Fór hringinn í hverfinu í kvöld. Veðrið er enn eins og best verður á kosið. Hef lést um ca tvö kíló frá áramótum. Það má ekki minna vera og ég þarf að ná svipuðu af mér á hverjum mánuði á næstu mánuðum. Þetta er fyrst og fremst spurning um að aga sjálfan sig og borða heldur minna en mann langar í.
Landsliðið tapaði gegn Norðmönnum í dag. Maður sá að þeir voru orðnir þreyttir. Synd að geta ekki klárað mótið fyrir fullum seglum en ótrúleg meiðslasaga hefur veikt liðið sem þó hefur spilað frábærlega alla keppnina. Sjöunda besta lið Evrópu er svo sem ekki slæmt og reyndar gríðarlega gott. Svíarnir komust ekki á mótið svo dæmi sé nefnt.
Sá að AUA (American Ultrarunners Associaton) kaus Scott Jurek besta karlultrahlaupari USA á árinu 2005 og Anne Lundblad bestu konuna. Scott Jurek fékk útnefningu fyrir besta afrek ársins sem var að setja brautarmet á Badwater aðeins hálfum mánuði eftir að hann útklassaði alla í Western States. Það á náttúrulega ekki að vera hægt. Anne Lundblad átti tvö bestu afrek ársins í kvennaflokki sem var að hlaupa 50 M á 6.29 og 100 K á 7.54. Annette Bednosky var í þriðja sæti sem hlaupari ársins í kvennaflokki og hún vann einnig þriðja besta afrek ársins þegar hún vann kvennaflokkinn í Western States á 18.39. Sú kona sem vann fjórða besta afrek ársins hljóp 100 M í Olander Park á 15.41 eða á um þremur tímum skemmri tíma en Annette hljóp WS á. Þannig er hægt að fá hugmynd um erfiðleikastuðulinn á WS. Maður getur ekki verið annað en pínulítið stoltur yfir að hafa tekið þátt í sama hlaupi og þessir frábæru íþróttamenn.
fimmtudagur, febrúar 02, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli