Tók Esjuna í kvöld. Fór alveg upp að steini og hljóp svo niður. Var aðeins lengur á leiðinni en síðast enda ekki furða, efst var frost, snjór á stígnum og mótvindur. Mjög ánægður með að finna ekkert fyrir þessu í fótunum svo og að Þingvallavatnshlaupið gerði ekki vart við sig á neinn hátt. Stoppa ekkert á leiðinni hvorki á leiðionni upp eða niður og snýst á hæli hjá steininum og held án tafar til baka.
Síðasti mánuðurinn hafinn. Einn fimmti eftir af æfingatímanum en einn fjórði af æfingamagninu. Ég tel júní varla með, þá verður bara niðurtalning og þægilegheit. Þetta hefur liðið hratt og verið skemmtilegt. Ef ekkert kemur upp á verður það sem eftir er á álíka nótum.
Blað var brotið í sögu The Beautifuls í kvöld. Þeir fóru í stúdíó hjá Leaves og tóku upp lag sem á að hljóma sem hvatningarsöngur Víkings á fótboltavellinum í sumar. Þetta var mikil upplifun hjá ungum drengjum að fara í alvöru stúdíó og vinna með alvöru mönnum. Gaman verður að heyra útkomuna. Það fer að styttast í að deildin fari að byrja svo þetta voru síðustu forvöð.
Spennan fer vaxandi í Bretlandi í aðdraganda kosninga. Það virðist sem svo að Blair sé alls ekki viss um að sigra. Mér hefur reyndar alltaf fundist hann vera hálfgerður froðusnakkur, poppaður upp af auglýsingastofum. Hvað var sagt hér áður; "The new Labour" Allir kratar sem vettlingi gátu valdið nudduðu sér upp við hann. New Labour var orðið. Hvernig er staðan nú? Össur sver af sér alla velvild í garð Blairs en tengir sig við fjármálaráðherrann. Menn segja að Labour vinni líklega þrátt fyrir Blair. Hann er rúinn trausti, uppvís að tvísögli og ósannsögli. Það trúir varla nokkur maður að frá honum komi neitt sem máli skiftir. Málflutningur hans skiptir ekki máli, það getur farið svo að hann verði fangi í eigin flokki enda þótt Labour sigri, því andstaða er mikil gegn honum í hans eigin flokki.
Myndin í sjónvarpinu gær var sterk, en hún fjallaði um Blóðuga sunnudaginn í Londonderry í Norður Írlandi. Ástandið þarna hefur verið svakalegt gegnum áratugina. Bretar eru loksins farnir að átta sig á að herseta leysir engann vanda á þessu svæði en í framhaldi af blóðuga sunnudegnum voru hermennirnir sem skutu niður varnarlaust fólk aðlaðir. Þannig var afstaða breska "heimsveldisins" á þeim tíma.
mánudagur, maí 02, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli