miðvikudagur, maí 18, 2005

Esjuhlaup í kvöld í góðu veðri. Margt fólk á ferðinni upp og niður. Nú verður hvíld næstu tvo daga í aðdraganda helgarinnar.

Las betur vef svíans (www.loparlarsson.se). Þar er ýmislegt gagnlegt. Hann fjallar meðal annars þar um 24 tíma hlaup þar sem menn reyna að komast eins langt og hægt er á 24 tímum. Hann á norðurlandametið í 24 tíma hlaupi sem er um 260 km. Hann hefur reynslu af þeim erfiðleikum sem upp koma og geta t.d. verið eftirfarandi:
  • Fæturnir verða þreyttir og maður fær blöðrur og nuddsár.
  • Sinadráttur hleypur í vöðva og mann verkjar um allan skrokkinn.
  • Maginn fer í uppnám og mótmælir því að taka við mat og drykk.
  • Maður fær ógleði og þarf iðulega að æla.
  • Svefnleysi gerir mann ruglaðan af og til.
  • Hraðinn verður miklu minni en maður hefur búist við fyrirfram. Efi læðist að manni og maður missir móðinn.
  • Umhugsunin um að það sé margt skemmtilegra að gera á laugardagskvöldi en það sem þú fæst við víkur ekki frá manni.
  • Sturtan freistar.

Larsson leggur áherslu á að maður verði að vera undirbúinn þessu sem hér er talið upp að framan og vera búinn að byggja sig upp fyrir að bregðast við þessu á jákvæðan hátt. Ef hugarfarið er neikvætt þá kemur stutta skrefið út í vegkantinn þar sem maður getur hætt við hlaupið að virka meir freistandi en þau 20 þúsund skref (eða meira) sem þú átt eftir beint áfram eftir veginum í mark.

Larsson leggur áherslu á að mæta fyrrgreindum uppákomum á jákvæðan hátt og nefnir eftirfarandi dæmi:

  • Nuddsár eða blaðra. Ég verð að stoppa og setja plástur á það og held síðan áfram og mér líður betur.
  • Sinadráttur. Ég verð að ganga nokkur hundruð metra og sjá hvort hann hverfur ekki.
  • Ógleði. Eðlilegt en hún hverfur fljótt.
  • Ég er svo syfjaður að ég get ekki haldið áfram. Í lagi að fá sér kríu en hún má ekki vera lengri en 20 mínútur.
  • Nú gengur það hægt. Það miðar þótt hægt fari og þrátt fyrir að skrokkurinn sé þreyttur. Það verður kannski léttara eftir nokkra stund. Manni líður misjafnlega vel.
  • Nú sitja vinirnir og drekka öl á meðan ég erfiða hér. Þeir munu gleyma þessari ölkrús fljótt á meðan ég öðlast minningu sem endist lífið út.
  • Ef ég hætti þá mun ég iðrast þess á morgun. Þegar ég sé hetjurnar sem börðust áfram og kláruðu á stirðum og aumum fótum síðustu mílurnar þá öfunda ég þá meira en ég öfundaði félagana sem voru á barnum í gærkvöldi.

Fleiri ráð:

  • Borða reglulega, jafnvel þótt þú sért ekki svangur.
  • Borða mismunandi fæðu. Það verður fljótt leiðigjarnt að borða bara hrein kolvetni (gel og orkubita). Ruslfæði s.s. pizza, hamborgari, franskar og ís er gott með öðru.
  • Það er ekkert rangt við að ganga af og til þegar þreytan er orðin mikil.
  • Haltu eins lengi áfram og þú getur með að grípa, fara og borða. ekki stansa á drykkjarstöðvunum heldur grípa það sem þú vilt taka og halda áfram gangandi og borða og drekka á hreyfingu. Það tapast ansi mikill tími á drykkjarstöðvunum ef maður stoppar góða stund á hverri.

Engin ummæli: