fimmtudagur, maí 05, 2005

Hefðbundið 16 km hlaup í kvöld. Kom heim um miðnættið. Allt í fínu lagi og bakið orðið þokkalega mjúkt. Fékk bréf í morgun frá Kristni í San Francisco. Hann býst við að geta crúað mig hluta af leiðinni í júní og er það mjög ánægjuleg tilhugsun. ´Það er alltaf gott að hafa aðeins fast land undir fótum á ókunnugum slóðum. Hann kom dálítið inn á fjallaljón og skröltorma. Fjallaljón eru ekki óalgeng á þeim slóðum sem hlaupið er. Þegar hlauparar eru einir síns liðs að æfa í brautinni eru þeir gjarna með flautu til að fæla kvikindin burtu ef þau láta sjá sig. Öllu verra er það með skröltormana sem skríða inn á stígana á sólríkum dögum til að baka sig. Þeim er ekki beint vel við að láta stíga ofan á sig og er þá eins gott að vera fljótur að hoppa upp ef manni skyldi verða það á. Hann sagðist hafa í þrígang þurft að stökkva yfir orm sem lá á stígum nálægt heimilinu.

Ansi finnst mér umræðan sem hefrur skapast í framhaldi af þætti Opruh Winfrey vera fyndin. Það gekk nú ekki svo lítið á í vetur þegar var verið að spekulera í hver yrði þess heiðurs aðnjótandi að spjalla við sjálfa drottningu spjallþáttanna. Það væri svipað að fá að snerta guðdóminn sjálfan. Að lokum var miss Beckham Íslands valin (eins og hún er gjarna nefnd í DV) ásamt einhverjum tveim til og voru þær vafalaust taldar hafa höndlað hina endanlegu hamingju. Hvað kemur svo á daginn? Maður les í Mogganum greinar frá bálreiðum konum í Bandaríkjunum sem segjast munu kenna sig við Finnland héðan í frá eftir að hafa hlustað á herlegheitin og alls ekki láta dætur sínar fara í skólann með Iceland á bolnum. Það kom nefnilega í ljós að Oprah Winfrey kann sitt fag. Frægð hennar gengur út á að vekja athygli með þáttum sínum og skapa umtal. Ef hún færi að fjasa um fiskuppskriftir, feðraorlof og menntun kvenna á Íslandi myndu allir sofna úr leiðindum og auglýsingatekur falla. Því þurfti hún að fá eitthvað djúsí í þáttinn. Hún þurfti því bara að spyrja nógu margra ágengra spurninga nógu oft þar til hægt var að klippa saman nógu margar krassandi spurningar og krassandi svör við þeim til að fylla heilan þátt. Sumt kom ótilkvatt (við erum svo hip hop og trendý og erum bara á barnum fram til kl. 6 um morguninn bla bla bla bla) en í annað náði hún með hörku og klókindum. Bingó. Það sem mér finnst fyndnast er að það skuli hafa verið fjölmiðlakona sem lendir í þessu. Þó hún segist hafa farið af stað með góðum ásetningi um að kynna hönnun, mat og ég man ekki hvað þá hefur það verið svo mikið mál hjá henni að fara í þátt hjá OW að allur góður ásetningur hefur rokið út um gluggann. Ég svara ekki spurningum um kynlíf. Jæja, kannski bara svolítið fyrst hún spyr svona mikið um það. Ég vil alls ekki koma með hákarl og hrútspunga. Nú, fyrst hún vill ekki annan mat ætli ég slái ekki til!!! Það er segin saga hérlendis sem annarsstaðar að þegar maður fer í viðtal þá verður maður að passa sig á einu. Það er að það sé ekki hægt að taka svör úr samhengi og fá þannig út aðra meiningu en maður vildi segja. Íslenskir fjölmiðlamenn sem og erlendir iðka þá list oft af mikilli kúnst að kippa orðum og setningum úr samhengi og fá þannig út allt annað en viðmælandinn meinti. Það er stundum hart að fá boomerangið í hausinn. Oprah Winfrey er enginn amatör, hún er proffi. Það er engin tilviljun að hún hefur náð þangað sem hún er komin.

Engin ummæli: