Hljóp ekkert í gær. Bæði fann ég að það var ágætt að fá smá hvíld en einnig er í ýmsu að snúast svo maður getur ekki ýtt öllu aftur fyrir sig. Svo átti Anna systir afmæli í gær og skroppið var í kvöldkaffi til hennar. Það er ágætt að þurfa ekki að stressa sig á því þótt detti út dagur og dagur.
Fór til Hjördísar hjá Reykjavíkurmaraþon og fékk hjá henni sérmerktan jakka. Það getur verið gott að vera vel merktur vestra ef einhverjir hlauparar eru að leita að exotiskum hlaupaleiðum. Þá er Laugavegurinn góður valkostur. Skrapp einnig til Skúla í Sportís og keypti hjá honum tvenn pör af Asics trailerskóm. Fékk þá á góðu verði. Þetta eru góðir skór sem ég þarf að tilkeyra á Esjunni á næstunni en ég geri ráð fyrir að leggja upp með þrenn pör af skóm í brautinni.
Liverpool vann meistaradeild Evrópu í gærkvöldi á ótrúlegan hátt. Það er náttúrulega á hreinu að fyrst að MIlan gat ekki haldið 3ja marka forskoti þá áttu þeir ekki skilið að fara heim með tiltilinn.
Horfði í gærkvöldi á þátt í sjónvarpinu um Brian Wilson, eina eftirlifandi Beach Boys bróðirinn og hvernig staðið var að uppsetningu á Smile, ófullgreðu plötunni í Londoin á síðasta ári. Biran Wilson er einn af þessum snillingum sem tónlistarsprengja sjötta áratugarins fæddi af sér. Frá honum rann þvílíkur fjöldi hit laga á árunum 1964 - 1967 að fá dæmi munu vera álíka. Þau eru enn í hópi allra bestu rokklaga sem hafa verið samin. Það mátti segja að hann hafi á þessum árum búið í hljóðverinu í mörg ár. Það tók aftur á móti sinn toll. Andlega hliðin lét undan, eiturlyfjaneysla fór vaxandi, kílóunum fjölgaði og endaði með að allt fór í rúst. Á árunum milli 1975 og 1980 lokaði hann sig af, lá í rúminu í a.m.k. 3 ár samfleytt, át hamborgara, reykti sígarettur og annað þaðan af verra og var orðinn um 180 kíló. Það virtist ekkert liggja fyrir honum nema að drepast og vera borinn út með tærnar uppíloft. En einhver neisti var enn til staðar. Hann byrjaði endurhæfingu með lækni sem ég man ekki hvað heitir sem náði að kveikja í honum smá lífslöngum. Eftir langa meðhöndlum var hann orðinn það hress að hann gat komið fram á tónleikum með félögum sínum. Þessi upprisa stóð þó skammt yfir. Hann hrundi niður og ástandið varð verra en nokkru sinni. Það endaði með því að félagar hans ráku hann úr hljómsveitinni. Læknirinn kom þá aftur til skjalanna og við tók margra ára verkefni að koma honum á lappirnar á nýjan leik og fá gangverkið ti að snúast. Það var ekki auðvelt að tjasla saman einstaklingi sem var bæði andlega og líkamlega orðinn að algeru flaki. Það tókst þó á endanum að verulegu leyti, enda þótt ástand fyrri ára hafi sett á hann óafmáanleg spor. Í bók sem ég á kom fram að eitt af lokaviðfangsefnunum sem hann þurfti að leysa í sjálfstyrkingaruppbyggingunni var að ganga yfir lágt fjall eða hæð og leysa einhver verkefni upp á eigin spýtur. Það var þvílíkur sigur fyrir Brian þegar það tókst því hann kunni ekkert og gat ekkert nema unnið í hljóðveri. Allt annað var honum lokaður heimur á þessum árum. Í myndinni kom það fram að það lá mjög þungt á honum að hafa ekki getað klárað Smile, sem átti að vera meistaraverk hliðstætt SGT Peppers plötu Bítlanna. Félagar hans höfnuðu plötunni á sínum tíma og var það upphafið að andlegu hruni Brians. Hann réðst þó í verkið í fyrra eftir 37 ára bið. Andlega var þetta mjög erfitt og þurfti hann meðal annars að fara inn á sjúkrahús á meðan á æfingatímabilin stóð. Hann vantreysti sér og var vafalaust margoft við það að renna af hólmi. Tónleikarnir þegar Smile var frumflutt gleymast hinsvegar vafalaust engum sem á hlýddu, svo stórkostlegir sem þeir voru. Í enda myndarinnar kom fram hjá Brian að nú væri sem hann væri leystur úr álögum, eftir 37 ár. Hann er óumdeilanlega einn af stórmeisturum rokksins sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga.
Ég fór í Laugardalshöllina þegar Beach Boys Band kom hingað í haust. Enda þótt fáir séu orðnir eftir af upprunalega hópnum þá er gamli hljómurinn enn til staðar, fjörið og lögin stórkostlegu. Mér fannst mjög gaman og fimmtán ára gömlum syni mínum einnig. Ég mydi fara á konsert með Brian Wilson ef þess væri nokkur kostur, en hann hefur verið að spila nokkuð eftir að hann losnaði úr álögunum í fyrra.
fimmtudagur, maí 26, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli