Hverfishringurinn í gærkvöldi. Veður og aðstæður allar eins og best verður á kosið um miðjan febrúar. Planið heldur.
Heyrði óvanalega skynsamlegar umræður um vændi í útvarpinu í eftirmiðdaginn. Umræðuefnið var frumvarp dómsmálaráðherra. Viðmælandinn sem hafði unnið með málið (veit ekki hvað hún heitir) lýsti meðal annars þeirri skoðun sinni að vændi ætti ekki að vera refsivert per ce. Auðvitað. Hvaða miðaldapúrítanahugsunarháttur er það að það sé saknæmt ef einhver (karl eða kona) selur sig? Meðan einstaklingurinn ákveður þetta sjálfur er það þeim í sjálfsvald sett. Það er nauðungin sem er refsiverð, þ.e.a.s. ef einhver neyðir aðra manneskju til að stunda vændi gegn vilja sínum. Það má vel vera að einhverjir þeirra sem stunda vændu þurfi á aðstoð samfélagsins að halda til að losna út úr ákveðnum vítahring og gott og vel með það en að verknaðurinn sé saknæmur sem slíkur er bara vitleysa. Annað sem þessi kona kom inn á var að hún mælti ekki með því að fara sænsku leiðina og banna vændi. Sænskar yfirstéttarkerlingar héldu að þær hefðu þarna fundið upp patent lausn (að sögn Petru Östergren) sem þær síðan gætu farið með út í heim og sagt: Vi er bäst i världen en gång till!! Sænska aðferðin hefur ekki leyst neinn vanda en frekar gert stöðuna verri ef eitthvað er. Vændið í Svíþjóð er komið inn á netið og inn í hús en hefur minnkað á götunum. Þetta er kallað að sópa vandamálum undir teppið. Bæði Danir og Norðmenn hafa lagst yfir þessa aðferðafræði og hafnað henni. Hérlendis tóku ýmsir úr feministaarminum henni opnum örmum og hömruðu á að þetta væri leiðin. Sem betur fer virðist skynsemin hafa náð yfirhöndinni. Menn geta alveg eins bannað fátækt með lögum.
Fór á þorrablót í Breiðagerðisskóla í eftirmiðdaginn en það var haldið fyrir nemendur 7unda bekkjar sem eru að kveðja skólann í vor. Þetta er árviss viðburður og er vel að þessu staðið hjá skólanum. Krakkarnir tóku þorramatnum sem nokkurskonar áskorun eða ógeðisdrykk sem væri manndómur í að prufa og smakka.
Að ári verða þessir krakkar komnir í Réttarholtsskóla þar sem meiri fullorðinsbragur er á hlutunum. Við foreldrarnir spjölluðum m.a. um framtíðina hjá þessum aldurshóp en einnig hjá þeim sem eldri eru orðin. Sumir okkar eiga börn sem eru að ljúka grunnskólanámi en aðrir eiga krakka sem eru nýbyrjuð í menntaskóla. Hjá mörgum nemendum er mikill metnaður í að standa sig vel á samræmdu prófunum til að geta valið um menntaskóla. Það skiptir miklu máli í mörgu tilliti. Ég hef persónulega mjög góða reynslu af MR í gegnum strákana, bæði námslega og félagslega. Það er góður agi í skólanum og metnaðarfullur mórall meðal krakkanna. Þau fara flest í skólann með ákveðin markmið. Stjórnendur skólans hafa einnig lagt mikið upp úr því að styrkja hann móralskt á ýmsan hátt. Enda þótt ég þekki hann best af einföldum ástæðum þá er vafalaust mjög víða annarsstaðar unnið afar gott starf í framhaldsskólum. Mórallinn er þó misjafn milli skóla eftir því sem manni heyrist á krökkunum. Það er t.d. vafalaust ekkert skemmtilegt fyrir skólastjórnendur að þurfa að horfast í augu við það að það sé ekki hægt að halda skólaböll og neyðast til að banna þau heilt skólaár vegna skrílsláta. Manni hnykkir einnig við þegar maður heyrir sagt frá því að til séu dæmi um nýnemapartí í menntaskólum þar sem ekki er haft neitt áfengi um hönd heldur einungis annað og verra.
Sá mynd á Stöð tvö í fyrradag. Þetta var nokkursskonar "Allt í drasli" þáttur nema þarna var mataræðið tekið fyrir. Þetta var því "Allt í draslfæði" þáttur. Myndin fjallaði um bandaríska konu sem var um 160 á hæð og vóg 113 kíló. Hún lifði einvörðungu á keyptum fastfood réttum og át mikið af þeim. Ástæðan sem hún gaf upp með þessum fastfood kaupum var að með því að sleppa að elda gæti hún haft meiri tíma með dóttur sinni. Stelpan var á góðri leið með að verða jafnfeit og mamman. Næringarráðgjafi tók hana fyrir og setti upp ákveðið prógram. Í tvo mánuði skyldi hún borða heilnæman mat, grænmeti, ávexti, kjöt og fisk en sleppa draslinu, frönskunum, sósunum, hamborgurunum, sælgætinu og hvað þetta hét nú allt saman. Í byrjun þurfti að kenna henni hvað ákveðnir ávextir og grænmeti hétu því hún þekkti það ekki. Á suma ávextina var nafnið skrifað í upphafi. Það var ótrúleg breyting sem sást á aumingja konunni eftir tvo mánuði. Í stað þess að vera rauðsprengd í framan eins og hún væri að springa var hún orðin slétt með glansandi húð, 13 kíló voru fokin og lífsgleðin komin. Henni datt ekki í hug að snúa aftur að dollu og pokafæðinu heldur sagðist hún vera komin á beinu brautina og baráttan við kílóin hafin af fullum krafti.
miðvikudagur, febrúar 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli