laugardagur, febrúar 11, 2006

Fór út um kl. 8 í morgun og tók stífluhringinn áður en ég hitti Halldór og Pétur vestur við göngubrúna. Við fórum fyrir Kársnesið eins og venjulega en við Fífuna skildu leiðir. Pétur var hálf slappur og tók stutt en við Halldór héldum suður að Vífilsstöðum og fórum þaðan upp á Vatnsendahæðina. Langa brekkan upp að Vífilsstöðum var ekki eins erfið og í fyrra. Hraðinn var 5.50 mín/km upp bröttustu brekkuna á móti rúmum 6 í fyrra og púlsinn rúmlega 160. Vatnsendahverfið hefur gjörbreyst frá því í fyrra, mörg ný hús risin og önnur í byggingu. Einhvern vegin heillar hverfið mig ekki, það er kaldara þarna á veturna en neðar og einnig gæti ég trúað því að þarna sé vindasamt. En alla vega var gaman að hlaupa þarna í gegn í góðu veðri í morgunsárið. Þegar við komum inn á Poweratebrautina tókum við vel á og vorum bara hálf hissa á hvað rennslið var gott eftir hátt í 30 km. Bættum í flöskurnar í lauginni og runnum greitt sem leið lá niður á við. Dagurinn gerði 30 km með góðu brekkuívafi. Fínn dagur.

Víkingur vann Þrótt 3 - 0 í Egilshöllinni seinnipartinn og er kominn í úrslit í Reykjavíkurmótinu. Gaman að sjá hvað Magnús og Stjáni eru að bræða hópinn vel saman. Það er farin að myndast smá spenna fyrir sumarið.

Horfði á Eurovisionlögin í kvöld. Skelfingarmeðalmoð er þetta. Það eru ekki nema rétt örfá lög sem eiga eitthvað erindi í svona úrslitakeppni. Til þess að ná þangað verða þau að vera hrífandi og skilja sitthvað smá eftir, alla vega grípandi laglínu. Fæst gera það.

Engin ummæli: