mánudagur, febrúar 13, 2006

Fór út fyrir 6.30 á sunnudagsmorgun og tók Eiðistorgshringinn. Gott veður var lengst af en fór að hvessa undir það síðasta. Fyrirhugað var að fara til Vestmannaeyja með 3ja flokk Víkings í handboltanum og því var dagurinn tekinn snemma. Fljótlega kom hins vegar í ljós að ófært var frá Bakkaflugvelli svo ferðinni var frestað.

Dagurinn leið hjá án stærri tíðinda. Fór niður í vinnu og gerði klárt fyrir fund á mánudeginum auk annarra smáverka. Horfði á seinni hluta Bítlabæjarmyndarinnar í sjónvarpinu um kvöldið. Gaman að rifja þetta upp með viðtölum og myndum. Rúnar Júl. stendur náttúrulega upp úr sem aðalmaðurinn. Gaman að sjá hvað hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir að hafa siglt með Halastjórnunni í nokkur ár til að hafa fyrir salti í grautinn. Ég hef einu sinni hitt Rúnar. Það var þegar ég ásamt fleirum fórum til Rússlands að vinna fyrir rúmum tíu árum. Þá hringdi ég í nokkrar plötuútgáfur til að fá gefins diska með til að hafa með austur. Erindinu var yfirleitt tekið vel og Rúnar gerði sér meir að segja ferð upp á Keflavíkurvöll með slatta af diskum í poka og gaf okkur þegar við vorum að leggja af stað til Rússlands. Þetta var vel þegið en ég er ekki að segja að "Stolt siglir fleyið mitt" hafi slegið í gegn þar eystra. Það var frekar að Jet Black Joe hafi fallið í góðan jarðveg meðal þarlendra.

Fór í gærkvöldi með Jóa að sjá annan gamlan garp á breiða tjaldinu, sjálfan Johnny Cash. Myndin var þrælfín eins og umsagnir hafa gefið til kynna. Sagan í kringum manninn steinliggur á tjaldinu. Johnny Cash og June Carter eru eins og endurfædd í myndinni, meir að segja raddirnar hljóma eins og þær gerðu orginal. Ég man eftir því þegar fangelsisplatan kom út fannst manni hún ágæt en einhvern vegin féll músíkin ekki í kramið á tímum Led Zeppelin og Deep Purple þannig að kallinn féll hálfvegis í gleymsku hjá manni. Fyrir ekki mörgum árum síðan fór ég að hlusta á hann aftur og að var ekki að sökum að spyrja, þetta hitti beint í mark. Ég hef keypt mér allt sem ég hef getað náð í með honum og þar er hver platan annarri betri. Hann er sögumaður með afbrigðum og röddin er einstök. "Because you are mine, I walk the line"; Er hægt að segja meiningu sína betur í fáum orðum? Mæli með myndinni.

Engin ummæli: