Það var haldið af stað í morgun um 8.30 í góðu og björtu veðri. Það er farið að birta það snemma á morgnana að maður er ekki lengur í myrkri þegar lagt er af stað. Hitti Halldór og Pétur á venjulegum stað. Ákváðum að taka stífa æfingu í dag. Fórum fyrst yfir Kópavogshálsinn, yfir Kópavoginn hjá Fífunni og upp brekkuna þar fyrir handan. Pétur var tímabundinn og skyldi þar við okkur en við Halldór héldum til baka gegnum Smáralindarhverfið og tókum tröppurnar næst. Fórum niður þær aftur og tókum HK brekkuna upp á götu. Fóru síðan þvert yfir Fossvoginn og upp stíginn upp hjá Fossvogsskóla og upp að Réttó. Þaðan niður stokkinn og síðan Poweratehringinn öfugan. Fengum aukabónus þegar við tókum brekkuna upp að Breiðholtinu sem leið liggur frá stíflunni. Langt síðan ég hef tekið hana. Stoppuðum aðeins í Árbæjarlauginni og fylltum á en fórum niður sem leið liggur í Elliðaárdal og þar næst upp Árbæjarstokkinn upp að götu. Þá snerum við við og slepptum Jökulheimum og tönkunum því við vorum orðnir frekar tímabundnir. Vorum mjög léttir og tókum t.d. lokabrekkuna efst á Árbæjarstokknum á innan við 5.30. Dagurinn gerði rúmlega 31 hjá mér og Halldór kláraði um 36. Alvöruæfing. Maður finnur vel hvað þetta skilar sér vel í styrkleikauppbyggingu.
Fór að nota próteinið sem ég keypti hjá Daníel Smára á góðum prís. Ætla að auka próteinneysluna á næstu mánuðum hef trú á að maður vanmeti jafnvel þörfina fyrir það þegar æfingaálag er mikið.
María hélt upp á afmælið sitt í dag með vinkonupartíi enda þótt afmælisdagurinn sé á morgun. Stelpurnar sem voru svo litlar fyrir nokkrum árum eru að verða hálffullorðnar. Tíminn líður hratt.
Ég verð að segja það að ég kann betur við Silvíu Nótt sem singer heldur en TVstjörnu. Lögin sem kepptu í kvöld voru ekki til vinsælda fallin vel flest. Horfði á Idolið endursýnt í dag. Ég tek undir það sem maður hefur heyrt að það er harla skrítið að sjá þá sem eiga að vera á toppnum vera að berjast í neðstu þremur sætunum. Vafalaust er hægt að slá einhvern vörð um sitt fólk með því að peðra inn atkvæðum en er einhverjum gerður greiði með því. Margir þeirra sem eru í hópnum sem er eftir eru góðir söngvarar og hafa fína sviðsframkomu en aðrir eru síðri eins og gengur.
laugardagur, febrúar 18, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli