miðvikudagur, maí 25, 2005

Hvíld í gær. Fann að ég var svolítið þreyttur og líka svefnlítill og lét því kyrrt liggja í gærkvöldi. Dundaði við að fúaverja pallinn. Stúdentsefnið búið í prófum og kláraði allt með miklum sóma það sem vitað er um. Það er alltaf gaman þegar settu marki er náð eftir að hafa lagt vel að sér og uppskorið samkvæmt því.

Nú er eitt stóra málið komið upp, stóra ættleiðingarmálið. Mér finnst umræðan vera svolítið orðin þannig að ef beitt er einhverjum reglum sem settar hafa verið og einhver sættir sig ekki við niðurstöðuna þá er Ragnar Aðalsteinsson mættur, málið komið í sjónvarpið, talað um mannréttindabrot og umræðum skellt á í kastljósi til að reyna að beygja stjórnvöld eða þá sem fara með framkvæmd mála. Það virðist vera sett í gang ákveðin formúla við hvert svona tilvik ef á að fara eftir einhverjum reglum. Mér fannst langt gengið um daginn þegar það var fyrsta frétt sjónvarpsins og því síðan fylgt eftir með kastljósþætti þegar einhverjum útlendingi var vísað úr landi. Fréttamatið virðist vera hálfskrítið af og til.

Mér finnst bara ósköp eðlilegt að það séu sett spurningarmerki við hvort það sé skynsamlegt að nær fimmtugt einhleypt fólk sé að ættleiða ungabörn. Ég sé ekkert vit í því. Þá er ekki verið að gera lítið úr einstaklingnum sem persónu heldur verið að leggja mat á aðstæður. Það er ekki að ástæðulausu að það seru sett aldurstakmörk við 40 ár og 45 ár í nágrannalöndum okkar eins og kom fram í gærkvöldi. Þótt einstaklingur vilji ættleiða barn þá á hann engan rétt á því bara við það eitt að gefa sig fram og óska eftir að ættleiða barn. Það eru milljónir fólks um allan heim sem vilja ættleiða börn og vitaskuld vilja stjórnvöld í því landi sem börnin koma frá að þeim séu búin sem tryggastar aðstæður.

Engin ummæli: