Þar sem ég þurfti að mæta á fund kl. 11 þá var ekki um annað að ræða en taka daginn snemma. Ég lokaði því útihurðinni kl. 6.30 og lagði af stað. Tók fyrst Poweratehringinn og hélt síðan vestur á við til móts við Halldór og Pétur. Hitti þá við dælustöðina fyrir vestan flugvöllinn. Snerum við og héldum til baka. Við göngubrúna voru Einar bróðir Halldórs og Haraldur skókaupmaður mættir. Við rúlluðum af stað fyrir Kársnesið. Þegar maður hittir Harald þá er hann yfirleitt heldur niðurlútur í upphafi. Hann er nefnilega að skoða í hvernig skóm maður er í. Nú hleyp ég í skærbláum útsöluskóm sem líklega seldust ekki á upphaflegu verði vegna litarins. Púðarnir sprungu á öðrum um daginn en með því að sprauta sílekoni í þá eru þeir betri en nýir. Haraldur átti varla orð yfir þessu uppleggi. Ég kaupi mjög sjaldan hlaupaskó nema á útsölu. Þegar ég kemst á góðar útsölur kaupi ég oft nokkur pör á lager. Ég á yfirleitt tvo til fjóra kassa með nýjum skóm í bílskúrnum. Yfirleitt er ég með svona tvö til þrjú pör undir í einu og víxla á milli þeirra. Ég endurnýja þá nokkuð hratt til að hlaupa ekki á slitnum skóm sem geta valdið röngu álagi á fæturna. Þetta fyrirkomulag hefur gefist mér vel. Ég tími bara ekki að kaupa mér skó á 15 þúsund kall þegar ég get fengið þá á 6 - 8 þúsund.
Við tókum Fifubrekkuna og héldum langleiðina yfir undir Vífilsstaði. Þar sneri ég við og tók tröppurnar, HK brekkuna og Réttarholtsskólabrekkuna á leiðinni heim. Kominn heim kl. 10.00. 35 km að baki og fjórar góðar brekkur. Fjögurra stjörnu æfing.
Fór niður í Laugar eftir hádegi. María var að keppa á meistaramótinu í frjálsum. Hún stóð sig vel, varð í 2-4 sæti í hástökki og komst í úrslit í 60 m en þar kepptu nær 50 stelpur víðsvegar af landinu.
Leikhúsferð í gærkvöldi. Það er alltaf gaman að fara í leikhús og maður gerir allt of lítið af því. Við sáum "Eldhús eftir máli" á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Mér hefur sjaldan leiðst eins á leiksýningu eins og í gærkvöldi. Leikritið er óskipulegur, sundurlaus en vafalaust mjög meðvitaður samhræringur úr smásögum Svövu Jakobsdóttur og fleiri. Ég er ekki meðvitaður. Heimsóttum vinkonu okkar frá námsárunum ásamt fleirum gömlum kunningjum eftir leikhúsið og rifjuðum upp gamla tíma. Alltaf gaman að því.
Sá í fréttum að Jókó Ónó var mætt til landsins og hún hafði séð í snarhasti að það var tilvalið að byggja 12 metra háa friðarstyttu út í Viðey. Til að eyjan verði ekki eyðilögð vegna ásóknar friðarsinna þá verður einungis leyft að heimsækja styttuna í eina viku á ári. Hvað á svona bull að þýða? Friðarstytta!! Give peace a chance. Jókó Ónó er í mínum huga ekki annað en ein af milljónum listamanna sem enginn hefði munað eftir í fyllingu tímans ef hún hefði ekki verið svo heppin að Lennon hreifst af henni á sínum tíma. Hún hefur lifað á nafni hans síðan og svo minningu hans eftir að Lennon dó. Mér leiðist þegar fólk eins og hún er að blaðra um að Íslendingar séu svo sérstakir og Reykjavík alveg einstök. Makalaust hvað svona snakk kitlar eyru margra.
sunnudagur, febrúar 26, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli