föstudagur, febrúar 24, 2006

Bætti upp svindl miðvikudagsins og tók tvöfaldan skammt í gær . Fór fyrst út upp úr kl. 6.00 og tók miðvikudagsskammtinn og kláraði síðan daginn eftir vinnu. Veðrið var eins og best verður á kosið eins og fyrri daginn. Maður sér að knúppar á runnum og limgerði eru farnir að grænka. Esjan er að verða snjólaus. Góan aðeins nýbyrjuð. Þetta getur endað með ósköpum ef veturinn kemur með krafti. Þeir sem lengra muna eða hafa lesið Öldina okkar geta flett upp á árinu 1963 þegar hitinn féll um ein 20C á nokkrum klukkutímum í apríl, úr ca 5 stiga hita í -15C frost. Þá stórskemmdist stærstur hluti af skóglendi á Íslandi. Ég hef trú á að þeir stofnar sem eru algegnari nú séu harðgerðari en þá en sama er. Manni stendur ekki alveg á sama.

Hlustaði á fréttir RÚV í gærkvöldi þegar ég var að hlaupa. Fannst skrítið að fréttamaður sá ástæðu til að lesa upp í fréttatímanum því sem næst öll fenisatriði í málsvörn sambornings í morðmáli þar sem Hæstiréttur hafði þyngt refsingu héraðsdóms. Ég sá í fyrsta lagi ekki tilganginn með þessu, í öðru lagi var ekki hægt að kynna málsvörn hins aðilans á viðlíka hátt og í þriðja lagi var endanlegur dómur fallinn sem skar úr um hve trúverðug málsvörnin var metin. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi verið sérstaklega áhugavert fyrir aðstendendur fórnarlambsins að hlusta á þennan upplestur.

Jói og félagar í Víking spiluðu við Gróttustrákana í gærkvöldi og unnu góðan sigur. Þeir eru að byggja upp skemmtilegt lið sem vonandi tekst að halda saman á komandi tímum.

Engin ummæli: