þriðjudagur, maí 17, 2005

Heima í kvöld og hljóp ekkert. Var heima að snúast í ýmsu, samræmdu prófin eru að taka enda og stúdentsefnið á lokasprettinum. Það er barist á mörgum vígstöðvum á heimilinu. Ég ætla að taka Esjuna á morgun en svo ætla ég að hvíla mig fyrir helgina því þá verða tekin löng hlaup þrjá daga í röð. Rútuhlaupið á laugardag, Skálafell á sunnudag og Esjan x 3 á mánudag. Þetta er svona álíka og boðið er upp á í Squaw Walley um þessa helgi. Þetta er fyrst og fremst undirbúningur undir andlegu hliðina. Síðan verður kannski langt hlaup um mánaðamótin en svo fer maður að trappa sig niður. Maður bætir ekki svo miklu við sig úr þessu úthaldslega en pressan fer að vaxa á margháttaðri skipulagninu og öðrum undirbúningi.

Gekk frá farmiðanum til San Francisko í dag hjá Flugleiðum. Þorbjörg sölustjóri (ég vona að ég titli hana rétt) hefur verið afar hjálpleg, veitti mér góðan afslátt af farmiðanum og leysti vandamál sem upp komu og gaf góð ráð um annað. Kann ég henni bestu þakkir fyrir.

Halldór sendi mér áhugaverðan link í dag hjá súper Svía sem hafði haldið fyrirlestur yfir Haraldi Júl. og fleiri Adidas mönnum nýlega. Hann er einn af þessum ofurmönnum sem hefur hlaupið maraþon á 2.18, 100 km á undir 7 klst, tekið Spörtuhlaupið (265 km), róið yfir Atlantshafið og hlaupið milli stranda á Bandaríkjunum (svo fátt eitt sé nefnt). Hann fjallar á áhugaverðan hátt um mataræði í ultra langhlaupum. Hans ráð eru að borða sig saddan af venjulegum mat dagana áður og einnig kvöldið áður og kolvetnahleðsla hafi ekki svo mikla þýðingu. Brennslan sé svo mikil að maður getir einungis hlaðið fyrir lítinn hluta hennar fyrirfram, hitt verði maður að taka í hlaupinu sjálfu eins og þegar um venjulega erfiðisvinnu er að ræða. Það getir verið varasamt að belgja sig út af vatni daginn áður því það geti virkað í andhverfu sína því ef líkaminn fer að leggja mikla áherslu á að losa sig við vökvann þá geti verið hætta á ofþornun þegar af stað er komið. Þetta var fróðleg lesning sem ég þarf að liggja betur yfir. Það ég sá stemmdi margt við reynslu mína frá Borgundarhólmi þegar maður fer að hugsa um það.

Hann gaf einnig upp áhugaverða uppskrift að orkubitum. Það er gamla karamelluuppskriftin (einn skammtur af rjóma, einn af sykri og einn af sýrópi). Þetta er soðið í potti þar til dropar fara að myndast þegar maður lætur hann detta í kalt vatn eða í ca klukkutíma. Sósan er svo hrærð saman við átta skammta af haframjöli og ég bætti einnig dálitlu af rúsínum út í. Maukið er síðan mótað í litla bita svipaða og orkustangir eru og glattað yfir með blautum hníf til að það hangi betur saman. Svo er þetta kælt eða sett í frysti og er tilbúið til átu. Ég gerði einn skammt í kvöld og miðaði skammtinn (eininguna) við pela af rjóma. Tókst prýðilega og gaf af sér um 20 orkusstangir sem gefa búðarstöngum ekkert eftir nema síður sé. Mæli með þessu.

Ég man ekki alveg linkinn hjá Svíanum en læt hann inn á morgun.

Rán var framið í Árbænum í kvöld frammi fyrir um 2000 manns þegar KR sigraði Fylki 2-1 eftir að hafa verið á rassgatinu allan leikinn. Fyrir utan úrslitin er maður ósáttur við að Kristján Finnboga markmaður skuli hafa hangið inni á vellinum eftir glórulausar tæklingar og brot. Vonandi fara dómarar að hafa vakandi auga á honum í návígjum.

Engin ummæli: