Það er stundum gott að hafa föstudagana frjálsa því þá er stundum tækifæri að gera eitthvað annað en hið hefðbundna. Í gær var einn slíkra daga. Eftir vinnu var farið í afmæli austur á Eyrarbakka. Inga Lára, kona Magnúsar Karels vinnufélaga míns hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í íþróttahúsinu á Bakkanum. Afmælisbarnið hafði arrangerað rútuferðum úr bænum þannig að þetta var eins þægilegt og hægt var að hugsa sér. Rútan fylltist þó stór væri þannig að það þurfti að kalla aðra út. Fyrir austan hitti ég meðal annars Þór Vigfússon fyrrverandi skólameistara og draugaáhugamann auk þess að vera snöfurlegur hlaupari. Þór sá ég fyrst árið 1982 þegar Gunnar heitinn Össurarson hélt upp á afmælið sitt í Fagrahvamminum fyrir vestan eitt gott júlíkvöld. Þá dreif að margra vini Gunnars. Fyrir utan að vera mikill húsasmiður og góður félagi þá var Gunnars meðal annars minnst fyrir það að hafa átt Willysjeppann sem gjallarhorninu var stillt upp á í slagnum á Austurvelli árið 1949. Þegar Gunnar hélt upp á afmælið sitt var Þór að vinna vestur á Hellissandi. Hann vildi gleðjast með vini sínum á afmæli hans og stökk því á bak gömlu gíralausu hjóli sem hann átti og hjólaði inn í Stykkishólm, tók Baldur yfir Breiðafjörðinn og hjólaði þaðan út í Fagrahvamm. Eftir lok veislunnar hjólaði hann daginn eftir sömu leið til baka. Þetta eru ca 240 km.
Þór sagði mér að nú yrðu tímamót í lífi hans á komandi vori ef allt gegni eftir sem ætlað væri. Hann ætaði að halda upp á sjötíu ára afmælið sitt með því að hlaupa sitt fyrsta maraþon á Mývatni. Þetta er almennilegur maður.
Einnig sagði hann mér annað og meira. Hinn eini sanni Jón hlaupari stefnir að því þann sama dag að setja heimsmet í maraþonhlaupi í flokknum 80 ára og eldri. Það er ekkert annað. Þór fullyrti að kallinn stæði klár að þessu ef ekkert óvænt kæmi upp á. Manni flýgur í hug hvort blaðamannaskriflunum sem keppast um að segja fréttir af skíðamönnum sem "komast niður brekkurnar" á yfirstandandi ólympíuleikum og eru á stundum einu til tveimur sætum fyrir framan þann síðasta sem kemst alla leið, finnist þetta vera fréttnæmt. Ég er ekki viss. Fjöldaíþróttir eins og almenningshlaup hafa sjaldnast átt upp á pallborðið hjá þeim. Manni dettur t.d. í hug fréttaflutningur af Reykjavíkurmaraþoni. Þetta er stærsti íþróttaviðburður landsins á hverju ári. Í sumar tóku yfir 4000 manns þátt í því. Frá hverju var sagt. Jú það voru birtar myndir af tveimur sænskum bræðrum sem voru fyrstir en síðan ekki söguna meir. Ég held að þeir sem skrifa fréttir af þessum viðburði horfi með blinda auganu á það sem er virkilega fréttnæmt í tengslum við svona atburði sem er þetta venjulega fólk sem er að vinna sína stóru prívat sigra með því að fara að skokka s.s. komast yfir sjúkdóma, offitu, reykingarfíkn og þannig mætti áfram telja.
Í veislunni hitti ég líka konu sem ég hef ekki séð í 26 ár en við fórum saman ásamt góðum hópi fólks til Kúpu í desember 1979 og vorum þar í einn mánuð. Það voru góðir dagar sem við áttum þar. Þessi ferð breytti mörgu í lífshlaupinu og varð á margan hátt upphaf að algerum kaflaskilum. Tilviljun ein réð því að ég fór í þessa ferð en ég rakst á auglýsinu um hana í húsi í Borgarfirði þar sem ég var gestkomandi. Slíkar tilviljanir hafa á margan hátt oft legið til grundvallar þeim beygjum sem maður hefur tekið í gegnum tíðina og hafa sem betur fer oft verið teknar í rétta átt þegar til baka er litið.
Krakkarnir sögðu mér að rauðhærða stúlkan hefði dottið út úr Idolinu í gær. Mér fannst hún vera ein af þremur bestu keppendunum. Shit.
laugardagur, febrúar 18, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli