Fór út í gærmorgun uppúr kl. 6.00. Þurfti að vera mættur niður í Laugardalshús kl. 9.30 og því var ekkert annað að gera en að taka daginn snemma. Veðrið var eins og best verður á kosið, logn og hlýtt. Tók slaufuna upp að stíflu og fór síðan vestur Fossvog. Hitti kröftugan dreng sem heitir Ásgeir við göngubrúna yfir Kópavogsbrautina við Fossvogsbotninn og við spjölluðum saman um stund. Hann sagðist vera að æfa fyrir fullorðinn Ironman sem verður haldinn í byrjun júlí. Ironman samanstendur af 180 km hjólreiðum, 3,8 km sundi og maraþonhlaupi. Tímamörk eru 15 klst. Þetta er almennilegt. Gaman að sjá kröftuga stráka takast á við alvöru verkefni. Hann sagðist vera kominn með Western States í bókina hjá sér og hefði áhuga á að takast á við það á komandi árun. Gaman að sjá hvernig þetta er að þróast. Við höfum alla möguleika til að koma upp harðskeyttum ultrahópi sem getur tekist á við erfiðustu verkefni. Þetta gerist smátt og smátt þegar ísinn er brotinn hér og þar.
Var að vinna við meistaramót 15 - 22 ára í Laugardalnum fram til kl. 1500. Það voru unnin ágæt afrek enda margir öflugir einstaklingar þar á ferðinni. Gaman að sjá hvernig Sveinn Elías hefur þroskast og er orðinn kröftugur en maður man fyrst eftir honum sem litlum gutta með pabba sínum í götuhlaupum í kringum 2000. Hann hefur alla burði til að verða okkar öflugasti tugþrautarmaður á komandi árum. Einar Daði er einnig mjög öflugur en hann er að verða 16 ára. Maður fylgdist með honum í yngri flokkum Víkings í fótbolta en þar vakti hann athygli fyrir spretthörku. Svo var honum bent á að prufa að fara á frjálsíþróttaæfingu og þar höfðu menn bara ekki séð annað eins efni og voru þó ýmsu vanir. Það verður gaman að fylgjast með honum þegar hann er orðinn fullþroska enda þótt hann sé stór í dag þrátt fyrir ungan aldur.
Þingeyingar voru með öflugan hóp á mótinu. Það er gríðarlega gott hjá þeim að halda utan um krakkana og ná því besta út úr þeim. Hópurinn er dreifður á veturna vegna náms eins og gengur sem gerir allt starf flóknara. Þeir fóru alla vega með eitt íslandsmet með sér norður norður og nokkur 1. verðlaun. Þetta er partur af lífsgæðum samfélagsins að gefa hæfileikum krakkanna möguleika á að njóta sín.
Sveinn spilaði æfingaleik með Gróttu í gær gegn Selfyssingum. Þeir unnu leikinn sannfærandi. Fór svo upp í Egilshöll og horfði á Víkinga spila við KR í Reykjavíkurmótinu. Leikurinn var jafn og mikil barátta í leiknum en ekki mikið um færi. Maggi Gylfa var að stjórna sínum fyrsta leik gegn KR eftir að hann var rekinn frá liðinu sl. sumar. Svo fór að Víkingar unnu 1 - 0. Fátt er sætara í fótbolta en að vinna KR. Ég trúi að Maggi hafi verið kátur eftir leikinn. Mér finnst liðið fara nokkuð vel af stað og verður gaman að sjá hvernig því vegnar í sumar. Ein aulalegasta tækling sem maður hefur séð sýndi sig hjá Bjarnólfi Lárussyni KRingi þegar hann tók tveggjafóta sólatæklingu á Viktor þegar um 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Hann fékk vitaskuld rautt spjald og þyrfti að fá a.m.k. tveggja leikja bann.
sunnudagur, febrúar 05, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli