkja foreldrana því ekki er hægt að ætlast til að það fólk sem situr í stjórn unglingaráðsins geri allt sjálft.
María og vinkonur hennar í 5. flokki spiluðu við Þrótt í Reykjavíkurmótinu seinnipartinn og sigruðu 2 -1. María negldi einu inn með bylmingsskoti!!!. Síðast þegar þær spiluðu við Þróttarstelpurnar vann Þróttur afgerandi 5- 0 þannig að Víkingsstelpurnar voru ansi kátar í leikslok.
Ef einhver í smáíbúðahverfinu hefur tapað litlum bláum páfagauk þá getur skeð að hann sé staddur að Rauðagerði 36 þessa stundina. Í gærkvöldi benti kona í nærliggjandi húsi Jóa og félaga hans á lítinn páfagauk sem sat uppi í tré og nokkrir þrestir voru að rannsaka og pota í. Strákarnir náðu gauknum sem var svo kaldur að hann gat varla hreyft sig. Búr er til á bænum frá síðustu páfagaukaútgerð sem gestinum var skellt í og gefið að éta. Hann var svo svangur að hann borðaði stanslaust þangað til farið var að sofa. Raddir eru komnar upp um hvort eigi að skila honum en þær njóta ekki vinsælda.
Mér fannst fyrsta frétt sjónvarpsins í gærkvöldi einkennileg. Hún var um einhvern rúmena sem hafði komið hingað til lands í vetur og óskað eftir hæli sem pólitískur flóttamaður en verið vísað aftur til Bretlands. Hann hafði verið hluti af rúmenskri glæpaklíku en lent upp á kant við hana og verið gengið í skrokk á honum. Maður veit náttúrulega ekkert um hvort þær skýringar sem eru á borð bornar séu eitthvað í kallfæri við sannleikann. Síðan var bætt um betur og kastljósþátturinn settur undir umræður um málið og náttúrulega var Ragnar Aðalsteinsson mættur. Talað var í síma við einhverja enskumælandi manneskju sem færði rök fyrir því að íslensk stjórnvöld gætu betur gætt hagsmuna þessa manns heldur en bresk. So. Hann hafði verið sporaður uppi í Bretlandi eftir tveggaj ara dvöl þar og verið laminn. Niðurstaða umræðunnar var náttúrulega að íslensk stjórnvöld væru skilningslaus og þröngsýn í þessum málaflokki enda sett upp með það fyrir augum. Nú má vel vera að þessi rúmenski fyrrverandi glæpaklíkumeðlimur sé í einhverjum vandræðum en hve mörg hundruð þúsund manna eða milljónir eru það ekki. Ef að á að opna borgarhliðin fyrir öllum þeim sem þannig er statt á um er eins gott að fara að pakka niður.
Héðinsfjarðargöngin voru enn einu sinni á dagskrá og ekki að furða. Á sínum tíma var mikill hljómgrunnur fyrir Ísafjarðargöngunum og Ólafsfjarðargöngunum, þótt dýr væru, svo dæmi séu nefnd, en einhvern vegin hefur þessi framkvæmd ekki notið sama skilnings. Það er á margan hátt skiljanlegt. Þau eru dýr, liggja um friðland og byggðarlögin fámenn sem liggja að þeim. Eitt sem nefnt er göngunum til stuðnings er að þau sé arðbær og er nefnd 14% arðsemi framkvæmdarinnar. Það er sett fram sem rök fyrir því að rétt sé að ráðast í þau. Ég hef ekki skoðað útreiknigana en það er á hreinu að niðurstaðan byggist algerlega á þeim forsendum sem notaðar eru. Þá má spyrja fyrst farið er að nota arðsemismælikvarðann hvort eigi þá ekki að fara fyrst í þær framkvæmdir sem arðsamastar eru. Ef Héðinsfjarðargöngin hafa 14% arðsemi þá er arðsemi Sundabrautarinnar mörgum sinnum meir svo dæmi sé nefnt. Hvað með Suðurstrandarveginn? Það er á hreinu að víða er erfitt að sýna fram á beina arðsemi ákveðinna vegaframkvæmda, reiknaða í krónum en gott vegakerfi er nú einu sinni grunngerðin í samfélaginu. Áhrif góðra samgangna koma fram á svo marga vegu að erfitt er að sjá allt fyrir. Ég er til dæmis viss um að Héðinsfjarðargöngin munu hafa þau áhrif á Siglufjörð að þar mun ákveðin þjónusta dragast saman s.s. í verslun og þjónustu vegna nálægðar við Akureyri, en annað mun kannski (vonandi) spretta upp í staðinn. Ég hef minnst á hve auðveldara er að fara vestur á Patreksfjörð en það var hér áður þegar ég bjó þar. Þá var maður ekki undir 6 klst. að keyra vestur en nú tekur það um 4 klst á góðum bíl. Samt hefur fólkinu fækkað verulega en margt annað hefur breyst. Ferðamannastraumur hefur t.d. vaxið verulega á sumrin en hann kemur ekki nema að litlum hluta í stað þess atvinnulífs sem var á fjörðunum hér áður þegar sóknin í fiskinn var óheft og sjávarútvegur og landbúnaður byggðu meir á mannshöndinni en hann gerir í dag. Það er hins vegar liðin tíð og kemur varla til baka.
Verð í spjalli á Talstöðinni kl. 12.30 í dag (mid) þar sem verður fjallað um WS 100 og þátttöku mína í hlaupinu, undirbúninginn o.fl.
miðvikudagur, maí 11, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli