miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Fór 8 km í gærkvöldi í léttum úða og hlýju. Lumbran sem ég fékk á mánudagsnótt var horfin veg allrar veraldrar. Sé fram á að eitt undirmarkmið febrúarmánuðar er að nást en það er að losa sig við ca tvö kíló. Það munar strax að þurfa ekki að burðast með eitthvað sem er bara að þvælast fyrir. Nokkur þurfa að fara í viðbót fram á sumar. Síðasta vika gerði nær 90 km og skilaði drjúgri innistæðu. Veðurspáin er góð eins langt og séð verður.

Setti bréf í póst í gær. Skráði mig í 100 K hlaup í Stige við Odense. Það er nauðsynlegt að hafa ákveðið handfast markmið til að stefna að. Þá byrjar andlegi undirbúningurinn af alvöru. Þrír mánuðir til stefnu. Ég á ekki von á öðru en það gangi vel upp ef ekkert kemur upp á. Eiður ætlar að koma líka. Hann klárar þetta örugglega með sóma. Ég ætla ekki að taka innan úr mér að fullu í hlaupinu heldur nota það sem lið í lengri uppbyggingu. Margt er þó hægt að læra af því að fara í svona hlaup. Til dæmis að lágmarka stoppin á drykkjarstöðvunum eins og hægt er. Þegar þær eru tuttugu talsins þá munar um hverja mínútu. Maður á bara að hella á og troða í vasana og síðan að tölta af stað. Það er nógur tími til að spjalla að hlaupi loknu. Ég er alveg viss um að ég hefði getað tekið 20 mínútur af Borgundarhólmshlaupinu á þennan hátt, en þá var ég alveg óstressaður yfir tímanum og hafði það eina markmið að ljúka hlaupinu. Tíminn skipti ekki öllu máli.

Nú fer maður að lengja helgarhlaupin og fikra sig nær 40 km. Gott að taka maraþon í mars því það er alltaf svolítið annað að hlaupa eftir klukku en að vera síns eigin herra.

Engin ummæli: