miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Hringur tekinn í kvöld. Hélt að það væri bæði kallt og hvasst og bjó mig því betur en venjulega. Veðrið reyndist síðan harla gott svo kvöldið var fínt.

Fór í dag á útsölu til Smára í Síðumúlanum. Keypti slatta af Leppinvörum á fínu verði. Bæði Recovery, Boost og Prótein. Ég held að próteinið sé vanmetið þegar lögð er löng leið undir fót.

UMFR36 hélt aðalfund í kvöld. Fundað var á Aski á Suðurlandsbraut og var fyrst borðaður léttur kvöldverður. Tveir nýjir meðlimir bættust við á síðasta ári, Jörundur og Stefán Örn. Farið var yfir afrek félagsmanna á árinu. Pétur Reimarsson hljóp sjö maraþon á síðasta ári og Pétur Valdimarsson sex talsins. Báðir hlupu í mörgum löndum. Fjórir hlupu ultramaraþon á árinu. Við ræddum hlaupaáform á árinu. Það er ýmislegt á döfinni, maraþon verða þreytt svo og Laugavegurinn. Gísli ætlar að komast á stórhlauparaskrána, Stefán Örn ætlar í fjallamaraþon á Grænlandi og Eiður og Jói fara til Suður Afríku í Two Oceans hlaupið svo dæmi séu nefnd. Við Eiður erum ákveðnir í að fara til Danmerkur í maí að þreyta 100 k, Halldór Guðmundsson er að hugsa málið svo og Jósep. Það er sem sagt margt á döfinni.
Við ræddum um að halda sex tíma hlaup þegar líða fer á árið. Heppileg dagsetning var talin mitt á milli Reykavíkurmaraþons og Haustmaraþons eða seint í september. Ákveðið var að nota Nauthólsbrautina, það er góð leið þar sem hægt er að komast af með lágmarksmannskap við framkvæmd hlaupsins. Sex tíma hlaup fer þannig fram að keppendur hlaupa í nákvæmlega sex klukkutíma og að þeim tíma liðnum er mælt hvað keppendur hafa hlaupið langa vegalengd. Sá vinnur sem hleypur lengst. Þetta er ágæt byrjun en einnig eru þreytt 12 tíma hlaup og 24 tíma hlaup á þennan hátt. Einhversstaðar þarf að byrja. Ég þarf að hafa samband við ÍSÍ og fara yfir hvernig þarf að standa að þessu til að fá tímann staðfestan sem íslandsmet þar sem þetta verður í fyrsta sinn sem hlaup af þessari tegund verður þreytt hérlendis. Fundi lauk um kl. 21.00.

Víkingur vann ÍBV í handbolta í kvöld. Gott hjá þeim þar sem liðið er ungt og gangurinn hefur ekki verið of góður í vetur.

Engin ummæli: