Fór niður í Laugar á tilsettum tíma í gærmorgun.Tókum hringinn vestur á Eiðistorg og síðan fórum við Bryndís gegnum Fossvoginn en aðrir tóku Suðurgötuna. Fórum ekki hratt yfir en spjölluðum þeim mun meir. Hringurinn gerði um 20 km. Maggi Sig. fór samtals um 15 km en hann lenti í miklu slysi fyrir nokkrum árum sem breytti öllum viðmiðunum. Með því að fara frekar hægt yfir þá er hægt að ná upp vegalengdum. Við kvöddum hann við Suðurgötuna með því að ef þetta héldi svona áfram þá tæki hann þátt í 1/2 maraþoni í ágúst. Tíminn er ekki alltaf aðalatriðið heldur að ná ákveðnum áföngum. Sigrarnir geta verið fólgnir í svo mörgu öðru en að vera í fremstu röð.
Las fjörlega grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Blaðinu um helgina þar sem hún lýsir skoðunum sínum á stöðunni innan Samfylkingarinnar og ástæðu þess að fylgi flokksins hefur heldur dalað að undanförnu. Gaman væri að vita hvernig svona umfjöllun er tekið þar innan dyra. Kolbrún fer ekki dult með það að hún saknar gamla Alþýðuflokksins. Maður veltir þessu sérstaklega fyrir sér vegna þess að nokkrir Framsóknarmenn hafa séð ástæðu til að taka sér penna í hönd á síðustu vikum og lýst þeim vilja sínum að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður yfirgefi flokkinn og það sem fyrst. Kristinn hefur unnið sér það til óhelgis að hafa aðrar skoðanir en ýmsum þykir passa og þá eru viðbrögðin á þennan veg. Svo merkilegt sem það er þá sýna niðurstöður skoðanakannana að fylgi flokksins er einmitt mest í kjördæmi Kristins. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp.
Horfði á tvær skemmtilegar heimildarmyndir í sjónvarpinu í gærkvöldi. Hin fyrri var um Bítlabæinn Keflavík. Svona bara til að hafa það á hreinu á hreinu vegna þess að Fréttablaðið birti mynd með Ríó tríóinu með frétt um myndina að þá er Ríó tríóið úr Kópavogi og þeir hafa aldrei verið kenndir við rokk. Bæjabbababbabæ og Upptrekkti karlinn voru ekki beint rokkhittarar. Um tíma voru þeir þó með sítt hár. Gaman var að sjá myndina og rifja upp gamlar stemmingar. Þetta voru alvöru poppstjörnur á sínum tíma. Ég man eftir því að einu sinni var ég staddur yfir á Patró að sumarlagi ca 14 ára gamall. Ég er úti að labba með félaga mínum á laugardagseftirmiðdegi. Þá stoppar hjá okkur rúta og spyr um leiðina að félagsheimilinu. Okkur er kippt upp í og við vísuðum veginn. Þetta voru þá Dátar að túrnera um landið. Rúnar Gunnarsson mættur í eigin persónu. Þetta var meiri háttar upplifun og við öfundaðir af heppninni. Um kvöldið fór maður með krökkunum niður í Skjaldborg og svo var hangið í anddyrinu til að heyra lögin sem bárust frá goðunum innan úr salnum. Trúbrot í Húsafelli árin 1969 og 1970 gleymist síðan ekki þeim sem ekki hafði möguleika að sjá þessar stjörnur svona daglidags.
Seinni myndin var um Rósku. Hún var ágætlega gerð á margan hátt en ósköp var þetta allt tragiskt þótt það hafi verið skemmtilegt líf oft á tímum, sérstaklega fyrri partinn. Endurspeglaði lífshlaup hennar kannski líf margra sem héldu að þeir gætu breytt heiminum og voru kenndir við 1968, stjórnleysingja, hippa, kommúnista og hvað þetta hét nú allt saman? Ég sá Rósku einu sinni árið 1991. Það var nú það.
mánudagur, febrúar 06, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli