Hljóp ekkert á föstudaginn. Fór strax eftir vinnu vestur á Rauðasand með félaga mínum til að kíkja á húsið heima. Við gistum á Patreksfirði um nóttina og renndum yfir á Sand snemma um morguninn til að mæla upp húsið. Það þarf að setja gólf í það og líklega fá veggirnir að fjúka líka. Þetta er verk sem maður hefur ýtt á undan sér en nú er ég búinn að fá góðan mann til aðstoðar sem kann svona hluti. Þetta er ekki orðið neitt mál tímalega séð að renna vestur. Þvílíkur munur frá því sem var fyrir ca 15 árum. Hvalfjarðargöngin, Brattabrekka, Gilsfjarðarbrúin, Klettshálsinn, Vattarfjörðurinn, Kleifaheiðin ofl. ofl. Allir þessir leiðindakaflar komnir í nútíma búning. Það munar alla vega 1,5 klst á tíma miðað við hvaða tíma það tók fyrir 15 árum. Við sáum eina tófu á leiðinni vestur og tvo erni á leiðinni suður fyrir utan margt annað. Það var frekar kalt fyrir vestan en annars gott veður. Vorið var varla farið að kræla á sér. Komum í bæinn aftur síðla dags á laugardaginn. Tók svo Esjuna í kvöld. Það var kalt og hvasst uppi og líklega frost. Maður mátti passa sig á að láta ekki vindinn taka völdin á leiðinni niður. Þessi vika gerir tæpa 90 km. Það er allt í lagi, sérstaklega þar sem í henni eru 3 Esjuferðir. Nú fer þeim fjölgandi.
Heyrði í fréttum að skynsemin ætti að ráða varðandi verðlagningu á hráolíunni. Þó nú væri.
Jónína Ben. skrifaði grein í sunnudagsmoggann. Góð grein og miklu yfirvegaðri en fjasið í henni í Kastljósinu um daginn. Ráðlegg fólki að lesa hana.
Mér finnst gott hjá Gunnari Birgissyni að leggja fram sínar áherslur í samgöngumálum. Það er farið að styttast í sveitarstjórnarkosningar og menn verða að sýna fram á að þeir hafi eitthvað fram að færa.
sunnudagur, maí 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli