Ekkert hlaupið í gær þar sem hvíldardagur var skv. planinu. Sá nýlega að nokkrir íslendingar tóku átt í maraþoni á Miami á Florída. Þau stóðu sig öll vel en Stefán Hermannsson hljóp á frábærum tíma eða 2.44. Hann varð 15. í hlaupinu og með fremstu mönnum í sínum aldursflokki. Af herju er ekki sagt frá þessu í fjölmiðlum hér? Kannski eru hlauparar of hógværir og vantar blaðafulltrúa? Manni dettur ýmislegt í hug þegar maður heyrir t.d. af íslensku skíðafólki sem á stundum er í 78 sæti af 79 keppendum hér og þar í Evrópu. Við eigum nefnilega mjög gott afreksfólk á þessu sviði en götuhlaup hafa ekki lent á áhugasviði íþróttafréttamanna enn sem komið er.
Sveinn er kominn á lista hjá Vöku. Nú stendur mikið til en kosið er til háskólaráðs á morgun og fimmtudag. Ætli það endi ekki með að ég kjósi Vöku en einhvern tíma hefði það þótt goðgá. Gaman að fylgjast með þegar ungtfólk uppgötvar strauma stjórnmálanna og fer að velta fyrir sér rökum og mótrökum. Mig minnir að Þórbergur Þórðarson segi frá því í Ofvitanum þegar hann varð pólitískur. Þá var verið að takast á um uppkastið upp úr þar síðurstu aldamótum. Fram að þeim tíma hafði hann gengið um bæinn og ekki velt fyrir sér hvaða skoðanir hinir og þessir höfðu á landsmálum. Eftir að hann gerðist pólitískur þá gjörbreyttist borgarmyndin. Þá sá hann landráðamenn í öðru hverju húsi og sumar götur voru svo slæmar hvað þetta varðaði að það var varla hægt að ganga eftir þeim. Síðan var góða fólkið sem studdi framsæknar og skynsamlegar tillögur. Þetta er kannski alltaf svona þegar ungt fólk gerist pólitískt. Það er ekki örgrannt um að mig minni að svipaðar hugrenningar hafi runnið í genum huga minn hér áður fyrr. Þá var það afstaðan til hersins sem risti hvað dýpst.
Kláraði í gærkvöldi að lesa Gengið á Múrnum sem er frásögn Huldar Breiðfjörðs um ferðalag hans eftir Kínverska Múrnum. Þetta er svo ótrúlegt ferðalag að það er varla að maður geti ímyndað sér að nokkrum manni skuli hafa dottið þetta í hug, ótalandi á framandi slóðum. Hann náði settu marki án tiltakanlegra hremminga en ekki vildi ég fara í fótspor hans. Byrjaði síðan á Aftureldingu eftir Viktor Arnar Ingólfsson hlaupara. Hún fjallar um raðmorðingja sem drepur gæsaskyttur. Þegar ég gat ekki lesið meir fyrir syfju var búið að drepa einn vestur í Dölum. Bókin lofar góðu.
þriðjudagur, febrúar 07, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli